10.7.2016 | 01:02
Íslensku "æðin", m.a. hótelæðið um allt land.
Þótt neyslusamfélag nútímans byggist á því að koma af stað einhvers konar "æði" varðandi ákveðnar vörur eða fyrirbæri, er líklega leitun að þjóð eins og okkur, sem rennur "æði" á með stuttu millibili á ýmsum sviðum.
Hið stærsta var líklega "gróða-og lántökuæðið" sem skóp Hrunið, en þegar fram í sækir munu afleiðingar "stóriðju- og virkjanaæðisins, sem hófst í aldarbyrjun og hefur staðið síðan, skilja eftir sig miklu meiri áhrif og afleiðingar í stórfelldum óafturkræfum umhverfisspjöllum og rányrkju að stórum hluta hvað varðar nýtingu háhitans til raforkuframleiðslu.
Fram að Eyjafjallajökulsgosinu var stóriðjuæðið meðal annars knúið áfram með því að gera ekkert úr neinum öðrum möguleikum til verðmætasköpunar og þeim líkt við fjallagrasatínslu.
Annað kom á daginn og hagvöxtur og aukinn kaupmáttur undanfarinna missera hefur verið nær eingöngu skapaður að ofsavexti ferðaþjónustunnar.
Og þá er eins og við manninn mælt að nýtt gróðaæði rennur á þjóðina og er hótelbyggingaæðið eitt mest áberandi dæmi þess, ekki aðeins í miðborg Reykjavíkur, heldur einnig í einstökum byggðarlögum úti á landi, svo sem í Vík í Mýrdal, þar sem ruðningsáhrifin hafa verið látin afskiptalaus og sumar byggðirnar rændar því þjóðlífi og yfirbragði, sem flestir ferðamennirnir vilja upplifa.
Fær aldagamalt kirkjugarðsstæði vestan við Austurvöll ekki einu sinni að vera í friði fyrir þessu hótelaæði.
Þetta er svo sem ekkert nýtt hér á landi. Þegar stríðinu lauk 1945 rann hrikalegt eyðslufyllerí á þjóðina, sem eyddi upp feiknarlegumm stríðsgróða á aðeins rúmum tveimur árum á svo svakalegan hátt, að hér varð að taka upp vöruskömmtun á öllum hlutum og segja sig nánast til sveitar meðal Evrópuþjóða með því að taka til okkar mestu Marshallaðstoð allra þjóða miðað við íbúafjölda, og var Ísland þó eina landið í Evrópu sem stórgræddi fjárhagslega á stríðinu.
Á árunum 1946-47 ríkti Willysjeppaæði, því að þessir bílar vorum með stórfelldum afslætti á innflutningsgjöldum af því að þeir voru skilgreindir sem landbúnaðrtæki.
Þessir jeppar voru eyðslufrekir miðað við stærð en fólksbílar af svipaðri þyngd áttu ekki möguleika á móti þeim hvað snerti kaupverð.
Eitt fyndnasta æðið var svokallað "Bronkó-æði" sem greip landsmenn á árunum 1966-75.
Þannig vildi til að ráðandi flokkar, Sjallar og Framsókn, héldu uppi stórfelldum ívilnunum varðandi bílainnflutning til handa atvinnustarfsemi og landbúnaði.
Sendibílar voru með mikinn afslátt, og jeppar,sem voru styttri á milli fram- og afturöxla en 2,40 metrar, voru skilgreindir sem landbúnaðartæki og fengu stórfelldan aflátt á innflutningsgjöldum.
2,40 metrarnir voru miðaðir við það að Willys, Land-Rover, og Rússajeppar féllu inn í þennan flokk, en hinn ágæti Scout, sem kom á markað 1961, og bar á þeim tíma af jeppum á markaðnum, sem fjölskyldufarartæki, átti enga möguleika vegna þess hvað hann var dýr.
Hann var 2,54 á milli öxla og því útilokaður.
En 1966 kom Ford Bronco fram á sjónarsviðið, amerískur gæðabíll, með 2,33 metra í hjólhaf, gormafjöðrun að framan, mjúka blaðfjöðrun að aftan og fólksbílalegt útlit, og fáanlegur með þessum fínu sexstrokka og V-8 vélum.
Ég var meðal þeirra sem tók tilboði, sem ekki var hægt að hafna hjá manni, sem var kominn með stóra fjölskyldu og átti Bronkó á tveimur tímabilum, 1966-68 og 1973-77.
Þaö brast sem sé á þetta dæmalausa Bronkóæði. Bronkóarnir voru svo miklu eyðslufrekari en fólksbílar af svipaðri stærð, sem ekki gátu keppt við þá í verði, að í raun stórtapaði þjóðin á þessu æði.
Í meira en 30 ár eftir stríðið blómstraði mikill iðnaður hér við að breyta sendibílum og jeppum og gera þá sem líkasta fólksbílum.
Willysarnir voru til dæmis lengdir og smíðuð á þennan smábíl ekki nein smáræðis hús.
Enn muna margir eftir "fótanuddstækja-æðinu" sem heltók þjóðina fyrir ein jólin og með hverri nýrri gerð af snjallsímum og smátölvum fylgir kaupaæði.
Nú er það ferðaþjónustuæðið á sama tíma og vegakerfi landsins og margir innviðir eru að grotna niður, af því að allir verða að græða sem mest og við tímum ekki að undirbyggja hinn stórvaxandi atvinnuveg.
Ef stefnubreyting verður í þessum efnum á að vera hægt að komast hjá því að Reykjavík verði full af tómum hótelum og sum þorpin út á landi sneydd íslensku mannlífi.
Því veldur orðstír hinnar einstæðu náttúru landsins. Sem dæmi um gildi slíks má nefna að ferðamannastraumurinn í Yellowstone þjóðgarðinn í Bandaríkjunum hefur vaxið hægt og bítandi í marga áratugi.
Náttúra hans er hliðstæð því sem er aðdráttarafl fyrir Ísland, þótt náttúra Íslands sé mun magnaðri og Ísland miklu nær Evrópu en Yellowstone, þar sem helmingur ferðamanna er frá öðrum heimsálfum en Norður-Ameríku.
En í Yellowstone er vel hugað að náttúruvernd, stýringu og skipulagi og engum hótelum hrúgað þar niður, heldur verða ferðamenn að gista utan þessa 9000 ferkílómetra svæðis.
Og það gera þeir með glöðu geði, því að þeir eru ekki komnir inn í þjóðgarðinn til þess að upplifa þétta byggð hótela og hliðstæðra ferðamannamannvirkja, heldur aðeins ósnortna náttúru.
Reykjavík verður full af tómum hótelum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Mikið rýkur nú moldin í logninu," hefði hún amma mín á Baldursgötunni sagt.
Þorsteinn Briem, 10.7.2016 kl. 01:43
Bandaríkjunum árið 2012 en garðurinn var stofnaður árið 1872 og ég veit ekki betur en að hann sé í góðu lagi.
Yellowstone National Park
Þorsteinn Briem, 10.7.2016 kl. 01:47
Að sjálfsögðu þarf að byggja upp aðstöðu fyrir bæði íslenska og erlenda ferðamenn um allt landið, reisa til að mynda hótel og gistiheimili, ráða starfsfólk, stækka bílastæði, bæta salernisaðstöðu og leggja fleiri göngustíga.
Steini Briem, 4.1.2014
Þorsteinn Briem, 10.7.2016 kl. 01:48
Ferðaþjónusta hefur farið vaxandi um allan heim síðastliðna áratugi.
Þróun alþjóðlegrar ferðaþjónustu frá árinu 1980 - Línurit bls. 7
Steini Briem, 3.1.2014
Þorsteinn Briem, 10.7.2016 kl. 01:50
Ferðaþjónustan hefur vaxið mikið hér á Íslandi undanfarin ár meðal annars vegna þess að gengi íslensku krónunnar var alltof hátt og ekki innistæða fyrir þessu háa gengi.
23.3.2015:
"Árið 2001 spáði Vilhjálmur Bjarnason þingmaður og þáverandi sérfræðingur hjá Þjóðhagsstofnun því að hingað til lands myndi koma um ein milljón ferðamanna árið 2016 ... en talan fékkst meðal annars með því að framreikna þá fjölgun sem varð á ferðamönnum milli áranna 1990 og 2000."
Spáin reyndist nærri lagi
Þorsteinn Briem, 10.7.2016 kl. 01:52
Ísland er eitt strjálbýlasta land í heimi og er þar í 235. sæti.
Röð landa eftir þéttleika byggðar
Hér á Íslandi dvöldu um 1,3 milljónir erlendra ferðamanna í fyrra, 2015.
Hver erlendur ferðamaður dvelur hér á Íslandi að meðaltali í eina viku og því voru hér að meðaltali í fyrra um 25 þúsund erlendir ferðamenn á degi hverjum allt árið á öllu landinu.
Um níu af hverjum tíu Íslendingum ferðast hér innanlands á ári hverju og gista að meðaltali tvær vikur á þessum ferðalögum.
Að meðaltali eru því um ellefu þúsund Íslendingar á ferðalögum hér innanlands á degi hverjum allt árið og því eru hér einungis um tvisvar sinnum fleiri erlendir ferðamenn en íslenskir.
Og við Íslendingar erum örþjóð.
Þorsteinn Briem, 10.7.2016 kl. 02:06
Um 3,4 milljónir manna heimsóttu Yellowstone-þjóðgarðinn í Bandaríkjunum árið 2012 en garðurinn var stofnaður árið 1872 og ég veit ekki betur en að hann sé í góðu lagi.
Yellowstone National Park
"Hann var það, Steini, þegar ég kom þangað 2008."
Ómar Ragnarsson, 20.3.2013
Þorsteinn Briem, 10.7.2016 kl. 02:11
Útgjöld erlendra ferðamanna til íslenskra fyrirtækja voru 238 milljarðar króna árið 2012.
Erlendir ferðamenn voru að meðaltali 6,6 gistinætur hér á Íslandi að vetri til en 10,2 nætur að sumri til árið 2012.
Það ár voru 77% gistinátta erlendra ferðamanna á hótelum eða gistiheimilum, samtals 2,2 milljónir gistinátta.
Rúmlega 94% þeirra heimsóttu þá Reykjavík að sumri til en 72% Þingvelli, Gullfoss eða Geysi og 42% Mývatnssveit en að vetri til 95% Reykjavík og 61% Þingvelli, Gullfoss eða Geysi en 33% Vík í Mýrdal.
Færri erlendir ferðamenn heimsóttu hins vegar Mývatnssveit sumarið 2012 en Vík í Mýrdal (52%), Skaftafell (48%) og Skóga (45%) en jafn margir heimsóttu Akureyri og Húsavík (42%).
Um 44% gistinátta erlendra ferðamanna voru á höfuðborgarsvæðinu að sumri til árið 2012 en 77% að vetri til.
Níu af hverjum tíu Íslendingum ferðuðust innanlands árið 2012, líkt og árið 2011.
Íslendingar voru að meðaltali 15 gistinætur á ferðalögum innanlands árið 2012, þar af samtals 465 þúsund á hótelum eða gistiheimilum.
Og það ár heimsóttu 43% þeirra Akureyri en 27% Þingvelli, Gullfoss eða Geysi og 18% Mývatnssveit.
Þorsteinn Briem, 10.7.2016 kl. 02:16
Yfirleitt er ekki hægt að banna útlendingum að dvelja hér á Íslandi eða Íslendingum að veita þeim hér þjónustu samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, meðal annars um frjálsa för fólks og frjáls þjónustuviðskipti á svæðinu.
Og Kínverjar sem komnir eru inn á Evrópska efnahagssvæðið, til dæmis til Noregs, geta að sjálfsögðu flogið þaðan hingað til Íslands.
Hins vegar er hægt að meina glæpamönnum sem búa á Evrópska efnahagssvæðinu landgöngu hérlendis.
En íslenskum ríkisborgurum er ekki hægt að banna að koma hingað til Íslands.
Þorsteinn Briem, 10.7.2016 kl. 02:22
Alls áttu 40.295 lögheimili í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar 1. janúar 2013, rúmlega þriðjungur Reykvíkinga, þar af 15.708 í 101 Reykjavík, 16.067 í 105 Reykjavík og 8.520 í 107 Reykjavík.
Og þá áttu þar lögheimili 7.915 börn (sautján ára og yngri eru skilgreindir sem börn), þar af 2.659 í 101 Reykjavík, 3.203 í 105 Reykjavík og 2.053 í 107 Reykjavík, samkvæmt Hagstofu Íslands.
Þorsteinn Briem, 10.7.2016 kl. 02:37
12.2.2016:
"Meðalkaupverð 100 fermetra íbúðar í fjölbýli í 101 Reykjavík á fjórða ársfjórðungi 2015 var um 414 þúsund krónur á fermetra."
Lítil þriggja herbergja sextíu fermetra íbúð í póstnúmeri 101 Reykjavík kostar því nú að meðaltali um 25 milljónir króna.
Og til að geta keypt þannig íbúð þarf par að hafa lagt fyrir 20% af kaupverðinu, 5 milljónir króna, eða 2,5 milljónir á mann.
Sá sem leggur fyrir um 100 þúsund krónur á mánuði í tvö ár hefur safnað þeirri upphæð.
Það eru nú öll ósköpin sem það kostar núna fyrir ungt par að geta keypt íbúð í póstnúmerinu 101 Reykjavík.
Þorsteinn Briem, 10.7.2016 kl. 02:38
Auðvelt er fyrir mörg ung pör, sem enn búa í foreldrahúsum, að leggja fyrir, til að mynda samtals 200 þúsund krónur á mánuði í tvö ár, til að geta keypt íbúð vestan Kringlumýrarbrautar, þar sem eftirspurnin er mest eftir íbúðum hér í Reykjavík.
Þorsteinn Briem, 10.7.2016 kl. 02:41
10.8.2015:
Átta af hverjum tíu Íslendingum ánægðir gagnvart erlendum ferðamönnum hér á Íslandi
Þorsteinn Briem, 10.7.2016 kl. 04:05
"Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru almennt jákvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum samkvæmt niðurstöðum viðhorfskönnunar sem lögð var fyrir íbúa á svæðinu 19.-30. mars 2015.
Einungis 2,3% íbúanna segjast vera neikvæð gagnvart erlendum ferðamönnum á höfuðborgarsvæðinu og þar af segjast 2% vera fremur neikvæð en 0,3% mjög neikvæð.
Um 70% segja fjölda ferðamanna í sínu hverfi vera hæfilegan yfir sumarmánuðina og athygli vekur að fleiri segja fjöldann vera of lítinn en of mikinn.
Þegar spurt var um fjölda ferðamanna í miðborginni telja tveir af hverjum þremur hann vera hæfilegan."
Viðhorf íbúa á höfuðborgarsvæðinu til erlendra ferðamanna - Mars 2015
Þorsteinn Briem, 10.7.2016 kl. 04:32
Bronco já... það hlaut að vera eitthvað. Þeir þekktust á hljóðinu. Íslendingar hafa alltaf, og eru enn að súpa seiðið af heimskulegum lagasetningum á vélknúin ökutæki (ekki það að heimskuleg lög einskorðist við slíkt, þau eru um allt, eins og krabbamein). Þau valda til dæmis þessum mikla fjölda Ford F150 bíla, sem við höfum ekkert við að gera.
Í hinum siðmenntaða heimi aka menn bílum sem henta. Hér? Því sem er nálægast því að henta, sem er á viðráðanlegu verði.
F150 hentar alltaf, öllum. Erfitt að leggja? Lærðu að keyra.
Ásgrímur Hartmannsson, 10.7.2016 kl. 07:57
Pínu kjánaleg hjarðhegðun hjá pínu kjánalegri örþjóð
Anna (IP-tala skráð) 10.7.2016 kl. 11:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.