Á sér engan líka á þurrlendi jarðar.

Gígaraðir á borð við Eldvörp er hvergi að finna á þurrlendi jarðar nema á Íslandi.

Hinn eldvirki hluti Íslands er magnaðasta og fjölbreyttasta eldfjallasvæði jarðarkringlunnar.

Hið óbyggða miðhálendi er miðja og hjarta þessa svæðis og þess vegna er verðmæti þess ósnortins ómetanlegt.

Þótt þjóðin, sem falið hefur verið varðveisla þessarar einstæðu náttúrusmíðar hafi í skoðanakönnunum látið í ljós vilja til að þyrma henni, kann svo að fara að hún láti það samt líðast að vaðið verði með virkjanir, háspennulínur og hraðbrautir þvers og kruss yfir þessi djásn, sökkva þar dölum og vinjum og þurrka upp fossa.

Nýjust áformin eru í formi þingsályktunartillögu um heilsárs upphækkaða hraðbraut um Kjöl og ráðandi valdaöfl hafa nú þegar lýst yfir andstöðu við drög verkefnastjórnar rammaáætlunar varðandi verndarnýtingu á hluta af þeim virkjunum, sem eru uppi á borðinu. Eldvörp. Grindavík í fjarska.

Og enda þótt gígaraðir á borð við Eldvörp sé hvergi að finna á þurrlendi jarðar nema á Íslandi, er ætlunin að gera allt hið 15 kílómetra langa svæði frá Svartsengi til sjávar vestan við Grindavík að virkjanasvæði, sem mun ramma gígana inn í öll þau mannvirki, sem virkjunum fylgja.

Og samt verður uppskeran hvað orkuna snertir engin þegar upp er staðið, því að Svartsengi og Eldvörp hafa sameigeinlegan orkugeymi.   

Á loftmyndinni er horft til suðurs yfir þessa gígaröð og Grindavík og ströndin fyrir vestan hana sést í fjarsaka.


mbl.is Ómögulegt að hunsa jarðvirkni Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Boruð var ein hola við Eldvörp árið 1985. Í ljós kom að þrýstingur í þeirri holu féll með sama hætti og í virkjuðum borholum í Svartsengi. Boranir og gufuvinnsla við Eldvörp felur ekki í sér sókn í nýja orkulind, -aðeins aukna rányrkju á sama hitagjafa og knýr Svartsengisvirkjun.

Ástæðan er sú að HS Orka fór offari við gerð Reykjanesvirkjunar og þar hefur afkastageta fallið úr 100MW í 85MW og er í stöðugu falli, þrátt fyrir að jarðbor sé þar reglulega að störfum.

HS orka getur því ekki staðið við að afhenda orku til viðskiptamanna. 

Þrýstingur hefur fallið um 40bör í borholum Reykjanesvirkjunar og 30bör í Svartsengi/Eldvörpum.  Orkulindin er í Ríkiseign, afgjald af notkun hennar er óverulegt og HS Orka virðist komast upp með rányrkju og jafnvel eyðileggingu jarðhitakerfisins.

Sigurður Sunnandvindur (IP-tala skráð) 9.4.2016 kl. 00:22

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er það án nokkurs vafa að sama forðabúr sé undir Eldvörpum og Svartsengi?

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.4.2016 kl. 00:37

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef ég man rétt var talað um tengsl á milli svæðanna en þó aðskildir jarðhitageymar og þrýstingsfall í Svartsengi þýddi ekki að um sama geymi væri að ræða, einungis samgangur í efri jarðlögum. Frekari rannsóknir myndu leiða þetta betur í ljós.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.4.2016 kl. 00:49

4 identicon

væri ekki kjörið að fara með rafmagmslínur yfir kjöl. hægt að mestu að setja þær í jörðu skilst það sé hægt legja um 90.km. í einu það er nokurnveigin kjölur um veg yfir kjöl hef ég enga skoðun á í sjálfu sér. hefur veggerðin ekki nóg meðnúverandi vegakerfi í byggð. enkaframhvæmd gott og vel. þóti reinda nokkuð skondið hjá sveini runólfsini hjá inn. sjónvarpstöðini um dagin. þar talaði hann um gott dæmi um ofbeit þegar að eigin sögn mynd sem tekin var á haukadalheiði við gyrðingu öðrum meigin var gróður að  góðum veigi en lítill hinum meigin. vandin er sá það hefur ekki verið sauðfé á haukadalsheiðinni í nokkra áratugi, nemað sveinn teigi hanna yfir á tunguheiðina. varla er hægt að bera saman land sem hefur verið borið á og land sem er látið er óáreit. en eflaust eru þessar 10.rollur sem fundust á haukadalsheiðini í fyrra afkastamikklar. hefur ómar heirt um eyvafen á haukadalsheiði þau voru nýtt framan af öldinni til sláttar en þornuðu upp þegar hagafelsjökull hopuði. það skapaði mikkin upplástur en auðvitað gétur skortur á vatni ekki haft áhrif á stöðu lands. það eina sem heftir rof er viður þegar til leingdar lætur. hef staðið sjálfan mig að fara með uthlíðrhríslur " í skjóli myrkurs "  inní landgræðsluna sem má auðvitað ekki því þettað á víst að gerast að sjálfu sér. það er ekki mín trú. úr því sem komið er þarf maðurinn að hjálpa til

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 9.4.2016 kl. 07:34

5 identicon

https://www.facebook.com/groups/ubyggdamal/permalink/963117310409656/

Á hlekknum hér að ofan er ágæt umfjöllun um Gufuvirkjanir á Norðurlandi.

Textinn er hér að neðan en rétt er að fara inn á þessa fésbókarsíðu til þess að skoða myndirnar

Háhitavirkjanir og byggðamál.

Árum saman hefur verið rætt um að knýja málmbræðslu(r) með raforku frá Þingeyskum jarðvarmavirkjunum . Lengi var rætt um álver á Bakka með 600MW aflþörf en þau áform döguðu uppi þegar lýðum varð ljóst að ekki var innistæða fyrr þeirri orku sem þurfti til að knýa álverið.

Hvernig stóð á því að álversumræðan gegnsýrði samfélagið árum saman þó svo að hún væri með öllu innistæðulaus?
Svarið er að líkindum falið í meira og minna áætluðum tölum um aflgetu einstakra háhitasvæða sem settar voru fram af orkufyrirtækjum eða Orkustofnun og sendar inn sem virkjanaHUGMYNDIR til Rammááætlunar. Rammaáætlun fjallaði um þessar áætluðu afkastatölur á sama hátt og fjallað var um virkjanaKOSTI sem byggðu á raunverulegum stærðum sem mældar voru með beinum hætti, líkt og rennsli og fallhæð í ám og mælingar á raunverulegum gufuborholum.
Rammaáætlun tók enga afstöðu til áreiðanleika þessara talna enda var það ekki hennar hlutverk.
Þeir sem sáu þessar tölur, "svartar á hvítu", um tugi eða hundruð megawatta a hinum ýmsu háhitasvæðum sem rötuðu í nýtingarflokk, voru fljótir að sjá að þetta mætti nota til að bræða mikið af málmi og um tíma var unnið að krafti við undirbúning tveggja stórra álvera. 
Bankakreppan og verðfall á áli skipta ekki höfuðmáli um stöðvun þessara álversbygginga. -Það var aldrei raforkuleg innistæða fyrir þessum álverum.

Nýútgefin kerfisáætlun Landsnets byggir á meðfylgjandi töflu Rammaáætlunar um þá virkjanakosti og virkjanahugmyndir sem metnir hafa verið í nýtingarflokk.
Fyrst eru taldir nokkuð áreiðanlegir virkjanakostir í vatnsafli sem full innistæða er fyrir enda byggja þeir á beinum mælingum kennistærða. Síðan koma fjölmargar mis vel staðfestar hugmyndir um jarðhitavirkjanir sem margir þekkja. 
Hér verður tæpt á nokkrum þeirra:

Hverahlíðarvirkjun 90MW
Virkjunin verður aldrei byggð þar sem öll gufa fra Hverahlíð verður leidd að Hellisheiðarvirkjun. Hellisheiðarvirkjun var byggð af pólitískum glannaskap, án tilhlýðilegra rannsókna og og reyndist u.þ.b. tvöfalt stærri en afköst jarðhitakerfisins til lengri tíma litið. Viðbótar gufa frá Hverahlíð mun ekki duga til að halda fullum dampi á Hellisheiðarvirkun til langframa, og þarf að leita fanga víðar til gufuöflunar.

Reykjanesvirkjun 80MW
Í aðdraganda núvernadi 100MW Reykjanesvirkjunar var langtíma afkastageta jarðhitakerfisins metin 28MW. Þrýstingur í jarðhitakerfinu hefur fallið gríðarhratt og er enn á niðurleið. Þrýstifallið nemur 40 loftþyngdum eða ígildi 400 metra niðurdrætti vatnsborðs. Af skiljanegum ástæðum hefur ekki fengist leyfi til að stækka virkjunina þó svo að HS orka hafi þegar keypt 50MW vélasamstæðu.

Krafla I stækkun 40MW
Boruð var hola í fullri dýpt á sk Vestursvæði sem átti að sjá nýrri vél fyrir gufu. Engin gufa fannst og engin áform eru uppi um frekari boranir. Þetta þarf þó ekki að þýða að aldrei verði hægt að finna gufu á þessu svæði sem nota má til virkjunar en engin gufa er staðfest og engar vísbendingar um hvort finna megi vinnanlega gufu.

Krafla II áfangi 1&2 135MW
Gríðarlega orku er að finna undir Vítismóum enda nýbúið að kynda rækilega undir kötlunum.. Rannsóknir bentu til að fast berg væri að finna milli tveggja kvikhólfa og þar átti að bora djúpt og ná mikilli orku. Kvikuhólfin reyndust hinsvegar ná saman og borað var niður í bráðið berg og upp af því gufa mjög tærandi kvikugös. Hagnýting orkunnar er ekki möguleg fyrr en orkuverð stendur undir búnaði úr gulli og títaníum. Aðrir málmar þola ekki að saman fari þetta hár hiti og tærandi innihald. 
Hagnýting ómöguleg að svo stöddu.

Bjarnarflag 90MW
Eftir að heimamenn áttuðu sig á því að loftmengun frá 90MW Bjarnarflagsvirkjun ógnaði búsetu og atvinnurekstri í Vogum og Reykjahlíð (þetta kemur fram í skýrslum um MÁU 2003), fór LV að kynna virkjunina sem 45MW með möguleika á stækkun í 90MW. Virkjunin er í nágrenni byggðar og barnaskóla. Ekki eru tæknilegar forsendur fyrir virkjuninni fyrr en LV ræður við að hreinsa brennisteinsvetni úr útblæstri. Unnið er að nýju MÁU. Óvíst er að virkjunin verði reist á meðan LV ræður ekki yfir tækni til hreinsunar á útblæstri.

Þeistareykir 180MW
Lengi vel var fjallað um Þeistareykjavirkun sem 200MW, -einfaldlega vegna þess að það var tölugildið sem notast var við í skýrslu um MÁU sem gefin var út árið 2010. Rétt er að minna á að skýrslan bar titilinn “Allt að 200MW” en margir túlkuðu þetta sem 200MW í hendi.
Á meðan Stefán Arnórsson jarðfræðingur var í stjórn LV var samþykkt að reisa í fyrsta áfanga 45MW virkjun á Þeystareykjum og sjá til hvernig svæðið brigðist við vinnslu. Eftir að Stefán gekk úr stjórn LV og Bjarnarflagsvirkjun var amk tímabundið út úr myndinni vegna loftmengunar, var ákveðið að kaupa tvær 45MW vélar til Þeistareykja og er nú unnið að uppsetningu þeirrar fyrri. Forstjóri LV hefur margítrekað að framhaldið ráðist af viðbrögðum jarðhitageymisins við þessari 90MW vinnslu.

Þeistareykir vestursvæði 90MW
Út frá viðnámsmælingum á yfirborði var áætlað að mögulegt væri að virkja allt að 90MW.
Nýlega var tæpum hálfum milljarði varið í að bora rúmlega 2 km niður í svæðið (hola ÞG-8). Í ljós kom að hiti lækkar með auknu dýpi og hafa gárungar í hópi jarðfræðinga sett fram þá kenningu að með sama áframhaldi megi finna alkul löngu áður en komið er að miðju jarðar! wink emoticon
Í kjölfar borunar sendi Landsvirkjun frá sér eftirfarandi yfirlýsingu: - “Borholan á vestursvæðinu (ÞG-8) reyndist ekki nothæf fyrir háhitavirkjun og því gera varfærnar áætlanir Landsvirkjunar ekki ráð fyrir að sá hluti svæðisins verði nýttur til raforkuvinnslu að svo komnu”.

Af þessari samantekt er ljóst að Landvirkjun getur ábyrgst framleiðslu 90MW á Þeystareykjum.
Ekki var innistæða fyrir 40MW frá Kröflu I eða 90MW frá vestursvæði Þeystareykja.
Tækni til virkjunar Kröflu II er ekki innan seilingar og sama er að segja um tækni til mengunarvarna við Bjarnarflagsvirkjun. Í Bjarnarflagi er hinsvegar tiltæk gufa til 45MW virkjunar og ekki ólíklegt að bæta megi við öðru eins.
Líklegt er að sjá megi við loftmengun frá virkjuninni en mikil óvissa er með kostnað við hreinsun/niðurdælingu. Mikil óvissa er einnig um áhrif virkjunarinnar á grunnvatn.

Þessi samantekt er í fullu samræmi við orð forstjóra LV á borgarafundi á Húsavík þegar hann sló álverið á Bakka út af borðinu vegna orkuskorts. Þá sagði Hörður að LV gæti ábyrgst uþb 200MW frá Þingeyskum jarðhitavirkjunum og etv annað eins innan áratugs ef vel gengi. Síðan þá hefur Bjarnarflagsvirkjun dottið amk tímabundið úr skaftinu og eftir standa nokkuð trygg 90MW á Þeistareykjum.

Karl Ingólfsson (IP-tala skráð) 9.4.2016 kl. 08:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband