20.11.2016 | 11:28
Að vera í honum innst sem yst...
Íslenska ullarpeysan á mikið lof skilið. Ég reyni ævinlega að haga því svo til, hvar sem ég er á ferðum, að að minnsta kosti ein, helst tvær eða þrjár, séu með í för.
Aðalpeysuna prónaði Ninna dóttir mín á mig, og er hún með mynstri, sem táknar íslenska náttúru, en raðir af myndum sem geta táknað jafnt fugla sem flugvélar, mynda hringi um peysuna.
Ég kalla hana stundum Gálgahraunspeysuna, því að þar var hún ómissandi þegar staðin var vaktin á hrollköldum októbermorgnum.
Þegar farinn var hringurinn á léttu vespu-vélhjóli síðsumars á rúmum sólarhring, varð býsna svalt síðla nætur og snemmmorguns á Fjarðaleiðinni eystra í mótvindi, þokusúld og rigningu.
Í þessari ferð kom peysan góða smám saman til skjalanna ásamt mun þynnri ullarbolum hið innra og að lokum varð niðurstaðan sú, að mestur árangur fékks með því að vera í ullinni bæði innst og yst.
Þetta kemur upp í hugann þegar rjúpnaskytta, sem hefur verið týnd síðan í fyrrakvöld, fannst í morgun heil á húfi.
Mörg hefur skyttan gaddinn gist,
í góðum lopa og argað,
verið í honum innst sem yst
og alveg úr villu sér bjargað.
Lífsbjörg í lopanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ekki má nú gleyma "föðurlandinu".
Hörður Þ0rmar (IP-tala skráð) 20.11.2016 kl. 13:11
Skemmtileg þjóðleg íhaldssemi hjá Ómari, svona í stíl Jóns Bjarnasonar. Íslenska ullin hefur góða eginleika og bjargaði vissulega mannslífum hér áður fyrr. En textiles úr gerfiefnum (synthetic materials) eða blanda af þeim og bómull hafa miklu betri eiginleika, enda það sem fólk notar í dag við extreme aðstæður. Hér hefur efnafræðin (chemistry) sem víðar unnið mikið afrek. En þetta virðist fólk ekki vita eða átta sig á.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 20.11.2016 kl. 13:30
Ég er ekki eingöngu í ullinni, heldur nota líka fatnað úr þeim gerviefnum sem best eru og ég varð að nota á ferð yfir Grænlandsjökul 1999, þegar gist var í tjöldum í 3000 metra hæð og meira en 30 stiga frosti.
Ómar Ragnarsson, 20.11.2016 kl. 13:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.