Af aftökulistanum, - fyrr og nú. Þjórsárfossavirkjun - Búðavirkjun.

Þegar tími vinnst til verður fjallað um afmarkaða virkjanakosti hér á bloggsíðunni, tekinn í dag einn kostur sem nú er lagt til að fari í verndarflokk og annar kostur, sem lagt er til að fari í virkjanaflokk. Og svipað gert síðar. Dynkur_minni_texti-stor

Ég nota þessi tvö orð, virkjanaflokk og verndarflokk um mismunandi nýtingu, orkunýtingu og verndarnýtingu í stað hlutdrægrar orðanotkunar í formi þess að stilla upp nýtingarflokki og verndarflokki sem andstæðum hvað nýtingu varðar.  

Nýlega var fjallað hér á síðunni um virkjun Skjálfandafljóts með því að sökkva Krókdal.

En nú verður tæpt á Þjórsárfossavirkjun (Kjalölduveita) og Búðafossvirkjun (Holtavirkjun) . Búðafoss í Þjórsá

Efsta myndin á síðunni er af fossinum Dynk í Efri-Þjórsá. Hann er einn af þremur stórfossum, sem allt fram á þennan dag hefur verið ætlunin að þurrka upp í virkjunum undir dulnefnunum Norðlingaölduveita og nú síðast Kjalölduveita.

En aldrei hefur staðið til að virkja Norðlingaöldu né Kjalöldu, heldur Þjórsárfossana þrjá, og því hefði virkjunin átt að heita Þjórsárfossavirkjun á sama hátt og Urriðafossvirkjun heitir nafni fossins sem virkja á.thjorsa_regnbogi_ss

En svona hefur nú notkun orða breyst á 100 árum. Fyrir öld var sagður sannleikurinn í nafninu Urriðafossvirkjun, en nú hefur raunverulegur tilgangur verið falinn með marklausum heitum.

Í bili eru Dynkur, Gljúfurleitafoss og Kjálkaversfoss ekki á aftökulistanum.  Tveir þeir fyrstnefndu eru álíka stórir að umfangi, afli og hæð og Gullfoss, en hafa þegar verið rændir um 40% af afli sínu með Kvíslaveitu.

Með óskertu vatni er Dynkur að mínu mati flottasti stórfoss landsins.

En Neðri-Þjórsá er enn öll á aftökulistanum með þrjár fyrirhugaðar virkjanir.

Hin svonefnda Holtavirkjun á að verða 73 megavött að afli og valda miklum breytingum á svæðinu við Árnes sem tvær neðstu myndirnar eru teknar á.

Að sjálfsögðu ætti þessi virkjun að vera kennd við vatnsfallið sjálft eða hluta úr því, til dæmis fossinn Búða eða Búðafoss og vera allt eins kölluð Búðavirkjun eða Búðafossvirkjun en ekki Holtavirkjun, því að það á ekki að fara að virkja nein holt heldur vatnsfall.

Við Íslendingar erum enn sem fyrr meira en fimmtán árum á eftir Norðmönnum hvað varðar virkjanamál. Árið 2002 lýsti Kjell Magne Bondevik, þáverandi forsætisráðherra, yfir því að tími nýrra stórra virkjana í Noregi væri liðinn.

Og þar með tími nýrra stórra virkjana á Norðurlöndu liðinni, - nema á Íslandi.  

Eiga Norðmenn þó álíka mikið vatnsafl í teravattsstundum óvirkjað og Íslendingar.   

 


mbl.is Einhugur ríkti um niðurstöðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband