22.6.2014 | 08:55
Hafði allt til að bera til að skera sig úr.
Michael Schumacher hafði svipaða hæfileika og sumir af allra fremstu og frægustu afreksmönnum heims, ekki aðeins það að skara fram úr á sínu sviði, heldur einnig það að ná þeirri stöðu að allir þekktu hann, engum var sama um hann og heil íþrótt hékk nánast á honum einum hvað snerti vinsældir og áhorf.
Hann var ekki aðeins dáður fyrir snilli sína heldur ekki síður fyrir það hve umdeildur hann gat verið og hve margir elskuðu að hata hann.
Að þessu leyti gegndi hann svipuðu hlutverki fyrir íþrótt sína og Muhammad Ali lék fyrir hnefaleikana.
Ástríða hans virtist eiga sé fá takmörk. Einu sinni sá ég stutt myndband af honum í góðgerðakeppni í knattspyrnu og einnig þar skar hann sig úr.
Hann vann sig upp úr nær engu, fyrst á gokart og meðal eigna hans er eldrauður gamall Fiat 500 sem hann þeysti á í blábyrjun ferils síns.
Skíðaíþróttin er að mörgu leyti mjög skyld bílaíþróttum og skiljanleg er sú nautn sem Schumacher hefur fengið út úr því að stunda hana.
Efast ég ekki um að hann hefur verið snjall á því sviði og haft unun af að reyna á þolmörkin.
En einnig þar láu slysahættan og óheppnin í leyni og hið ófyrirséða gerðist á einu augabragði.
Stærsta áskorun heimsmeistarans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.