25.3.2016 | 20:24
Vonbrigðin í bíóinu.
Hér er saga af atviki sem gerðist þegar ég fór að sjá kvikmyndina Aviator, sem fjallaði um ævi hins magnaða Howard Hughes, sem var flugmaður og hönnuður og varð milljarðamæringur í gegnum flugafrek sín og smíði flugvéla, þeirra á meðal "Spruce Goose", sem var langstærsta flugvél veraldar, með meira vænghaf en Airbus 380 er með núna, enda gátu flugvirkjar gengið innan í vængjunum til þess að sinna hreyflunum ef á þurfti að halda.
Hughes hlaut frægð á við helstu kvikmyndastjörnur Hollywood, enda afar glæsilegur maður á yngri árum, svo að ekki dugði minna en að Leonardo DiCaprio lék hann í myndinni sem var drjúglöng.
Við hlið okkar Helgu sátu roskin hjón og konan ljómaði í hvert sinn sem DiCaprio í hlutverki Hughes birtist á hvíta tjaldinu.
Þegar myndinni lauk og ljósin voru kveikt, sagði hún við mann sinn og vonbrigðin leyndu sér ekki í röddunni: "Hvað, er þetta búið? Og ekkert um Playboy?"
Ég brann í skinninu að spyrja manninn, hvort hann hefði lokkað konuna til þess að horfa á langa mynd um flugmann með því að rugla hana á nöfnunum Hughes og Hugh Hefner.
Eða hvor hún hefði ruglast á þessu sjálf eða þau bæði ruglast í ríminu.
En ég áræddi ekki að spyrja, þannig að það verður aldrei upplýst.
Playboy til sölu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Gott ef flugvirkjar geta gengið innan í vængjunum til þess að sinna hreyflunum ef á þarf að halda. Enda hreyflarnir til þess að halda flugmanninum svölum. Hann byrjar að svitna strax og drepst á þeim.
Davíð12 (IP-tala skráð) 25.3.2016 kl. 21:56
Á yngri árum sínum var Hughes giftur Katharine Hepburn og fleiri stórstjörnum. Hann var umkringdur fleiri fegurðardísum en nöfnum tekur að nefna.
Ómar er allur með hugann við mótora og vængi í bíó með konu sinni. Gleymir að horfa yfir hinn nýja hálendisþjóðgarð og vegsama hann. Áhugamál hans eru svo mörg að aðal baráttumálið hverfur í skuggann.
Að útlista og spinna sögur er listum flestum fremri. Sögur og kvikmyndir er hafa mesta áhorfið er heilmikið ævistarf.
Sigurður Antonsson, 25.3.2016 kl. 22:41
Kveikir oft DiCaprio,
í konum undir faldi,
ekkert gaman í bíó,
óðan playboy taldi.
Þorsteinn Briem, 26.3.2016 kl. 02:32
Á árunum 1999-2000 gerði ég alls ellefu sjónvarpsþætti um íslenska hálendið og skoðaði 30 þjóðgarða erlendis og 18 virkjanasvæði til þess að hafa bakgrunn fyrir hugmyndina um stóran hálendisþjóðgarð á Íslandi.
Skrifaði tvær bækur um málið og hef haldið málinu vakandi, nú síðast með pistli um virkjanahugmyndir við norðanverða Sprengisandsleið.
Mér þykir leitt ef ég hef með þessu tekist að þoka aðalbaráttumálinu í skuggann. Það var ekki ætlunin, en svona getur manni mistekist.
Biðst afsökunar.
Ómar Ragnarsson, 26.3.2016 kl. 10:50
Ég gleymdi myndunum "Á meðan land byggist", "In memoriam?" og "Akstur í óbyggðum", sem þokuðu víst "aðalbaráttumálinu í skuggann" að dómi Sigurðar Antonssonar.
Ómar Ragnarsson, 26.3.2016 kl. 10:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.