Afleitur og ólöglegur skortur á upplýsingum.

Um áratuga skeið hafa verktakar komist upp með það að valda margfalt meiri töfum í umferðinni vegna vegaframkvæmda en þörf er á.

Þetta er grátlegt þegar haft er í huga hve sáralitlu þarf til að kosta miðað við það sem þessi verk kosta.

Bara eitt dæmi frá því fyrir rúmri viku: Þegar komið var akandi vestur Miklubraut og komið að gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar var allt í einu komið að vinnuflokki, sem hafði lokað leiðinni af Miklubraut til hægri inn í Skeifuhverfið.

Þar með stóðu ökumennirnir allt í einu frammi fyrir því að finna sér aðra leið en þessa inn í hverfið, en voru búnir að aka fram hjá þeirri skástu, við Réttarholtsveg af því að þar stóð engin aðvörun um lokunina við næstu gatnamót fyrir vestan. 

Ég ákvað að beygja til vinstri suður Grensásveg, finna mér stað alllangt fyrir sunnan gatnamótin til að taka leyfilega u-beygju, koma aftur niður Grensásveg, aka austur Miklubraut og inn á Réttarholtsveg, fara síðan eftir honum til norðurs áleiðis inn í Skeifuhverfið. 

Þegar ég hafði lokið erindum mínum þar datt mér í hug að sjá, hvort betra hefði verið að halda áfram í upphafi í vestur framhjá lokuðu gatnamótunum, beygja þar til hægri norður Háaleitisbraut, og þar á eftir aftur til hægri niður Fellsmúla til þess að komast þá leið inn í Skeifuhverfið. 

En, - nei! Það var ekki helfut hægt!  Það var lokað fyrir umferð niður Fellsmúlann og inn í hverfið! 

Erlendis myndi hvergi vera liðin svona framkoma við vegfarendur, til þess eins fallið að skapa margföld óþörf vandræði, umferðartafir og jafnvel slysahættu.

Þar eru strax gefnar áberandi upplýsingar nógu langt frá lokaða svæðinu til þess að ökumenn geti ekið bestu hjáleið.

Í þessu tilfelli hefði verið nóg að vera með eitt skilti austan við gatnamót Réttarholtsvegar og Miklubrautar: "Grensásvegur lokaður til norðurs".  

Ég lenti einu sinni í því að umferð til og frá um 700 manna íbúðahverfi norðan Háaleitisbrautar var lokað snemma morguns án minnstu aðvörunar og voru bílar íbúanna lokaðir inni fram yfir hádegi. 

Það lá við að verkstjórinn á svæðinu hjólaði í mig þegar ég dirfðist að gagnrýna þessa og benti á að auðvelt hefði verið að bera bréfmiða inn í anddyri húsanna kvöldið fyrir með upplýsingum um fyrirhugaða lokum. Hann sagði mér halda kjafti í stað þess að tala um það sem ég hefði ekki hundsvit á. 

Öskraði á mig að slagurinn milli verktakanna um að fá þessi verk í gegnum útboð væri svo harður, að enginn peningur væri til að sinna svona upplýsingastarfi. 

Ég fékk þau svör hjá borginni að verktaki væri skyldur samkvæmt útboðsskilmálum að sinna viðunandi upplýsingaskyldu. Ég bað þá um að einhver yrði sendur frá borginni til að kanna málið, en fékk þau svör, að vegna manneklu á sumarleyfistímanum og peningaleysis væri ekki hægt að gera það. 

Sem aftur á móti sýndi, að verktakarnir komast upp með þetta vegna þess að borgin sinnir ekki þeirri skyldu sinni að hafa eftirlit með því að útboðsskilmálar séu haldnir. 

 


mbl.is „Vantar fleiri hjáleiðamerkingar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki allt eins og hjá stjórnlausum frekum bjánum á þessu skeri.

Þurfum að hætta að kjósa bjána í öll ábyrgðarstörf

Anna (IP-tala skráð) 21.7.2015 kl. 21:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband