"Ekki margir", hvorki syðra né nyrðra?

Forsætisráðherra fannst ekki vera margt fólk á Austurvelli í gær þótt lögreglumenn og aðrir segðust aldrei hafa séð annan eins fjölda. 

SDG segir líka að það séu ekki margir á bak við vantraustsyfirlýsingu á hendur honum í Framsóknarfélaginu í langfjölmennasta bæjarfélagi heimakjördæmis hans. 

Heitustu stuðningsmenn hans á blogginu telja að fjöður hafi orðið að hænsnabúi í umfjöllun um mál Sigmundar, sem sé ómerkileg herför á hendur honum. 

Þó fjalla allir helstu fjölmiðlar heims áfram um þetta smáatriði. 

Fólk, sem er annt um að heiður lands og þjóðar verði reistur við, fyllti miðbæinn í gær til að kveðja forsætisráðherra en hann segir ekki einu sinni hafa íhugað að kveðja starf sitt. 

Minnir á gamansöguna af Frankó, einræðisherra Spánar, síðasta ævidag hans, þegar stuðningsmenn hann smöluðu fólki í garðinn fyrir framan herbergið hans, þar sem hann lá í hálfgerðu dái, og lét mannfjöldann hrópa: "Lifi Frankó! Lifi Frankó!" 

Það bráði nóg af Frankó þar sem hann var var að fara yfirum til þess að hann skynjaði þessi hróp og spurði: "Af hverju er fólkið að hrópa þetta?"

"Það er komið til að kveðja þig" var svarað. 

"Og hvert er allt þetta fólk að fara?" spurði Frankó. 

SDG gekk út úr frægu viðtali fyrir þremur og hálfri viku. Hvernig væri að hann færi að íhuga það að ganga út úr islenskum stjórnmálum um sinn? 

Hann er ungur og hefur ýmis ágæt áhugamál sem geta hjálpað honum til að ná áttum og verða þjóð sinni að gagni með því að horfa raunsæjum augum á stöðu sína og vinna úr henni í stað þeirrar firringar, sem meðal annars birtist í því að eiga lögheimili á eyðibýli á hinum enda landsins.

Hvað skyldu erlendir stjórnmálamenn, til dæmis forsætisráðherra Svíþjóðar, segja um það? 


mbl.is Mjög hafi fjarað undan Sigmundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Úti í hinum stóra heimi, þá gera fréttastofur ráð fyrir því, að í það minnsta að ríkisfréttastofur segi satt.

Ríkisútvarpið á Íslandi segir ekki satt, heldur er í pólitískri herferð gegn ríkisstjórninni. Erlendar fréttastofur vita það ekki. Því er það svo, að erlendar fréttastofur hafa sennilega ekki fengið að vita, frá Ríkisútvarpinu, að Sigmundur Davíð eigi engar eignir í skattaskjólum. Líklegt má telja, að Ríkisútvarpið hafi logið því að erlendum fréttastöðvum, að Sigmundur Davíð svíki undan skatti, og eigi ólöglegar eignir.

Það er náttúrulega ástæða þess að erlendar fréttastofur fjalla um hann.

Hvað fáa mótmælendur áhrærir, þá er það auðvitað algerlega rétt. Miðað við umfang og innihald lyga, aðdróttana og falsana Ríkisútvarpsins, þá eru það fáir sem mættu á útifund. Þetta eru bara helstu Facebook vinir vinstriflokkanna fjögurra.

Hilmar (IP-tala skráð) 5.4.2016 kl. 10:51

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ómar ég satt að segja skil ekki manninn, það er eitthvað alvarlegt að hjá honum.  Og því síður skil ég fólkið sem ennþá reynir að halda því fram að þetta sér einhverskonar aðför að forsætisráðherranum.  Þvílíkir kjánar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.4.2016 kl. 11:13

3 identicon

Auðvitað á Sigmundur að fara.  Nú fær hann kærkomið tækifæri til að sinna sínum hugðarefnum.  Hann hefur ástríðu fyrir húsagerð og arkitektúr og getur látið drauma sína rætast á Hrafnabjörgum.  Hins vegar er umfjöllun miðlanna, íslenskra og erlendra, sérkennileg fyrir þær sakir hve mikið pláss Pútín fær í umfjöllun um mál sem eru honum óviðkomandi.  

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 5.4.2016 kl. 11:38

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það eitt að hann átti eign í skattaskjóli og var meira að segja prókúruhafi á sama tíma og hann var þingmaður en kaus að leyna þessu í öll þessi ár er nóg þegar siðferðismælikvarða vestrænna lýðræðisríkja er brugðið á málið.

Þetta virðast margir Íslendingar ekki skilja.

Ómar Ragnarsson, 5.4.2016 kl. 16:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband