Þarf lengstu flugbrautir heims fullhlaðin.

Samkvæmt tölum frá Boeing verksmiðjunum þarf Boeing 787-9 2,9 km langa flugbraut fullhlaðin í flugtaki við staðalaðstæður, 15 stiga hita við sjávarmál í logni , en lengstu flugbrautir alþjóðaflugvalla eru um 3ja kílómetra langar, til dæmis brautirnar á Keflavíkurflugvelli.

Flugtakið á þessari þotu við eðlilegar aðstæður með fólk í öllum sætum og fullhlaðna vél er ekkert öðruvísi en á sambærilegum þotum.

Tölur um afl hreyfla, stærð vængja og þyngd vélarinnar sjálfrar staðfesta ofangreint.

 Eiginleikar margra flugvéla breytast hins vegar við afbrigðileg skilyrði.

Ef flugtakið er upp í snarpan vind í kulda, engir farþegar eða farmur um borð og lágmarkseldsneyti um borð, er að vísu hægt að fá hana til að klifra ansi bratt og ná upp meiri tímbundnum bratta í klifri með því að láta hana rúlla það lengi eftir brautinni og klifra ekki bratt í fyrstu, heldur byggja upp hraða, og reisa síðan nefið til að "skipta út hraða fyrir klifur" stutta stund.

Það er gert á þessu myndbandi þannig að flugmennirnr verða að beina nefinu niður og fram efst í klifrinu bratta til þessa að ofreisa ekki vélina.

En fyrir neðan lítur út fyrir á myndinni að hún hafi notað fáránlega stutta braut. Grunur kviknar um smávægis tæknibrellur við myndvinnsluna.

Margir muna eftir gömlu "Monsonum", Rolls-Royce 400 (Canadair) skrúfuþotum Loftleiða.

Þær voru þunglamalegar fullhlaðnar og ég minnist til dæmis flugtaks frá Kennedy-flugvelli í New York, þegar hún þurfti í hitamollu og logni alla brautina til að komast í loftið og klifraði næstum ekkert eftir það, heldur var lengi að safna nokkur hundruð feta hækkun rétt yfir trjátoppum.

Á flugsýningu í Reykjavík komu Loftleiðamenn nokkru síðar á styttri gerðinni að svona vél inn til lendingar.

Það voru um 25 hnútar á norðan og þeir lentu á bláendanum við Nauthólsvík og stöðvuðu vélina á um þriðjungi brautarinnar, ca 5-600 metrum, - áttu þá drúgan spöl eftir í brautarmótin.

Þar settu þeir í kný afturábak (reverse) og bökkuðu hratt alveg niður á brautarenda.

Gáfu þar allt í botn, komust í loftið á þriðjungi brautar og klifruðu síðan svo bratt upp að áhorfendur tóku andköf.

Misstu við það hraða og settu nefið fram til að ná hraðanum aftur upp og þrusa að nýju bratt upp til himsins, þó ekki "næstum lóðrétt."

Með vind sem hjálp og hámarks léttleika má leika næstum fráleitar kúnstir á flestum flugvélum.

Til er mynd af afllítilli Piper PA-12 þriggja sæta vél þar sem hún fer í loftið á 10 metrum á Selfossflugvelli og rís síðan lóðrétt upp til lofts og flýgur meira að segja örlítið afturábak eftir það.

Fullhlaðin var þessi vél aflvana sleði en galdurinn við þetta flugtak var að hafa hana sem allra léttasta og framkvæma flugtakið í 40 hnúta vindi beint í nefið.    


mbl.is Fer næstum lóðrétt í loftið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Er þetta myndband ekki meira eða minna tölvugert, Ómar?

Ég þekki reyndar ekki flugfræðin, en hvernig er hægt að mynda flugtak á þann hátt sem fram kemur í myndbandinu?

Gunnar Heiðarsson, 15.6.2015 kl. 00:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband