Netheimar og mannheimar.

Við lifum á tímum mjög mikilla breytinga á mannlegum samskiptum jarðarbúa. Fern aldahvörf hafa orðið í samgöngum, samskiptum og fjarskiptum síðustu 130 ár. 

Hin fyrstu urðu í kringum aldamótin 1900 þegar sími og loftskeyti rufu einangrun í fjarskiptum.

Næst komu tvær byltingar í flugi, hin seinni þegar þoturnar leystu hægfara bulluhreyflavélar af hólmi.

Þriðja byltingin hefur verið að ganga yfir síðustu 20 ár, bylting í netsamskiptum og tölvutækni.

Hún er svo gagnger að tala má um tvenna heima, netheima og mannheima.

Píratar eru fulltúar þeirra sem lifa og hrærast í netheimum. Við hverjar kosningar hækkar aldursmark stærsta markhópsins sem kýs þá um fjögur ár, - var 18-28 ára í síðustu kosningum og verður 18-32 ár í næstu kosningum, þegar 20 þúsund nýir kjósendur koma inn en um 15 þúsund kjósendur verða dottnir út. 

Það þýðir hvorki meira né minna en 35 þúsund atkvæða breytingu samtals. 

Haldi Píratar rétt á spilum sínum mun þeim því fjölga, netheimar eru orðnir staðreynd en ekki loftkastalar og skaðlegt að afneita því.

Íslensku píratarnir lifa og hrærast í netheimum, eru þar á heimavelli og margir þeirra íðilsnjallir í þeim efnum og fá afar nytsamar hugmyndir, sem þörf er á að virkja.

Þeirra ær og kýr er að afla upplýsinga og stuðla að miðlun þeirra á ýmsan hátt og í nútímaþjóðfélagi er brýn nauðsyn á að nýta kosti þessarar byltingar til að efla lýðræði og bæta stjórnarhætti. Píratar og þeirra líkar geta gert mikið gagn. 

Þetta skynjar fólk sem telur Pírata boðbera nýrra tíma og finnst jafnframt þeir, sem hafa allt á hornum sér varðandi Pírata, vera fulltrúa stöðnunar, afturhalds og úreltra sjónarmiða.

En neitheimabyltingin hefur líka sína ókosti og skuggahliðar, því að enginn skyldi vanmeta gildi mannheima, þótt einhverjum finnist bein mannleg samskipti sem meginfyrirkomulag samskipta vera gamaldags og úrelt. 

Væri svo, væri hægt að leggja niður öll ferðalög, fundi og ráðstefnur.

Ég minnist þess að í starfi stjórnlagaráðs var nálægt 100% mæting á nefndafundi enda fór langmest af starfi ráðsins fram á nefndafundum. Eftir reynsluna af því er óhætt að segja að aldrei hefði tekist að klára verkefni ráðsins einróma án þeirrar alúðar sem lögð var í vel skipulögð og markviss nefndarstörf í krafti jákvæðni og gefandi beinna samskipta og kynna nefndarmanna.   

Í starfinu var ný samskiptatækni einnig notuð til hins ítrasta fyrir opnum tjöldum til að efla flæði upplýsinga og skoðana og þar með lýðræðisleg vinnubrögð. 

Ég hef áður hér í pistlunum komið Pírötum til varnar varðandi það að vegna þess að mest af starfi Alþingis fer fram í nefndum og þingmenn Pírata eru aðeins þrír, geta þeir ekki haft jafn góðan aðgang að upplýsingum og skoðunum í öllum málum og stórir þingflokkar. 

En þess mikilvægara er að þeir ræki vel þau nefndarstörf sem þeim standa þó til boða og hafi í huga, að þrátt fyrir mikilvægi netheima er hættulegt að vanmeta eða vanrækja mannheima. 

 

 

 

 


mbl.is Píratar mæta verst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Einfaldasta lausnin á þessu er að kjósa fleiri pírata inn á þing svo þingflokkurinn verði nógu vel mannaður til að geta sótt alla nefndafundi.

Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.5.2015 kl. 12:58

2 identicon

Það er líka hætt við því að verkefnin hrúgist upp á meðan menn sitja á eilífum fundum við að ákveða það hvort fundarborðið eigi að vera kringlótt eða ferkantað.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 20.5.2015 kl. 13:18

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þess vegna eru píratarnir heldur ekkert mikið að sækja slíka fundi, heldur reyna frekar að verja tímanum í eitthvað gáfulegra en að karpa um lögun borðsins eða hvað eigi að hafa með kaffinu.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.5.2015 kl. 13:21

4 identicon

Mikið rétt.  Á svona fundum getur til dæmis komið upp sá bráðavandi að það vanti meiri kaffirjóma.  Allt er þetta spurning um forgangsröðun.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 20.5.2015 kl. 13:32

5 Smámynd: Tómas

Þá er þetta ágætis andsvar: http://blog.piratar.is/thingflokkur/2015/05/20/hvernig-thingmenn-pirata-verja-vinnutima-sinum/

Tómas, 20.5.2015 kl. 16:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband