Gríðarleg búbót fyrir bláfátæka stórþjóð.

Álíka margir búa í Eþíópíu og í Þýskalandi, en þjóðartekjur á mann í Eþíópíu eru meira en hundrað sinnum minni en í Þýskalandi og hagkerfi landsins minna en hagkerfi Íslands þótt þjóðin sé næstum 300 sinnum fjölmennari.  

Það vakti sérstaka athygli mína á tveimur ferðum yfir og um Eþíópíu hér um árið, hve mjög landið er mótað af eldvirkni, og fljótlegt að sjá af gögnum, hve mikil jarðvarmaorka hlýtur að vera þar óbeisluð.

Aðstæður eru að öðru leyti gjörólíkar þar og hér. Hin eldvirku svæði þar eru ekki flokkuð í hóp helstu náttúruundra jarðar eins og hinn eldvirki hluti Íslands er, og hvert megavatt, sem virkjað er í Eþíópíu hefur hundrað sinnum meiri áhrif á hag landsbúa en sama orka hér á landi. 

Orka Eþíópíu er sennilega það mikil að þar væri hægt að framkvæma þá hugsun helstu hugsuða í hópi íslenskra sérfræðinga að hún sé nýtt á sjálfbæran hátt, en hingað til hefur verið fjarri því að við gerum slíkt hér, heldur höfum við stundað hreina rányrkju og að stórum hluta til með óviðunandi loftmengun. 

Í krafti þess að við höfum nýtt orkuna með hrein skammtímasjónarmið í huga höfum við í raun tekið frá Eþiópíumönnum möguleikana á sölu ódýrrar orkunnar þar í landi. 

Nú gætum við bætt fyrir það með því að vera í fararbroddi í heiminum við sjálfbæra nýtingu á jarðvarmaorku án stórfelldra spjalla á einstæðri náttúru, með því að aðstoða Eþíópíumenn og aðrar fátækar þjóðir við að brjótast út úr ólýsanlegri fátækt.  


mbl.is Undirbúa mikla orkuöflun í Eþíópíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Athyglisverð pæling. En hvernig hefur ósjálfbær jarðvarmanýting á Íslandi skert möguleika Eþíópíumanna til sjálfbærrar nýtingar?

Vésteinn Valgarðsson, 29.12.2014 kl. 13:16

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jú, við sendum út bækling 1995 til helstu orkukaupenda heimsins þar sem boðuð var sú stefna okkar að bjóða þeim "lægsta orkuverð" með "sveigjanlegu mati á umhverfisáhrifum".

Sem sagt: Undirboð. 

Eftir þessu höfum við farið í meginatriðum síðan og látið okkur hafa það að Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur séu skuldum vafin á sama tíma og til dæmis Alcoa fyrirtækið er að nálgast það að vera þegar búið að græða upp alla fjárfestingu sína í álverinu á Reyðarfirði.  

Ómar Ragnarsson, 30.12.2014 kl. 00:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband