Svartur dagur. Eins og hjá nýlenduþjóð.

Dagurinn í dag er svartur dagur í sögu verkalýðsbaráttunnar á Íslandi.

Lyktir vinnudeilunnar í Straumsvík minnir á nýlendutímana, sem á pappírnum á að vera lokið, en eru það ekki, því að alþjóðleg stórfyrirtæki sjá um það sem nýlenduþjóðirnar gerðu áður; að láta hina innfæddu finna fyrir valdinu.

Sigur Rio Tinto er alger: Starfsmenn neyðast til að fórna verkfallsréttinum og því að fá kjarabætur á borð við aðra launþega landsins til þess að verjast því að þeir verði að stórum hluta og í vaxandi mæli reknir og í staðinn teknir verktakar á lægstu launum eftir útboð.

Verkalýðsfélagið átti um þrjá afarkosti að velja: Að vera sakaðir um að hafa valdið því að Rio Tinto lokaði álverinu, að sætta sig við að verða reknir og verktakar teknir inn í staðínn, eða að leggja niður rófuna án launahækkana eins og nú er orðin raunin.

Rio Tinto hefur grætt vel á álverinu undanfarin ár og tímabundið tap var því ekki raunveruleg ástæða fyrir því að loka og hætta.

Hin raunverulega ástæða er að láta kné fylgja kviði í samskiptum við starfsmenn, knésetja þá og fá sitt fram.

Áltrúarmenn hljóta að fagna þessu mjög, því að sjá mátti á netinu að þeir kröfðust þess að ríkisstjórnin bannaði verkfallið.

En þess þurfti ekki. Og ferill Rio Tinto í gegnum tíðina í þriðja heiminum er slíkur, að ekki var við öðru að búast en að það svinbeygðu starfsmenn sína í duftið.

Hér eftir verður þessum herrum auðvelt að fara sínu fram að vild.

Blaðafulltrúa fyrirtækisins varð það óvart á árið 2007 að nota orðið "grímulaust" um stefnu eigenda álversins.

Nú sést að það er rétta orðið í þetta sinn og væntanlega framvegis. 


mbl.is Verkfallinu aflýst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar. Álverið mengar ekki eins mikið og sumir vilja meina, og ál er þrátt fyrir allt þras, alveg nauðsynlegt byggingarefni til magra hluta.

Ekki kalla ég þetta sigur fyrir Río Tinto. Það er ekki sigur að svínbeygja einn eða neinn.

Skömmin og skepnuskapurinn er stóra tap-auglýsing Río Tinto "samningamannsins".

Það þarf hugarfarsbreytingu um hvað geti kallast "sigur" í siðmenntuðum viðskiptum. Bæði á Íslandi og víðar.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 2.12.2015 kl. 00:47

2 identicon

Íslendingar eru nýlenduþjóð á sálinni. Allir dagar eru svartir eins og hjá nýlenduþjóð. Að útlent fyrirtæki skuli geta starfað á Íslandi og skilað eigendum sínum hagnasði særir Íslendinginn á sálinni. Þeir geta ekki hugsað sér neitt verra en að útlendingar hafi hag af viðskiptum við þá. Ekkert skal gefa eftir við samninga og hver eftirgjöf er ósigur. Allir úrlendingar hafa aðeins áhuga á að stela öllu og pretta Íslendinginn. Útlendingar sem standa á sínu og láta ekki undan fáránlegum kröfum Íslendingsins eru kúgarar og arftakar nýlenduherrana.

Hábeinn (IP-tala skráð) 2.12.2015 kl. 02:31

3 Smámynd: Óðinn Þórisson

Þetta er góð niðurstaða fyrir hagsmuni HFN og landsins alls en svo er að sjálfsögðu alltaf einherjir afturhaldsmenn sem hefðu viljað sjá álverinu lokað.

Hvaða afleyðingar hefði það haft fyrir HFN ? kannski hefði mátt líkja því helst við náttúruhamfarir fyrir bæjarfélagið ?

Óðinn Þórisson, 2.12.2015 kl. 07:09

4 identicon

Þetta er svolítið merkilegt. Hvernig voru starfsmennirnir "neyddir" til einhvers? Það er náttúrulega absúrd skoðun hjá blogghöfundi, að verkfall þýði sjálfkrafa, að atvinnurekandi láti undan kröfum verkfallsmanna.

Kannski eru menn komnir á þá skoðun, eftir að heilbrigðisstarfsmenn hafa náð að kúga ríkisvaldið, trekk í trekk, og hótað dauða sjúklinga ef þeir fái ekki sínu framgengt.

En kannski er blogghöfundi efst í huga, að álverið virðist ætla að lifa áfram. Það er versta útkoman að hans áliti. Skítt með störfin, skítt með sveitarfélagið, skítt með almannahaginn.

Hilmar (IP-tala skráð) 2.12.2015 kl. 07:28

5 identicon

Það væri náttúrulega þungt högg fyrir okkur ef álverinu í Straumsvík yrði lokað.

Fyrir starfsmenn, Hafnarfjörð og þjóðfélaðið allt.

En við íslendingar eigum ekki að beygja okkur og bugta fyrir þessum anskotum.

Kosturinn væri, ef þeir færu að þá ættum við tilbúna orku fyrir einhverja aðra starfsemi.

Komið þeir sem koma vila.

Fari þeir sem fara vilja.

Þetta ætti að kenna okkur að nóg er komið að álverum og yfirleitt þannig stórum fjölþóðafyrirtækjum, eins og Alcoa fyrir austan, sem ekki einu sinni hefur borgað skatt til samfélagsins þó að sjálfsögðu hafa komið miklar tekjur inn.

Tengdadóttir mín vinnur þar og hefur lífviðurværi.

Hafa sem flest egg í körfunni.

Björn J. Guðjohnsen (IP-tala skráð) 2.12.2015 kl. 07:39

6 identicon

Það er búið að ganga að kröfum um launahækkanir til jafns við það sem aðrir hafa fengið og jafnvel meira. En ekki lái ég eigendum fyrirtækisins að vilja ákveða sjálfir í hvaða þáttum rekstursins launþegar starfa og hvað er boðið út til verktaka. Innlendir aðilar sem atkvæðamiklir eru í mannvirkjagerð hér á landi hafa heimildir til að vera með allt sitt í undirverktöku og jafnvel erlenda fátæklinga á þrælakjörum í skjóli þjónustusamninga langt undir skammarlegum launatöxtum sem verkalýsforingjarnir hér hafa samið um fyrir sína umbjóðendur. Því skyldu eigendur álversins ekki vilja fá að sitja við sama borð? Þeir sem sitja á Alþingi þurfa hins vegar að læknast að drómasýkinni og embættismannakerfið sem sofið hefur Þyrnirósarsvefni um árabil þarf að taka við sér svo stoppa megi þessa þróun. Þróunin undanfarin ár í starfsumhverfi þeirra sem vinna með höndunum hefur verið með þeim hætti að þeir eiga helst bara að sinna sínu starfi af þeirri hugsjón að inna þau af hendi án þess að fá greitt fyrir vinnuna. Þetta er væntanlega það sem stéttarfélög starfsmanna í Straumsvík er að reyna að koma í veg fyrir. Þetta þarf hins vegar að vera almennt og ná yfir alla starfsemi í landinu.

Örn Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 2.12.2015 kl. 09:02

7 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Þetta er þungt högg fyrir almenning.

Það mun fylgja þessu langur hali, að mínu mati.

Annars var marg, margbúið að vara framsjalla við þessu.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.12.2015 kl. 09:04

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í viðskiptum hagnast báðir aðilar og samningar snúast um það. Báðir aðilar högnuðust 1965 þegar hafin var bygging Búrfellsvirkjunar.

Meirihluti Íslendinga, þeirra á meðal ég, töldu ekkert að því að gerðir yrðu samingar við útlendinga um sameiginlegan hagnað að nýtingu íslenskra orkulinda.

Síðan kom í ljós að annar aðilinn hafði rangt við með hinni siðlausu "hækkun í hafi" sem í ljós kom á níunda áratugnum.

Nú hefur verið reiknað út að öll álversvegferðin í hálfa öld hefur í raun ekki skilað því inn í íslenskan þjóðarbúskap sem eðlilegt var miðað við það sem lagt var upp með.

Alcoa er uppvíst að siðlausum bókhaldsbrellum sem gerir fyrirtækinu kleyft að svíkja í raun undan skatti svo að það fer að nema tugum milljarða króna.

Munurinn á arði eða gróða hins erlenda fyrirtækis og því, sem Íslendingar hafa upp úr krafsinu, er sláandi og sýnir, að þetta eru ekki eðlileg viðskipti, burtséð frá því hvort annar aðilinn er útlent fyrirtæki eða ekki.

Ríó Tinto beitir hótunum um lokun álversins miskunnarlaust, bæði 2007 og 2015, þannig að nú er svo komið, að um ekkert er að semja fyrir starfsmenn af því að fyrirtækið getur hýrudregið þá að vild og valið sér í hve miklum mæli það verði gert með raunverulegri launalækkun eða með því að skipta um starfsfólk og ráða aðra, sem sætta sig við lægstu mögulegu laun.

Eða hreinlega að loka fyrirtækinu og senda alla heim.  

Ómar Ragnarsson, 2.12.2015 kl. 09:09

9 identicon

Hugsa sér, fyrir rúmlega 30 árum síðan svindlaði þáverandi eigandi álversins Íslenska ríkið um einhverjar skattgreiðslur. Það telur Íslendingurinn augljósa sönnun þess að útlend fyrirtæki stundi öll stanslaus svik og pretti í viðskiptum við Íslendinga og best sé að loka þeim öllum og senda úr landi. Á Íslandi eru Danir hataðir fyrir maðkað mjöl og aðrir útlendingar fyrir hækkun í hafi.

Og að útlent fyrirtæki hóti tvisvar á þessari öld lokun og flutningi en loki ekki bara og fari eins og fjölmörg Íslensk fiskvinnslufyrirtæki hafa gert á landsbyggðinni er dæmi um miskunnarleysi nýlenduherrana.

Siðlausar bókhaldsbrellur kallast það þegar þessir skítugu útlendingar nýta sér þá möguleika sem felast í samningum við fyrirtækið, skattalögum okkar og samningum við önnur lönd. Og þegar Íslendingurinn getur ekki náð því sem hann ásælist með löglegum leiðum þá kallar hann það að svíkja í raun undan skatti, verður fúll og mjög leiður yfir þessu óréttlæti.

Að segja upp fólki og ráða verktaka, eins og ríki, bæjarfélög og fyrirtæki hafa gert í stórum stíl, er glæpur ef um útlent fyrirtæki er að ræða. Íslendingurinn sættir sig ekki við að útlend fyrirtæki, sem náðarsamlegast fá að starfa í landinu, séu rekin í hagnaðarskini og borgi ekki hámarks verð fyrir hvert handtak. 

Hábeinn (IP-tala skráð) 2.12.2015 kl. 11:30

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú sé ég að skoðabræður Hábeins óska starfsmönnum álversins til hamingju með ósigurinn í kjaradeilunni.

Ómar Ragnarsson, 2.12.2015 kl. 12:25

11 identicon

Og áfram heldur Ómar, með tilfinningadrifna þvælu sem á rætur sínar að rekja í útlendingahatri.

Rio Tinto Alcan hefur farið eftir íslenskum lögum. Hafir þú upplýsingar um annað, ber þér skylda að koma þeim upplýsingum á framfæri við þar til bær íslensk yfirvöld. Einu sinni var álverið í eigu Alusuisse, selt til Alcan, og þaðan komst það í eigu Rio Tinto árið 2007. Hvað Alcoa kemur málinu við, eða einhverjar 35 ára gamlar ásakanir (ósannaðar) Hjörleifs Guttormssonar í garð Alusuisse, hef ég ekki hugmynd.

Annars er það nú svo, að starfsmenn í álverinu hafa ekki gefið verkfallsréttinn upp á bátinn. Þeir frestuðu verkfallinu sjálfir. Ef starfsmenn eru óánægðir, telja sig hlunnfarna, eða hafa betur upp úr vinnunni annars staðar, þá halda þeir áfram með verkfallið. En eitthvað segir mér, að þeir treysti sér ekki til að fá betri kjör hjá öðrum atvinnurekanda. Enda fullyrðir forstjóri að ekki strandi á launalið, heldur því afar heimskulega fyrirbrigði, að fyrirtækinu sé meinað að útvista þjónustu í verktöku.

Hilmar (IP-tala skráð) 2.12.2015 kl. 12:26

12 Smámynd: Sævar Helgason

Nú finnst mér mitt gamla og góða fyrirtæki ÍSAL í Straumsvík- dáið. Sem einn af frumherjunum við byggingu þess og rekstur allt frá árinu 1967 og í 40 ár eru þetta mikil vonbrigði hvernig komið er fyrir okkur.

Á síðustu áratugum höfum við byggt upp gríðar stórt raforkukerfi og selt > 80 % af orkunni til svona fyrirtækja til margra áratuga fram í tímann

Við erum með öll okkar orku egg í einni og sömu körfunni- stóriðjunni.

Í þessari kjaradeilu starfsmanna Rio Tinto í Straumsvík hefur komið einkar skýrt í ljós hin veika staða okkar gagnvart svona alþjóðafyrirtækjum .

Bæjarfélagið hefur notrað af skelfingu um að missa tekjur sem og samfélagið allt. 
Allt er það vatn á myllu svona fyrirtækja- við þekkjum það frá fyrrum nýlendum þriðja heimsins:

Verkalýðsfélögum hefur verið úthýst í Straumsvík- engir samningar nema á forsendum auðhringsins - sem er að fækka láglaunastarsmönnum og ráða leiguliða inn í þeirra stað - án réttinda- að öðrum kosti verði lokað- farnir.

Íslendingar hafa rekið fyrirtækið með úrvalsfólki - alla tíð og skilað ríkulegum hagnaði í vasa eigandanna- sem eðlilega hafa flutt hann úr landi.

Væntanlega verður næst ráðist til atlögu við Landsvirkjun og gerð krafa um "eðlilegt" raforkuverð.

Bæjarfélagið og samfélagið mun nötra- ríkistjórnin grípur inní mál gagnvart Landsvirkun- svo fyrirtækið loki nú ekki og fari.

Við erum að verða nýlenduþjóð á ný- nýlenduþjóð auðhringa- við völdum það sjálf.


Sævar Helgason, 2.12.2015 kl. 12:47

13 identicon

Góður punktur hjá Sævari. Auðhringir og græðgiskapitalismi hafa enga sál. Græðgi svona viðbjóðs auðhringa á sér engin takmörk heldur. þetta er alltaf að koma betur og betur í ljós og ekki bara hér á landi. Lesið fréttir um Starbuck,s og Mcdonald,s í Evrópu. Lesið svoldið um Alcoa og GM og bloggið svo eða kommentið eftir það.

ólafur (IP-tala skráð) 3.12.2015 kl. 15:23

14 identicon

Lesið fréttir um Samherja, Mílu, Ístak og Landsbankann. Lesið svoldið um HB Granda, FoodCo og Orkuveituna og bloggið svo eða kommentið eftir það um hvernig það hefur komið ykkur oft á óvart að fyrirtæki skuli ekki vera rekin eins og Mæðrastyrksnefnd og Sjálfsbjörg.

Hábeinn (IP-tala skráð) 3.12.2015 kl. 16:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband