6.5.2015 | 09:09
Fáum Lækinn sjálfan "úr felum"!
Í borginni Árósum á Jótlandi rennur opið vatnsfall um borgarmiðjuna til sjávar og borgin ber líkast til nafn af því. Á ferð um borgina fyrir rúmum áratug skoðaði ég aðstæður þar og gerði mælingar á ánni eða læknum og næsta umhverfi hans.
Niðurstaða mín var sú að sú mótbára stæðist ekki, að ekki væri hægt að opna Lækinn í Reykjavík vegna plássleysis. Það er vel hægt.
Sömuleiðis er ekki boðleg sú mótbára, sem var höfð uppi þegar hugmynd kom fram um að opna Lækinn, að við Íslendingar værum svo miklir sóðar að við myndum fylla lækinn af bjórdósum, umbúðum og sígarettustubbum, sem við hentum í hann.
Við hljótum að geta hagað okkur eins og aðrar siðmenntaðar þjóðir.
Í Alþýðubókinni tekur Halldór Laxness ýmsa ósiði og sóðaskap okkar á þeim tíma til bæna og flest af því sem hann gagnrýndi, lagðist af sem betur fór.
Rétt eins og engum dettur í hug að minnka Tjörnina meira en gert hefur verið í áranna rás, heldur er henni viðhaldið vegna umhverfis- og menningargildis, hefði ekki átt að loka Læknum á sínum tíma.
En sú aðgerð þarf ekki að vera óafturkræf. Þegar ég var á ferð í Árósum var ekki annað að heyra en að menn væru sammála um að það yrði sjónarsviptir af þessu vatnsfalli ef það yrði lagt í lokaðan stokk.
Þar er óumdeilt að "lækurinn" hafi menningarsögulegt gildi og sé bæjarprýði. Sama myndi gerast ef Lækurinn í Reykjavík kæmi "úr felum."
Merkur bær úr felum við Lækjargötu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Er lækurinn enn þarna til staðar Ómar??
Jóhann Skarphéðinsson (IP-tala skráð) 6.5.2015 kl. 09:48
Ómar, sem gamall Árósarbúi (og fornleifafræðingur), þá verð ég enn einu sinni að leiðrétt þig. Það er ekki lækur sem rennur um Árós, og út að Árósi þeim sem bærinn er kenndur við, þótt Íslendingar þykist vita betur og klíni fleirtölu á bæjarnafnið. Það er á sem rennur um Árós. Hún hefur verið þar frá örófi alda, og var á síðari tímum færð í stokk undir vegina þar sem hún rennur, Þar sem er búið að opna ána hefur öldurlíf bæjarins tekið fjörkipp við bakka hennar, síðan að ljóminn fór af Skolegade sem áður var fyllerísgatan í bænum. Menn tala um Parísarstemningu. Því fer nú fjarri. Þarna eru mjög oft vandræði vegna ölvunar og jafnvel hafa verið framin þarna hryðjuverk af óðum múslíma. Hönnun öll er verk arkítekta með hvítt duft í nefinu. Þetta er ekki fallegur staður.
FORNLEIFUR, 6.5.2015 kl. 11:33
Hér má lesa um þróun árinnar í Árósi http://www.urbanmediaspace.dk/aaen/billeder þar sem Ómar gerði mælingar á "læknum" fyrir 10 árum.
FORNLEIFUR, 6.5.2015 kl. 11:39
Fornleifur frændi!
Sem málfræðingur verð ég að leggja orð í belg. Það er forn venja Íslendinga að tala um árósa í fleirtölu svo sem upptök. Á rennur frá upptökum til ósa. Skiptir þá ekki máli þótt ósinn sé aðeins einn; ósar skulu það vera. Því er það fyllilega rökrétt að tala um Árósa í Danmörku þótt innfæddir séu löngu búnir að gleyma uppruna sínum og máli feðranna.
Þessi kenning kann að virðast stangast á við heiti krummaskuðs nokkurs í Noregi sem kallast Niðarós en við skulum hafa í huga að í húsi málvenjanna eru margar vistarverur og ekki endilega víst hvar hverjum skal búinn staður. Hér mætti einnig nota orðfærið „í húsum málvenjanna“ og kæmi í sama stað niður.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 6.5.2015 kl. 12:15
Ómar, ansi dapurt er um að lítast snemma morguns í miðborginni um helgar.
Miðað við þá umgengni þykir mér líklegt að opinn lækur á þessum ´´helga´´ skemmtireit borgarinnar yrði harla sóðalegur.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 6.5.2015 kl. 13:29
Lækurinn í Reykjavík rennur undir Lækjargötu út Tjörninni til sjávar.
Takk, Fornleifur, fyrir ábendinguna með nafnið og skal gera textann skýrari.
Fannst samlíkingin þægilegri ef orðið lækur yrði notað um bæði vatnsföllin, enda ljóst, að ef hægt er að koma hafa á opna í Árósum, ætti að vera hafa læk opinn í Reykjavík.
Hvað glæpatíðni snertir sýnist mér hæpið að kenna ánni í Árósum um slíkt.
Og Niðarós eða Þrándheimur er ekki meira "krummaskuð" en Reykjavík, því að engin borg í heimi er sambærilegri við Reykjavík að stærð, menningu, kjörum, veðurfari og umhverfi en Þrándheimur.
Álíka margir búa samtals í Þrándheimu og Þrændalögum og samtals í Reykjavík og á suðvesturhorni landsins, og bæði svæðin eru á sömu breiddargráðu.
Ómar Ragnarsson, 6.5.2015 kl. 14:52
Hver segir að Reykjavík sé ekki krummaskuð? Hún er alltént ekki nafli alheimsins, það er ljóst. Hann er í Skagafirði. Bara svo þetta sé á hreinu.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 6.5.2015 kl. 15:49
Hofsós er kusk í nablanum þínum, Þorvaldur, og Namsos er í Noregi. Ekki langt undan Hofsósi er hinn rómaði staður Blönduós. Málvenja og málvenja, ég gef lítið fyrir hana þegar rökin eru ekki góð hjá omfallista að Norðan sem býr Keblavík, þar sem eini ósinn er klóakið fyrir aftan kaupfélagið.
Margir Danir halda að Århus þýði árar við hús. Þannig var lengi mynd af árum og húsi á innsigli bæjarins. Síðar uppgötvuðu menn að nafnið þýddi Árós (í eintölu), líklega þegar þeir lásu Snorra forföður minn (skv. Íslendingabók). Enda ekki nema einn ós í Arósum, sem ekki greinist líkt og á sumum stórfljótum.
Farðu því ekki með fleiri ósannindi Valdi, þó þú sért íslenskufræðingur suður með show.
FORNLEIFUR, 7.5.2015 kl. 06:25
Eigum við nokkuð að fara að haga okkur eins og maðurinn frá Brjánslæk, þótt okkur greini á, kæri Fornleifur?
Það sem ég vildi sagt hafa, og stend við það, er að þótt ósinn sé einn er ekki útilokað að Íslendingar tali um hann í fleirtölu án þess að um sé að ræða vísvitandi afbökun eða kvikinsku. Þar má til dæmis nefna að nyrsti bær í Hegranessýslu að austan heitir Hraun í fleirtölu en utast að vestan er Hraun í eintölu.Ég hef reyndar ekki pissað í lækinn í Árósum, en spýtt í hann, og er ljóst að þetta er fremur straumlítið og þyrfti járngrind(ur)(eintala eða fleirtala?)yfir til að varna því að fylliraftar falli í hann.
Svo bý ég alls ekki í Kebblavík. Ég bý í hlíðum öskjunnar, milli lífs og dauða.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 7.5.2015 kl. 08:49
Briem frá Brjánslæk er sammála mér í þessu. Straumurinn í læknum í Árósum getur orðið töluverður í rigningum, og ég biðst forláts á þessu með búsetuna. Ætlaði ekki að móðga neinn. Þú kennir einungis lýðnum í Kebblavík, sem þekkir einungis hraun í plúralis, og vonandi ertu nær lífi en dauða í trjágarði þínum við lerkilurkakofann undir skugga Perlunnar - ekki langt frá ósum Fossvoslækjarins, eða Læksins eins og sumir íslenskufræðingar eiga það til að kalla hann.
FORNLEIFUR, 8.5.2015 kl. 07:31
Jæja. Það er þó alltaf munur að geta kítt á góðlátlegan máta. Og svo fréttist af íslenskufræðingnum við Lækstorg að kenna stærðafræði í iðnskólanum í Habbnarfirði. En nú er hann hættur því og búið að leggja skólann niður.
Libbðu heill. Ég skal bera vini mínum, Einari Jónssyni frá Skógum, kveðju þína. Svona ef þú hreyfir ekki milum mótmælum.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 8.5.2015 kl. 08:02
Skógasnillingnum Einari Jónsyni mátt þú færa mínar allra bestu kveðjur. Ég talaði við hann fyrir rúmum hálfum mánuði síðan, en aldrei er hægt að heilsa nógu oft á öðlinga. Eins bið ég að heilsa öllum Kebblvíkingum. Mér er hlýtt til þeirra og sérstaklega þeirra sem ekki vita hvort þeir eru af Miðnesheiðinni eður ei - og heita ekki Erlendur Sveinsson eða Sveinn Hermannsson.
FORNLEIFUR, 8.5.2015 kl. 11:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.