Þrír frammi í - stærsta bylting Land Rovers. En "Rússinn" lifir.

Willys jeppinn var ekki fyrsti fjórhjóladrifni bíllinn og bæði Rússar, Japanir og Þjóðverjar (Opel Blitz) höfðu framleitt ólíka bíla með svipuðum drifbúnaði.6

En Willysinn var miklu minni, léttari og meðfærilegri og auk þess framleiddur í hundraða þúsunda tali fyrir bandaríska herinn.

Slæm nýting afar takmarkaðrar lengdar var helsti hönnunargalli bandaríska jeppans, - 15 sentimetrum fyrir aftan framhjólin var sóað í ekki neitt.

Hann var líka það mjór að hann tók aðeins tvo í sæti frammi í.

Einnig var frekar lágt undir millikassann og fjaðrahengslin sköguðu talsvert niður.800px-Land_Rover_Series_1_HT[1]

Land Rover var með svipaða hönnun, en ráðin var meiriháttar bót á plássleysinu með því að hafa bílinn aðeins 10 sentrimetrum breiðari en Jeep og setja bílstjórann og stýrið svo kyrfilega út að vinstri hurðinni, að pláss myndaðist fyrir sæti í miðjunni ofan á driflínunni fyrir þriðja manninn frammi í.

Síðan gátu fjórir setið þversum sitt hvorum megin aftur í og voila! Þetta var sjö manna bíll sem þó var aðeins 1,57 á breidd og 3,62 á lengd!

Mjórri en minnstu fólksbílarnir í dag og álíka langur. 2 Rússar, GAZ 69´66, Niva ´96 og Range Rover´73

Fimm árum síðar kom svo Rússajeppinn GAZ 69 til sögunnar með ekki síðri byltingu, - fótarými frammi í og þar með farangursrýmið allt fært 20 sentimetrum framar og bíllinn hafður svo breiður að hægt var að setja í hann þennan fína aftursætisbekk fyrir 3-4 farþega og hafa það mun framar miðað við afturhjólin en í fyrri jeppum.

Miklu betri þyngdarhlutföll fyrir akstur upp brattar brekkur en í fyrri jeppum.  

Einstaklega lungamjúkar fjaðrir ofan á hásingunum og 10 sentimetrum hærra undir kvið en á Willys og Land Rover. Frábær hönnun, sú fullkomnasta fram að því, en slæm vél.Rússajeppi. GAZ 69, árg. 66. Gjástykki

Á myndinni hér við hliðina er svona Rússi aftastur í röðinni. Sá er árgerð´66 með jafngamla Bronco-vél og á 35 tommu dekkjum sem gera þennan 1600 kílóa bíl að þessum fína jöklabíl.

Á myndinni þar fyrir neðan er hann í Gjástykki þar sem ferðamenn hafa farið út úr rútu á góðum útsýnisstað, þar sem sést yfir svæði, sem fulltrúar alþjóðasamtaka áhugafólks um ferðir til mars völdu æfingasvæði fyrir komandi marsfara.   

Þegar Land Rover fékk gorma og hækkaðan kvið varð hann að mögnuðum og þýðum jeppa.

Síðustu árin hefur hann lifað vegna þess hve erfitt hefur verið að drepa hann. Hann og Jeep Wrengler hafa fengið extra lágan 1. gír og verið miðaðir við markhóp kröfuharðra jeppamanna.

Ég fór í reynsluakstur fyrir síðustu aldamót á Defender 110 upp í Grímsvötn og til baka og var ánægður með hann. Tíu manns í sæti á bíl, sem var álíka langur og Volkswagen Golf!Lada Niva´96

Eini bíllinn á markaðnum þar sem hægt var að fylgjast með veginum með því að horfa í gegnum rifu á milli hurðar og þröskulds beint niður á veginn!

Nú er Land Rover allur, en þrátt fyrir tilraunir geta Rússarnir ekki drepið Lödu Nivu og gamla Rússajeppann, sem enn lifir í meginatriðum undir heitinu UAZ 469 ef ég man rétt.

Lada Niva, sem hét Lada Sport á Íslandi, en hvergi annars staðar, var 20 árum á undan samtíð sinni í mörgum atriðum og UAZ er kominn á gorma að framan og með skárri vél en áður, en að öðru leyti ekta "Rússajeppi."UAZ 452´72

Ég á eina Lödu Nivu, sem reyndist mér vel í eldgosaferðum fyrir nokkrum árum og skipti engu þótt tveir af fjórum gírum yrðu ónýtir, - maður notaði sér bara gamla kunnáttu frá vörubílum í gamla daga til að tvíkúpla fram og til baka á milli háa og lága drifsins.

Ef hugmynd mín um naumhyggjubílasafn verður einhvern tíma að veruleika munu þrír Rússar verða á því, sem allir voru ódýrustu bílar sinnar gerðar á sínum tíma, Lada Niva, GAZ 69 og UAZ 452.   


mbl.is Síðasti Defenderinn af færibandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Willys var týpískt hernaðartæki, bara hugsaður til þess að A: virka, og B: vera ódýr og fjöldaframleiðanlegur.

Land Roverinn var með grind sem var áföst yfirbyggingunni á hátt sem olli því að erfitt var að breyta þeim.  Þeir voru ekki hækkanlegir á grind, eins og er kallað.

Agalega frumstæð tæki, og allt of dýr miðað við hvað er í þeim. (Eins og reyndar allir jeppar hér á landi.)

Ladan er einskonar snilldar verk.  Að búa til jeppa með því bara að taka smábíl, og gera hann aðeins stærri og bæta við fjórhjóladrifi?  Snilld.

Af hverju engum dettur í hug að gera jeppa úr Skoda Octavia eða Chevy Cruze er óskiljanlegt.  Það þarf svo litlu við að bæta: bara hækka þá upp, snúa vélinni 90° og bæta við millikassa.  Skella svo langri og mjúkri fjöðrun undir.

Það myndi svínvirka.

Ólýkt Land Rovernum, þá ætti að vera hægt að lappa bara lítillega uppá Löduna til að gera hana nútímalegri.  Það tæki til dæmis enginn eftir aðeins þykkari hurðapóstum, og það myndi gera bílinn þéttari í akstri.

Ladan var aldrei á grind.

Ásgrímur Hartmannsson, 1.2.2016 kl. 00:11

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í öllum þeim tugum ef ekki hundruðum bóka um bíla og smáatriði í gerð þeirra, sem ég hef lesið, stendur alls staðar að upphaflegi Land Roverinn, Defenderinn, sé á sérstakri grind, enda hafa tugir þeirra verið hækkaðir og sett undir þá 38 og 44 tommu dekk.

Sama var og er að segja um upphaflegu gerðina af Range Rover.

Ég á einn slíkan árgerð 1973 sem er með upphækkað boddí á grind og á 38 tommu dekkjum.  

Ómar Ragnarsson, 1.2.2016 kl. 01:17

3 identicon

Defender (og Land Rover fram að nafnabreytingunum) er á grind, en eins og Ásgrímur segir er boddíið sett þannig á að hingað til hafa menn ekki verið að lyfta því frá grindinni (hækka á bodíi) eins og er t.d. algengt (og auðvelt) að gera á Range Rover fram til tvöþúsundogeitthvað þegar unibody útgáfan kom. Þess í stað hafa menn hækkað Defenderinn á grind þ.e.a.s. síkkað hjólastellinu og fjaðrabúnaði til að hann taki stærri dekk.

ls (IP-tala skráð) 1.2.2016 kl. 10:38

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Land Loverinn var bestur.  Hann var svo massífur.

Notkun á plássi inní honum var svo snilld. 

Sætin afturí voru stundum þannig að hægt var að lyfta þeim upp og þa var þetta fína flutningspláss, td. fyrir sauðfé.

Traustur í leiðinlegri færð, hægt að þæfast útí hið óendanlega í gegnum snjó. (En fáir hefðu nú í dag þá þolinmæði sem margir höfðu í gamla daga við að þæfast.)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.2.2016 kl. 10:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband