Leynimakk sem kostaði meira en sem nam sparnaðinum?

Það fór hljóðlega þegar þynnra malbik var lagt á götur í Reykjavík árum saman til að spara peninga. 

Fróðlegt væri ef reynt væri að komast að því hvað þetta kostaði mikið óþarfa tjón í viðgerðum, óhöppum og endurnýjun löngu fyrr og oftar en ella. 

Aldrei voru borgarbúar látnir vita um þetta eða spurðir álits en smám saman hefur vitneskja um þetta verið að síast út og til dæmis hefur það blasað við að malbik, sem lagt var á akstursbrautir og flugbrautir Reykjavíkurflugvallar fyrir meira en 15 árum hafa ekki þurft neitt viðhald á sama tíma sem holur hafa komið í stórum stíl í malbikið á götum Reykjavíkur og valdið bílaeigendum tjóni og haft óhöpp í för með sér.

Ástæðan var sú að jafn þykkt slitlag var lagt á flugvöllinn og krafist er erlendis, en þessar kröfur hins vegar hunsaðar við lagningu malbiks á gatnakerfið.

Í ofanálag hefur slitlagið sjálft löngum verið mun lakara efnislega séð en í öðrum löndum, líka til að spara peninga, og ótæpileg notkun negldra hjólbarða hefur aukið á slitið.

En sums staðar má sjá að þar sem umferð er lítil, svo sem á strætisvagnastöðvum, fer malbikið illa, rétt eins og á fjölförnum akbrautum.

Síbyljan um "séríslenskar aðstæður" sem geri gatnakerfið eins og svissneskan ost með djúpum vatnsfylltum eða krapafylltum hjólförum, er augljóslega langt frá því að vera sannfærandi.    


mbl.is Þynnra malbik var lagt í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekkert hefur komið fram um að eitthvert "leynimakk" hafi verið að ræða.

Það er dýrt að vera fátækur og vegagerð um allt land hefur einnig verið í lamasessi eftir Hrunið hér á Íslandi haustið 2008.

En það hefur greinilega farið framhjá þér eins og svo margt annað í lífinu, Ómar Ragnarsson.

Þorsteinn Briem, 15.11.2016 kl. 18:50

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Veit ekki betur en að að íslenska ríkið sé að spara á flestum eða öllum sviðum, til að mynda á Landspítalanum, hvort sem kostnaðurinn við sparnaðinn er mikill eða lítill.

Steini Briem, 25.6.2014

Þorsteinn Briem, 15.11.2016 kl. 18:55

4 identicon

Þetta byrjaði þegar Geir malbikaði borgina. Eflaust ætluðu menn sér að bæta úr síðar meir en það varð bara aldrei af því. Það vantaði líka alltaf slitlagið vegna skorts á innlendu efni og vegna þess að menn komust upp með það.

stefán benediktsson (IP-tala skráð) 16.11.2016 kl. 00:32

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vel má vera að þetta hafi verið gert lengi og hjá mörgum borgarstjórum en mér finnst það ekkert aðalatriði, heldur hitt að nú liggur loks fyrir að þetta hafi verið gert. 

Ómar Ragnarsson, 16.11.2016 kl. 00:43

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér finnst líka, að úr því að verið er að fikra sig áfram með "íbúalýðræði" varðandi ýmis miklu minni mál í hverfum borgarinnar, megi líka bera spurningar um svona efni undir íbúa.

T.d. "Hvort vilt þú að malbikslag á götum borgarinnar sé haft nógu þykkt til að hámarksending fáist -  eða -  að hafa það þynnra til þess að spara efniskostnað þegar það er lagt?"

Með svona spurningu mættu fylgja nauðsynlegustu upplýsingar um kosti og galla.  

Ómar Ragnarsson, 16.11.2016 kl. 00:48

7 identicon

Hvað var búið að spyrja oft um þessi malbikunarmál í Reykjavík  ?

Við vorum bara asnar sem vissum ekkert var svarið  !

Til hvers er verið að ráða fólk með mikla menntun þegar hún er aldrei notuð hjá opinberum fyrirtækjum  ?

Jón (IP-tala skráð) 16.11.2016 kl. 11:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband