8.2.2015 | 23:49
Ég er heldur ekki "fluttur á hjúkrunarheimilið Eir".
"Það er lítið sem hundstungan finnur ekki" segir máltækið og það kemur upp í hugann varðandi söguna um Parkinsonsjúka Helgu Möller, sem fór á kreik í gærkvöldi af orsökum, sem ég og fleiri tókum raunar ekki eftir. En nú er sá árstími sem hefð hefur verið fyrir að flestar kjaftasögur fari á kreik og þetta getur svo sem gerst á öllum árstímum eins og ég hef fundið á eigin skinni.
Í hitteðfyrrahaust fóru tvær fyrirsagnir á flug.
Önnur var: "Ómar Ragnarsson fluttur í fangelsi".
Og skömmu síðar: "Ómar Ragnarsson fluttur á Eir".
Sem sagt: Gaurinn á hraðri niðurleið og mátti búast við að stutt yrði í næstu fyrirsögn: "Ómar Ragnarsson fluttur í Grafarvogskirkjugarð."
Það þurfti að hafa fyrir því að koma því á framfæri að hjúkrunarheimilið Eir er næstum tvo kílómetra í burtu frá íbúðinni í Fróðengi 7, sem ég flutti í.
Sú húsasamstæða með Borgarholtsskóla sem næsta hús, var að vísu reist af Eir, en vegna gjaldþrots Eirar, var ákveðið að leigja íbúðirnar þar út á almennum leigumarkaði með engum ákvæðum um aldur leigjanda.
Fyrir aldarfjórðungi fór á kreik aldeilis mögnuð saga af því að ég væri skilinn við Helgu og fluttur að heiman frá henni í blokk við Sólheima.
Sagan var undra fljót að breytast í margar sögur af samböndum mínum við ýmsar nafnkunnar konur og var það svo glæsilegur listi að einhver hefði orðið spældur út af því að missa af svona mörgum krassandi ástarævintýrum.
Fóturinn fyrir sögunni var reyndar réttur út af fyrir sig: Vitað var að ég átti heima við Háaleitisbraut, en ég hafði sést hafa farið laumulegur á svip inn í blokk eina í austurhluta borgarinnar seint að kveldi, greinilega þreyttur og slæptur, berandi nokkra þvælda plastpoka.
Meira þurfti ekki til að hrinda af stað hinum stórkarlalegu sögum af kvennafari mínu en kjaftaskjóðunum láðist að athuga hvaða konu ég væri að heimsækja.
En það var nú engin önnur en hún Helga mín í íbúðinni, sem við höfðum flutt í að Sólheimum 23.
Helga Möller ekki með Parkinson | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Var með heilum kvennakór,
að kjaftatífa mati,
upp á þær hann allar fór,
en allt var það í plati.
Þorsteinn Briem, 9.2.2015 kl. 00:04
Góður Steini Briem! Of mikið um plat í lífinu.
Haukur Krsitinsson (IP-tala skráð) 9.2.2015 kl. 00:19
Supersonic dreams - BBC
Þorsteinn Briem, 9.2.2015 kl. 06:56
Held að það þurfi eitthvað mikið til, til þess að koma þér undir græna torfu. Sem betur fer.
En einnig er það svo merkilegt með þjóðkunna einstaklinga að stundum virðist sem það sé nóg að þeir sjáist á almannafæri til þess að allrahanda kjaftasögur komist á kreik. Já, hún Gróa lifir betra lífi hér en víðast annarsstaðar. Ég hef stundum hugsað að ég þyrfti að sækjast eftir opinberu embætti einhversstaðar svo að ég gæti raðað saman tímanum á milli tvítugs og þrítugs. Man ekki of mikið eftir honum.
Heimir Tómasson, 9.2.2015 kl. 09:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.