Ógleymanleg stutt kynni 1995. Kostulegir erlendir þættir.

Ýmsa fræga hefur maður hitt um dagana en Jeremy Clarkson er hugsanlega sá skemmtilegasti, þótt kynnin tækju aðeins um tíu mínútur við Litlu kaffistofuna 1995 þegar hann gerði einn þátta sinna hér á landi.

Sá þáttur hét "Jeremy Clarkson´s MotorWorld - Iceland."   

Stærsti kostur Clarksons er hve óhemju hröð tilsvör hans eru, en hraðinn getur sennilega líka komið honum í koll, því að "the quickest draw in the west" eins og það nefnist í kúrekamyndunum, byggist oft á því að skjóta fyrst og spyrja svo.

Þau stuttu orðaskipti sem varðveist hafa í Íslandsþætti "Jeremy Clarksons´MotorWorld" eru fjarri því að vera þau skemmtilegustu eða bestu þarna við hliðina á flygildinu Skaftinu við bensíndæluna, því að Clarkson var í mesta stuðinu á meðan myndavélarnar voru ekki í gangi og verið var að undirbúa tökurnar. 

Ég man sáralítið af því, nema kannski orðaskiptin þegar hann spurði mig hvað ég hefði gert um dagana, vildi fá að vita það út í hörgul ef það mætti nýtast honum í viðtalinu.

Ég reyndi að telja það upp sem ég myndi eftir að hafa sýslað við í atvinnuskyni; sveitastörf, hafnarvinna, járnabindingar, sprengingar og boranir, leikhús, skemmtanir, söngur, plötugerð, tónsmíðar, textagerð, rallakstur, flug, dagskrárgerð, spurningaþættir, veðurfréttir, almenn sjónvarpsfréttamennska o. s. frv.

"Sjónvarpsfréttir, einmitt það" sagði Clarkson. Þá geturðu sagt mér eitthvað um það hvernig þjóðinni vegnar um þessar mundir."

"Jú, kannski," svaraði ég. "Það gengur bærilega en þó hefur verið meira atvinnuleysi en oft áður."

"Er það furða? - það kemst enginn að í vinnu fyrir þér," svaraði Clarkson á sekúndubrotinu.    

P.S.  Í athugasemd hér fyrir neðan er minnst á sænskan sjónvarpsþátt um Ísland og Íslendinga sem gerður var 1965 fyrir daga íslenska sjónvarpsins, aldeilis kostulegur þáttur, sem aldrei hefur verið sýndur í íslenska sjónvarpinu.  


mbl.is Fjölhæfur en frakkur þáttastjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Hér er þátturinn 
http://biggibraga.blog.is/users/28/biggibraga/files/Gamalt/motorworld_1995_6920.mp4

Birgir Þór Bragason, 11.3.2015 kl. 11:55

2 identicon

Eins og ég hef sagt oft áður, var þessi þáttur Motorworld einn sá besti í þeirri seríu, sem fyrst voru 6 þættir um 6 lönd og Ísland eitt af þeim. Síðan voru þeir færðir upp í amk. 12.  Í kjölfarið voru gerðir samantektarþættir og bók, sem Jeremy gaf mér þegar við hittumst nokkrum árum síðar.  

Motorworld fjallaði um bíla, vélknúin tæki og hvernig fólk notaði vélknúin samgöngutæki í tengslum við daglegt líf og menningu í mismunandi löndum.  

Þemað var mismunandi.  T.d. Bandaríkin þar sem hjarta bílsins var, Víetnam, þar sem bílar þekktust nánast ekki, Kúba þar sem þróun bílsins staðnaði o.s.frv.  

Heilinn á bak við þá seríu var eins og í Top Gear og aðra frábæra seríu Speed, voru Andy Wilman og Jeremy Clarkson.  Það sem var magnaðast við að kynnast og vinna með þessum mönnum voru áhugi og framsýni þeirra og síðan  vanþakklætið gagnvart ávinningnum af þeim sem þóttust vita betur.  

Maður fann það mjög í sjónvarps, fjölmiðla og ferðageiranum á Íslandi, svo ekki sé talað um pólitíska sviðið og embættismannakerfið, þar sem afturhaldið var algjört. Svona gera menn ekki......

Árið 1995 var það ekki talið flott að svona góð og öðruvísi umfjöllun um land og þjóð, sem ekki byggðist á sauðargærum, "menningu"  og fornsögum vekti athygli erlendis.  Staðreyndin var sú, að þessi þáttur sló þvílíkt í geng í Bretlandi og Evrópu, að hann náði áhorfsmetum í þessum flokki hjá BBC. Þar náði Íslandsþátturinn mestu.  

Motorworld var síðan sýndur um allan heim, nema á Íslandi.  Flugfélög og ferðaþjónusta keyptu seríuna til að sýna árum saman, þar sem viðkomandi lönd komu við sögu, nema Ísland.  Það átti t.d. við um American Airlines, Quantas í Ástralíu o.fl.

Þessi þáttur hefur aldrei verið sýndur eða notaður í framsetningu Íslands erlendis af öðrum en BBC. Hann er samt í fullu gildi og gerður með bestu tækni og aðferðum árið 1995, sem enn stenst tímans tönn, þó svo að rúm 20 ár séu liðin frá því að hann var gerður.  Í kjölfarið komu fjöldi annarra sjónvarpsstöðva næstu 2 árin, eins og Discovery með Extreem Machines, National Geograpic með Lonely Plannet og margir fleiri.  Allt byggði það á Motorworld 1995.

Samt koma þarna fram fyrstu kynni af mörgu því sem íslensk ferðaþjónusta státar af í dag, eins og jöklaferðir á breyttum jeppum.  Sýnir og sannar hversu aftarlega við stöndum í frumherjastarfi og nýsköpum á mörgum sviðum, nokkuð sem enn er við líði í dag varðandi atvinnu og nýsköpun á Íslandi.  Svona er þegar afturhaldið ræður ríkjum, en þar eru íslendingar snillingar....

Það var heiður og mikill lærdómur að vinna með mönnum eins og Andy Wilman, Jeremy Clarkson, Ómari Ragnarssyni og fjölda annarra sem komu fram og að gerð þessara þátta.

Ólafur Guðmundsson- (IP-tala skráð) 11.3.2015 kl. 22:31

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Árið 1965 komu hópur sænskra sjónvarpsmanna til Íslands til að gera þátt um land og þjóð. Þegar hann var sýndur, fékk hann heitið "En ö at synge paa" og var aldeilis kostulega skemmmtilegur. 

Svíarnir sáu landann og mótsagnirnar í þjóðlífinu í spéspegli, og var hápunktur þáttarins þegar þeir fóru á milli íbúða í blokk í Vesturbænum, fyrst inn í íbúð hjá Ormi Ólafssyni og fleirum í Kvæðamannafélaginu Iðunni þar sem íslenskar rímur voru kveðnar við raust, og síðan augnabliki síðar komnir inn í íbúð þar sem öll fjölskyldan sat sem límd við sjónvarpið og horfði á vestraþáttinn Bonanza í Kanasjónvarpinu á sama tíma sem ekkert íslenskt sjónvarp var til. 

Og fyrr en varði voru Svíarnir síðan komnir inn í Austurbæjarbíó þar sem allt var á öðrum endanum á bítlatónleikum The Kinks með unglingahljómsveitina Tempó á útopnu í sínum sérstæðu þeysum. 

Í þessum sænsksa þætti voru líka tekin upp atriði úr Járnhausnum eftir Jónas og Jón Múla Árnasyni, en það eru einu slíku heimildarmyndirnar, sem til eru af frumflutningi söngleikja þeirra á þessum tíma. 

Rokk-klikkaður unglingur söng fyrsta íslenska poppmyndbandsvídeóið niðri á bátabryggju í Reykjavíkurhöfn og þeyst var á hestum norður í Kelduhverfi í gerð kvikmyndarinnar Rauðu skikkjunnar. 

Þátturinn hefur aldrei verið sýndur í íslensku sjónvarpi í þau bráðum 50 ár, sem liðin eru frá gerð hans. 

Þegar hann var gerður litu margir Íslendingar Svía hornauga fyrir það hvaða augum þeir litu á það heita íslenska deiluefni hvort við ættum að láta það gott heita og nægja að láta sjónvarp fyrir erlenda hermenn vera eina sjónvarpsefnið, sem væri á boðstólum hér. 

Mig grunar að það hve þetta var "viðkvæmt" hafi ráðið einhverju um að þessi sögulegu gögn um þessa tíma fyrir 50 árum hafa ekki ratað til okkar sjálfra enn, hvað se síðar verður. 

Ómar Ragnarsson, 12.3.2015 kl. 07:23

4 identicon

Skemmtileg frásögn. 

Þetta má kalla bráðsnjallt tilsvar.  !

Að vera fljótur að hugsa og að vera orðheppinn, og ekki verra að geta séð spaugilegu hliðina á hlutunum.

það er hæfileiki.

En þettta veist þú nú, Ómar Ragnarson, eftir ævilangt starf.

Heimir H. karlsson (IP-tala skráð) 12.3.2015 kl. 08:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband