Kennitöluflakkið og feluleikurinn eru heilagar kýr.

Frumvarp Karls Garðarssonar um að koma einhverjum böndum á kennitöluflakk hefur fengið dræmar viðtökur hjá ráðandi öflum, sem virðast líta á grunnforsendur þúsunda milljarða taps og dulbúins ráns frá almenningi eins og heilagar kýr.

Í ágætum fréttaskýringum síðustu vikna hér og þar í fjölmiðlum er byrjað að gægjast inn í þann heim sem hefur skapað tvær þjóðir á Íslandi, annars vegar heim almúgans, sem er læstur inni í krónuhagkerfinu og gjaldeyrishöftum, en hins vegar er yfirþjóðin, sem spilar á möguleikana til að flytja sitt fé til aflandsfélaga eða erlendra peningastofnana og fyrirtækja,- gerir jafnvel allt sitt bókhald í erlendri mynt.


mbl.is Kjöraðstæður fyrir kennitöluflakk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

31.3.2016:

"Þorsteinn Pálsson fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra segir að eftir að upplýst var um aflandsfélög tengd ráðherrum séu engar siðferðilegar stoðir lengur fyrir þeirri pólitísku stefnu ríkisstjórnarinnar að sumir geti staðið fyrir utan krónuhagkerfið en aðrir ekki."

"Því hefur verið haldið fram að það sé nauðsynlegt að hafa krónu vegna útflutningsfyrirtækjanna.

Útflutningsfyrirtækin hafa hins vegar fyrir löngu yfirgefið krónuna. Þau starfa fyrir utan krónuhagkerfið þannig að þau rök eiga nú ekki vel við.

Þegar gengi krónunnar hrynur rýrna eignir launafólks en eignir þeirra sem geyma sín verðmæti í erlendri mynt hækka í verði.

Það er þetta óréttlæti sem ég held að hafi blasað við um nokkurn tíma en verður miklu augljósara eftir þessa atburði."

Þorsteinn Pálsson fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins - Engar siðferðilegar stoðir fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar

Þorsteinn Briem, 18.5.2016 kl. 00:18

2 identicon

Frumvarp Karls Garðarssonar um að koma einhverjum böndum á kennitöluflakk hefði ekki komið neinum böndum á kennitöluflakk. Frumvarp Karls Garðarssonar um að koma einhverjum böndum á kennitöluflakk var nokkuð sem oft sést þegar menn vilja grípa til aðgerða en hafa ekki hugmynd um hvað ætti að gera. Þá er pólitískur leikaraskapur lausnin: að gera bara eitthvað, öskra á logana eða ráðast með kylfu gegn snjókomunni. Það verða alltaf einhverjir sem telja þeim það til tekna.

Davíð12 (IP-tala skráð) 18.5.2016 kl. 01:19

3 identicon

Þessi pistill er náttúrulega samansúrrað rugl. Eignir í aflandsfélögum (sem eru ekki ólöglegar) eru bara allt annað mál en gjaldþrot fyrirtækja, og eftir atvikum, kennitöluflakk.

Það er auðvitað einnig rugl, að það sé eitthvað samhengi með gjaldþrotum og meintum þúsunda miljarða tapi og þjófnaði frá almenningi. Gjaldþrot er gjaldþrot, og undanskot eigna er undanskot eigna. Það fyrra er löglegt en hið seinna ekki.

Það er heldur ekkert samhengi með gjaldþroti og nýrri kennitölu og ólöglegum undanskotum. Fyrirtæki sem verður gjaldþrota á ekki endilega hugverk eins og nafn, hönnun, sölurétt og annað. Gjaldþrot fyrirtækis og stofnun nýs fyrirtækis á eldri grunni er því ekki ólöglegur eða óheiðarlegur. Það er lánveitanda að tryggja að hann hafi veð fyrir lánum, og viðskiptamanna að skoða hvort fyrirtækið sem það skiptir við er traust.

Þess utan eru fyrirtæki undantekningalaus skilaskild með opinber gjöld og afdrátt af launþegum, að viðlögðum refsingum og sektum. Það er nákvæmlega ekkert sem hægt er að gera til að auka þann rétt.

Umræðan um kennitöluflakk er dæmigerður popúlismi stjórnmálamanna sem vilja vekja á sér athygli. Flestir þeirra hafa enga þekkingu á rekstri eða umhverfi fyrirtækja, og þekkja varla lögin sem í gildi eru.

Álögur og íþyngjandi lög og reglur eru að drepa rekstrarmöguleika minni fyrirtækja, og þá sérstaklega fyrirtæki frumkvöðla. Hin fyrirtækin, þessi stærri, eru gjarnan í skjóli eða jafnvel í eigu banka og lífeyrissjóða, og geta leyft sér að tapa eftirlitslaust árum saman. Það eru viðskiptavinir banka og lífeyrissjóða sem taka skellinn.

Í Bandaríkjunum hefur það verið talið eðlilegt að fyrirtæki fari á hausinn, og ný séu stofnuð á grunni þess eldra. Þannig er tryggt að mikilvæg reynsla og þekking glatist ekki, sem er mun dýrara fyrir þjóðfélagið.

Efnahagsundur Vestur Þýskalands á eftirstríðsárum byggðist m.a. á afnámi íþyngjandi laga og reglna, þar sem viðskiptalífinu var treyst til þess að reka sig án þess að ríkið væri með puttana í öllu. Þannig jukust þjóðartekjur og laun í réttu hlutfalli við aukið tap í Bretlandi, sem fór hina leiðina, leið sósíalistans, að drepa allt með kæfandi ríkishendi.

Í dag höfum við valið, frjálst og réttlátt umhverfi atvinnulífs, eða Venezúela vinstrimanna. Menn ættu að íhuga það næsta þegar þeir fægja á sér afturendann með lúxuspappír.

Hilmar (IP-tala skráð) 18.5.2016 kl. 01:53

4 identicon

Það er líka nauðsynlegt að hafa kennitölufakk ef það á að einkavinavæða Bankana aftur.

Steindór Sigurðsson (IP-tala skráð) 18.5.2016 kl. 02:09

5 identicon

Vil þakka Hilmari fyrir hans framlag til umræðunnar sem Ómar fitjaði upp á með færslunni.

Vonandi verður framhald hér á blogg Ómars um þessi mál því mig grunar að ég sé ekki eini lesendinn sem er óupplýstur á þessu sviði.

Trúlega hverfur samt þessi færsla og athugasemdirnar við hana innan nokkurra klukkutíma og skilur þá lítið vitrænt eftir.

Agla (IP-tala skráð) 18.5.2016 kl. 11:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband