Óheppinn. Leifur hefur fengið samkeppni

Á einum af blaðamannafundum Mitterands Frakklandsforseta varpaði einn blaðamaðurinn fram óvæntri og viðkvæmri spurningu: "Er það rétt, herra forseti, að þú hafir átt hjákonu?"

"Já," svaraði Mitterand. "Næsta spurning."

Málið dautt og spurt um önnur mál í framhaldinu.

Í Panamaskjölunum svonefndu kom í ljós að ýmsir þjóðarleiðtogar áttu hlut að aflandsfélögum í landi, sem grunur hefur leikið á að sé svonefnt skattaskjól fyrir ýmsa. 

Kurr varð í Bretlandi þegar í ljós kom að David Cameron forsætisráðherra Bretlands ætti tengsl við aflandsfélag, en hann "tók Mitterand á málið", þrætti ekki fyrir neitt heldur gerði strax grein fyrir sínu máli, en sat raunar ekki lengi eftir það í sæti forsætisráðherra vegna úrslita í þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit.

Íslenski forsætisráðherrann var hins vegar svo óheppinn að þræta í fyrstu fyrir tengsl sín í stað þess að "taka Mitterand á" spurninguna þegar það hefði verið heppilegast, eftir á að hyggja. 

Óheppnin byggðist einnig á því að í ljós kom að hann hafði verið beggja vegna borðsins í samningum íslenskra yfirvalda við erlenda kröfuhafa.

Enn var hann óheppinn þegar fólk tók upp á því að safnast saman á Austurvelli vegna málsins. 

Óheppnin hélt áfram að elta hann. 

Hann varð svo óheppinn að hafa ekki samráð við eigin þingflokk eða þingflokk samstarfsflokksins þegar hann fór á fund forseta Íslands á Bessastöðum til að fá hjá honum heimild til þingrofs, og í ofanálag varð hann svo óheppinn að forsetinn synjaði honum um heimildina.

Síðan hefur verið fjallað um það að hann hafi verið svo óheppinn, að fjölmiðlar fylgdust með atburðarásinni.

Eftir fimm mánaða ráðrúm til þess vinna úr málinu varð hann síðan svo óheppinn að hefja kosningaumræður í Sjónvarpssal á því að fullyrða að fráleitt hefði verið alla tíð að gruna Tortóla um að vera notað sem skattaskjól fyrir nokkurn mann, og sagði jafnframt að umfjöllun um mál hans hefði verið tilefnislaus.

Í kjölfarið varð hann svo óheppinn að tapa formannskosningu á landsfundi flokks síns og einnig svo óheppinn, að fólki sást hleypt út úr rútu við fundarstaðinn og að meðal fundargesta hefði verið einstaklingar sem hann kannaðist ekki við.

Í framhjáhlaupi má kannski bæta þeirri óheppni við að hafa annað hvort ekki vitað um máltækið "hver er sinnar gæfu smiður" eða að hafa ekki tekið neitt mark á því. 

Þetta hefur verið einstök óheppni og er ljóst að Leifur óheppni hans Ladda hefur fengið skæðan keppinaut. 

Fleiri hafa raunar verið óheppnir sem hafa lent í slagtogi með hinum óheppna í öðrum málum og orðið óheppnir með honum þegar þessi mál þokast nú til hliðar.

Sá sem þetta ritar var meðal annars hrifinn af þeim hugmyndum um húsafriðun, skipulag miðborga og staðsetningu þjóðarsjúkrahúsa sem komu fram hjá forsætisráðherranum fyrrverandi. 


mbl.is „Ógæfa“ Sigmundar efst á blaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gleymum svo ekki að hann lofaði að teknar yrðu 300 milljónir (seinna bætti hann í og talaði um 400 millj.) af kröfuhöfum bankana og varið til þess að lækka verðtryggð lán almennings. Efndirnar voru þær, að völdum flokksgæðingum var úthlutað 80 milljónum sem komu beint úr ríkissjóð - þ.e. af skattfé almennings. Óheppni?

Berfætlingur (IP-tala skráð) 21.12.2016 kl. 16:04

2 identicon

Hefur ekkert með óheppni að gera, nema þá óheppni þjóðarinnar. Þið beinið of mikilli athygli að Sigmundi Davíð, ómenntað og vitgrannt dekurbarn, sem varð flokksformaður og síðan forsætisráðherra vegna innherja viðskipta daddy‘s. Ísland ætti að skammast sín fyrir kauðann.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 21.12.2016 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband