Nýtt afrek bandarískra lögfræðinga.

Það er ekki á þá logið, bandarísku lögfræðingana, hvernig þeir geta unnið skaðabótamál með svimandi háum upphæðum þegar um ríkt fólk er að ræða og mannslífið metið á allt að 2400 milljarða króna eða 50% hærri upphæð en árleg þjóðarframleiðsla Íslendinga. 

Fyrir 30 árum tókst bandarískum lögfræðingum að rústa einkaflugvélaiðnaðinum þar í landi með slíkum skaðabótamálum.

Eitt af mörgum dæmum var það þegar auðkýfingur einn hafði ekki fest framsætið, sem hann sat í, nógu vel á sleðanum, og greip í fáti í stýri flugvélarinnar þegar sætið rann aftur á bak með þeim afleiðingum að vélin ofreis og spann í jörðina. Talið var að um vanrækslu framleiðandans hefði verið að ræða með því að vara ekki sérstaklega við því að sætið gæti runnið aftur á bak ef það væri ekki nógu tryggilega fest.

Skaðabótabylgjan gekk svo langt, að ekki var hægt að halda einföld sundlaugarpartí eða garðpartí í Bandaríkjunum nema hver gestur undirritaði heilmikla yfirlýsingu um það að hann kæmi inn á sundlaugarbakkann á eigin ábyrgð og hefði kynnt sér út í hörgul allar aðstæður og hættur á partísvæðinu.

Framleiðendur litlu flugvélanna urðu gjaldþrota vegna svona skaðabótamála og iðnaðurinn hrundi.

Skaðabótamálið gegn tóbaksframleiðandanum lyktar af þessu.

Ég hef út af fyrir sig svosem enga samúð með tóbaksframleiðendum.

Um þá ættu auðvitað að gilda lög til að tryggja að þeir setji aðvörunarmerkingar á sígarettupakkana sem standist þær kröfur sem nánar er tilgreint um í lögum og reglugerðum.

Þau lög ættu að fela það í sér að ef þeir fari ekki eftir þeim, sé þeim refsað þeim fyrir það og jafnvel sviptir leyfi til tóbaksframleiðslu.

Reykingamaðurinn, sem var svona mikils virði, hlýtur að hafa vitað af skaðsemi tóbaksreykinga eftir að þær hafa verið ræddar og kynntar í hálfa öld.

Ég efast um að aðvörunarmerki á pakkanum hefði getað fengið hann til að hætta að reykja, - þekki nógu marga sem geta alls ekki hætt, sama á hverju gengur, svo óviðráðanleg getur nikótínfíknin verið, enda er ekkert fíkniefni talið líkt því eins ávanabindandi og nikótín, ekki einu sinni heróín.  

Þetta mál minnir mig á annað mál.

Nú hefur verið gefinn út alveg nýr og ótrúlega umfangsmikill listi um svo yfirgripsmiklar athuganir á litlum vélum af Cessna gerð, að það gæti endanlega orðið til þess að engin leið sé fyrir einstaklinga að halda slíkum flugvélum úti. Og þar með verði þær líka óseljanlegar. 

"Það er ekki að spyrja að ESB" hefur verið venjulega viðkvæðið hjá þeim sem ég hef sagt frá skrifræðinu hjá EASA, sem er reyndar Flugöryggisstofnun Evrópu allrar en ekki bara ESB.

En listinn yfir hinar nýju og stórkostlegu skoðanir á Cessna flugvélum kemur ekki frá EASA, heldur beint frá hinum bandaríska framleiðanda vélanna.

Að manni læðist sá grunur að ekki sé útilokað, að öðru sinni séu bandarískir lögfræðingar að gera aðför að framleiðendum litlu flugvélanna með sínum mögnuðu skaðabótamálaferlum og að það sé undirrót þess sem er gerast.  

 

 


mbl.is Ekkja reykingamanns fær háar bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það þarf ekki að horfa til Bandaríkjanna til að finna undarleg málaferli. Hér á landi eru í gangi málaferli þar sem seljandi telur sig hafa verið of heimskan til að vita hvað hann væri að selja. Þar eru seljendur skuldabréfa með vísitölubindingu að sannfæra dómsvaldið um að þeir hafi enga þekkingu á verðbólgu og hvaða áhrif hún hafi. Að þrátt fyrir tugi frétta í hverjum mánuði síðustu áratugina um hækkanir og áhrif þeirra á skuldir landsmanna þá séu Íslendingar almennt ómeðvitaðir um að samband sé milli afborganna af þeirra lánum og hækkana verðlags.

Gústi (IP-tala skráð) 20.7.2014 kl. 15:52

2 identicon

Ef hægt er að fá dóma til að sveiflast svona í þessa áttina

þá hljóta þeir líka oft að fara í hina áttina

og þeir sem eiga inni réttmætar skaðabætur

fá ekki neitt

en það geta líka allir fengið vottorð um  "áfallastreituröskun"  

Grímur (IP-tala skráð) 20.7.2014 kl. 20:01

3 identicon

"... þá hljóta þeir líka oft að fara í hina áttina og þeir sem eiga inni réttmætar skaðabætur fá ekki neitt"

Já, þannig er það á Íslandi þar sem réttlæti í dómskerfinu fyrirfinnst ekki og þar sem lögmenn (verjendur) eru duglausir durtar, nema þegar skjólstæðingurinn er ríkur og fóðrar vasa lögmannsins.

Þá vil ég heldur ameríska kerfið upp að vissu marki, þ.e. ekki þessar svimadi upphæðir, en lögfræðinga sem hugsa ekki bara um eigið rassgat eins og hér á landi, heldur hugsa líka um rassgat skjólstæðingsins.

Pétur D. (IP-tala skráð) 21.7.2014 kl. 10:28

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Allir hefðu átt að sjá það 2007 að "what goes up must come down". Það var óhugsandi að hægt væri að halda hér uppi meira en 30% hærra gengi en nam raungengingu og óstöðvandi lántökum og neyslu.

En dýrðarsöngurinn um einstæða snilli Íslendinga í efnahagsmálum og bankamálum, "trausta efnahagsstjórn" á kosningaskiltum Sjalla og "áfram árangur, - ekkert stopp" var tekinn sem guðspjöllum.

Eftir á er hlálegt þegar allir þykjast hafa verið í góðri trú og enginn bera ábyrgð á neinu.

Ómar Ragnarsson, 21.7.2014 kl. 12:14

5 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Vel að merkja eru þessir dómar kveðnir upp af kviðdómum, ekki dómurum, af hópi hrifnæmra, fákænna manna utan úr bæ. Snjallir lögfræðingar geta oft fengið fólk til að fella undarlega dóma.

Vilhjálmur Eyþórsson, 22.7.2014 kl. 02:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband