Endalaus "túrbínutrix".

Stundum er engu líkara en að því stærri og galnari sem hugmyndin er, því auðveldara sé að koma henni í framkvæmd. 

Upp úr 1990 fór á flug hugmynd íslenskra verkfræðinga á árunum á undan um LSD, sem var skammstöfun fyrir Lang stærsta drauminn, að steypa þremur jökulsám norðan Vatnajökuls ofan í rafstöð í Fljótsdal þar sem risi 1500 megavatta virkjun með næstum þreföldun raforkuframleiðslunnar á Íslandi.

Rísa átti 750 þúsund tonna álver í Reyðarfirði til að "bjarga Austurlandi."

Á þessum tíma og allt fram til 2004 vissi hvorki ég né stjórmálamenn eða almenningu á Íslandi að Norðmenn höfðu gert svipaða áætlun fyrir norska hálendið tuttugu árum fyrr en fallið algerlega frá henni þegar þeir áttuðu sig á hinum gríðarlegu umhverfisspjöllum og áfalli fyrir ímynd Noregs sem svona stórvirkjun myndi valda.

Hin íslenska hugmynd krafðist þess að drekkja mörgum dölum á norðurhálendinu í miklu verri framkvæmd en sú norska var, af því að íslensku lónin myndu með tímanum fylla dalina upp með auri og virkjanirnar verða að mestu ónýtar.

Túrbínutrixið 1970 fólst í kaupum fyrirfram á túrbínum fyrir stóra virkjun í Laxárdal sem hluti af svo stórfelldum umhverfisspjöllum á Mývatns- og Laxársvæðinu, að maður lýsir þeim fyrir fólki á okkar tímum trúir það því varla.

Nú er vaðið af stað með 50 milljarða framkvæmd í Mosfellsbæ með meira en tvöfalt fleiri störfum en í álverinu á Reyðafirði og það á sama tíma og önnur 50 milljarða framkvæmd á sama sviði á að rísa á sama atvinnusvæðinu.

Í Morgunblaðinu í fyrradag var þessi hugmynd mærð í hástert, því að heildarniðurstaðan yrði sú að enginn Íslendingur þyrfti að fara til útlanda til lækninga þótt hann fengi ekki úrlausn í íslenska heilbrigðiskerfinu.

Rétt eins og að Ísland yrði að miðstöð fjármála- og viðskiptalífs í bankabólunni gæti Ísland nú orðið eins konar miðstöð lækninga og læknavísinda.

Í grein þriggja lækna í Morgunblaðinu birtist aðeins víðari og raunsæjari sýn; sú, að íslenska heilbrigðiskerfinu yrði umturnað.

Annars vegar væri glæsisjúkrahúsið með alla bestu læknana og heilbrigðisstarfsfólkið og hins vegar hið ríkisrekna heilbrigðiskerfi, væntanlega engan veginn samkeppnishæft við gullið og grænu skógana í landi Mosfellsbæjar.

Í mærðargreininni í fyrradag byggist aðdáun höfundar greinilega á því að þeir Íslendingar sem hafa efni á því þyrftu nú ekki lengur að fara til útlanda til að komast fram hjá íslenskum biðlistum eða ófáanlegri þjónustu.

Skítt með venjulegt fólk, sem ekki ætti minnstu fjárhagslega möguleika til að bjarga sér.

Það má taka einfalt hliðstætt dæmi:  

Á baðstað er þröng á þingi, aðstaðan mætti vera betri, og vatnið er 35 stiga heitt.

Það yrði að meðaltali gríðarleg bót að breyta þessu þannig, að útkoman yrði annars vegar laug með 60 stiga heitu vatni, en hins vegar laug með 10 stiga heitu vatni.

Meðaltalið á hita lauganna yrði 35 stig og allir ánægðir!    


mbl.is „Gjörbreyting á íslenskri heilbrigðisþjónustu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Framleiðsla vatnsorkuveranna í Noregi er 113 TWh/a, um 60% af þeirri vatnsorku sem þar væri hægt að virkja.

Og framleiðsla vatnsorkuveranna hefur lítið aukist frá árinu 1990, samkvæmt skýrslu sem Þorkell Helgason skrifaði fyrir forsætisráðuneytið um skattlagningu orkufyrirtækja í Noregi.

Þorsteinn Briem, 30.7.2016 kl. 16:54

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Raforkuvinnsla hér á Íslandi árið 2008 var 16,467 GWh og hafði þá aukist frá árinu áður um 37,5%.

Og notkunin á íbúa jókst úr 38,5 MWh í 51,6 MWh.

Árið 2002 varð raforkunotkunin hér sú mesta í heiminum á mann
en áður hafði hún verið mest í Noregi.

Með Fjarðaáli jókst raforkunotkun stóriðju verulega árið 2008 og hlutur hennar fór þá í 77% af heildarnotkuninni.

Þorsteinn Briem, 30.7.2016 kl. 16:55

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Aðspurður hvort [raforkustrengur til Bretlands] muni hækka raforkuverð á Íslandi segir [Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar] ekki sé þörf á því en ríkisstjórnin þurfi samt að finna leið til að halda verðinu niðri.

Ef norska leiðin yrði farin yrði orkuiðnaðurinn enn með góð kjör og langtímasamninga en verð til almenna markaðarins væri svo pólitísk ákvörðun.

Gert er ráð fyrir að um 20 ár tæki að greiða upp slíkan streng og endingartíminn yrði um 40 ár."

Lokaskýrsla ráðgjafahóps um lagningu sæstrengs til Bretlands, júní 2013, bls. 20

Þorsteinn Briem, 30.7.2016 kl. 16:56

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

17.12.2005:

"Alpan hf. hefur ákveðið að flytja álpönnuverksmiðju sína frá Eyrarbakka til bæjarins Targoviste í Rúmeníu."

"Þórður Bachmann framkvæmdastjóri segir að fyrirtækið keppi á alþjóðlegum mörkuðum og þar hafi samkeppnin harðnað á undanförnum árum á sama tíma og rekstrarumhverfi fyrirtækja í útflutningi hafi versnað stórlega, bæði vegna aukins innlends kostnaðar, skorts á vinnuafli og mjög hás gengis krónunnar.

Ekki er við því að búast að starfsumhverfið batni á næstunni að mati Þórðar, því auk álversframkvæmda og virkjana sem þeim fylgja hafi hið opinbera miklar framkvæmdir á prjónunum næstu ár."

Álpönnuverksmiðjan flutt frá Eyrarbakka til Rúmeníu

Þorsteinn Briem, 30.7.2016 kl. 16:59

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Reisa þarf nýjan Landspítala sem er geysistór nokkurra ára opinber framkvæmd sem ekki er hægt að bíða með.

Þorsteinn Briem, 30.7.2016 kl. 16:59

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

12.7.2016:

"Bygg­ing­akrön­um hef­ur farið ört fjölg­andi und­an­far­in ár og á fyrri hluta þessa árs hef­ur Vinnu­eft­ir­litið skoðað 157 krana en þeir voru 165 á fyrri hluta ársins 2007.

Það er aukn­ing frá því sem var á fyrri hluta síðastliðins árs þegar 137 bygg­ing­a­kran­ar voru skoðaðir af Vinnu­eft­ir­lit­inu og 319 á ár­inu í heild.

Ein­ung­is fóru fleiri kran­ar í skoðun hjá Vinnu­eft­ir­lit­inu árið 2007 eða 364.

Árni Jó­hanns­son, for­stöðumaður bygg­inga- og mann­virkja­sviðs hjá Sam­tök­um iðnaðar­ins, seg­ir að þrátt fyr­ir fjölg­un krana sé upp­bygg­ing í land­inu á upp­hafs­stig­um.

"Þetta er rétt að byrja. Það sem er ólíkt við það sem var á ár­un­um fyr­ir hrun er að upp­bygg­ing innviða er ekki haf­in af neinu viti.

Fyr­ir utan Þeistareyki og Búr­fells­virkj­un er ekk­ert í gangi hjá hinu op­in­bera.

Allt var á fleygi­ferð á veg­um hins op­in­bera fyr­ir hrun. Það er ekki svo núna. Upp­bygg­ing­in er studd af einka­geir­an­um,“ seg­ir Árni Jó­hanns­son."

Þorsteinn Briem, 30.7.2016 kl. 17:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband