Fékk að kynnast honum af því ég var jólasveinn.

Kynni mín af Reyni Pétri Steinunnarsyni hófust rúmum 20 árum áður en hann gekk hringinn og þau voru eitt það eftirminnilegasta og mest gefandi af öllu því sem á fjörur mínar hefur rekið.

Upphaf þessara kynna voru þau að Lionsklúbburinn Ægir hafði í upphafi starfsemi sinnar árið 1957 ákveðið að beina öllum kröftum sínum að Sólheimum í Grímsnesi.

Meðal þess sem gert var var að fara þangað austur á aðventunni og taka þátt í litlu jólunum.

Í klúbbnum voru ágætir söngmenn og drifkraftar í starfi, svo sem Gunnar Ásgeirsson , sem höfðu meðal annars komið fram á skemmtunum í áraraðir, og einnig Sigfús Jóhannsson tónskáld, og þessir menn lögðu til skemmtiatriði á samkomunni.

Af því að þetta var jólasamkoma datt einhverjum í hug að gott væri að fá starfandi jólasvein í klúbbinn og þannig gerðist það upp úr 1960 að ég var tekinn inn í hann.

Smám saman lögðu klúbbfélagar meira og meira til málanna á samkomunni, þáverandi undirleikari minn, Tómas Grétar Ólason, gekk í hann og lagði svo mikið að mörkum, að hann var löngu síðar útnefndur velgerðarmaður Sólheima.

Þegar Svavar Gests varð klúbbfélagi var ekki að sökum að spyrja, enda gerðist hann leiðtogi Lions á Íslandi á tímabili.

Reynir Pétur og fleira fólk á Sólheimum vakti undrun og hrifningu okkar fyrir það, hve marga gimsteina var þar að finna, og einstæðir stærðfræðihæfileikar Reynis Péturs og þekking hans á fleiri sviðum voru með hreinum ólíkindum, að ekki sé minnst á létta lund og útgeislun.  

Það varð að föstu atriði þegar við vorum á leið í rútu austur, að Reynir væri látinn vita hve langt við værum komnir, svo að hann gæti tímasett göngu á móti okkur.

Gangan varð lengri og lengri með hverju árinu sem leið og um jólin 1984 gekk hann langleiðina til Selfoss og hitti okkur undir Ingólfsfjalli.

Þá kviknaði hugmyndin um að setja aukinn kraft í fjáröflun fyrir íþróttaleikhús á Sólheimum með því að Reynir gengi allan hringinn og að gerður yrði sjónvarpsþáttur um Reyni Pétur, gönguna og aðdraganda hennar.

Ganga Reynis var svo einstakur viðburður, að erfitt er að hugsa sér hliðstæðu.

Þess vegna er full ástæða til þess að fagna 30 ára afmæli hennar. Hún var mikilvægur liður í að brjóta niður múra fordóma á milli þjóðfélagshópa.  


mbl.is Gangan gaf mér mikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Hann segir að gangan hafi gefið honum mikið og er það sjálfsagt rétt en ég held að hún hafi ekki síður gefið okkur hinum sem fylgdumst með honum í sjónvarpi ekki minna. Hann festi sig í hjörtum landsmanna svo um munaði.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 26.7.2015 kl. 12:30

2 identicon

Maður fer alltaf í gott skap þegar maður sér og heyrir í kappanum.

DoctorE (IP-tala skráð) 26.7.2015 kl. 13:16

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar Ragnarsson og Reynir Pétur eru að mörgu leyti líkir en þó finnst mér Ómar vera líkari Reyni Pétri en öfugt.

Þorsteinn Briem, 26.7.2015 kl. 16:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband