Þarf sterk bein til að þola góða daga.

Í gærkvöldi átti ég leið um hringtorgið á mótum Njarðargötu og Sóleyjargötu. Á meðan ég kom að torginu eftir Njarðargötu, ók kringum torgið og hélt áfram norður Sóleyjargötu, áttu fjórar rútur, fullar ef erlendum ferðamönnum leið á sama tíma í kringum torgið, og voru rúturnar hver frá sínu rútufyrirtæki. 

Þetta hefði verið óhugsandi á þessum árstíma fyrir aðeins tveimur árum en er dæmi um ferðamannabylgjuna sem skellur nú á landinu allan ársins hring og fer svo hratt vaxandi, að það er farið að vekja ugg ekki síður en ánægju.

Sagt er að það þurfi sterk bein til að þola góða daga og hinn mikli hagvöxtur hér á landi, sem er fyrst og fremst tilkominn vegna ferðamannasprengjunnar, getur endað með bakslagi, samanber máltækið enska: "What goes up must come down." 

Á ýmsum svæðum í Bandaríkjunum, þar sem mikil ásókn er í ferðir um víðerni og viðkvæm náttúruverndarsvæði, hefur fyrir löngu verið sett á ítala, það er, aðeins er leyft að ákveðinn fjöldi ferðamanna sé á svæðinu á hverjum tíma. 

Biðlistarnir geta verið mismunandi langir, stundum jafnvel fjöldi ár. 

Með þessu vinnst fernt:  

1. Ferðafólkinu er tryggð upplifunin af friði og töfrum ósnortinnar náttúru.

2. Ferðafólkið verður meðvitað um verðmæti svæðanna þannig að eftirspurn myndast eftir því að fá að sjá þau.

3. Þessi eftirspurn er svo mikil, að fólki finnst tilvinnandi að bíða í tilhlökkun eftir því að komast að. 

4. Í stað þess að hrúga sem flestum óskipulega inn á svæðin er umferðinni dreift á lengri tíma og með því stuðlað að jafnari vexti, verndun svæðanna og minnkuð hættan á bakslagi.

Hér á landi er rík tilhneiging til þess að andæfa hugmyndum um "afskiptasemi" varðandi ferðamál.

Svo rík er krafan um að "...á Íslandi við getum verið kóngar allir hreint.." að menn taka sér í munn orðin "auðmýking og niðurlæging" þegar rætt er um að við reynum að draga lærdóm af 140 ára reynslu annarra þjóða í þessu efni.     


mbl.is Ísland á lista yfir lönd ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í fyrsta lagi dvelja ekki mjög margir erlendir ferðamenn hér á Íslandi.

Hins vegar eru þeir margir miðað við þann fjölda erlendra ferðamanna sem dvöldu hérlendis fyrir til að mynda áratug.

Erlendir ferðamenn dreifast ágætlega um landið og mun betur en fyrir áratug, enda mun fleiri, ný hótel eru um allt land og ferðaþjónusta í öllum sveitum, þorpum og bæjum landsins.

Og ekki er hægt að takmarka hér fjölda erlendra ferðamanna sem ferðast hingað frá öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu og vilja dvelja hér á Íslandi.

Hins vegar væri hægt að takmarka þann fjölda manna, íslenskra og erlendra, sem vilja heimsækja ákveðin svæði hérlendis en þá væri óleyfilegt að mismuna þar Íslendingum og erlendum ferðamönnum frá Evrópska efnahagssvæðinu.

Þar að auki þyrfti gríðarlegan fjölda landvarða til að fylgjast vel með því að einungis þeir sem hefðu fengið til þess sérstakt leyfi gætu heimsótt hér ákveðin svæði hverju sinni.

Hér fylgjast örfáir landverðir einungis á sumrin með umferð íslenskra og erlendra ferðamanna í gríðarstórum þjóðlendum og þyrftu að vera margfalt fleiri án nokkurrar ítölu.

Og þjóðlendurnar eru margfalt stærri en nauðsynlegt er til að ferðamenn geti verið á stórum svæðum þar sem engir aðrir eru, til að mynda í óbyggðum afdölum.

Þorsteinn Briem, 24.12.2016 kl. 00:33

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Yfirleitt er ekki hægt að banna útlendingum að dvelja hér á Íslandi eða Íslendingum að veita þeim hér þjónustu samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, meðal annars um frjálsa för fólks og frjáls þjónustuviðskipti á svæðinu.

Og Kínverjar sem komnir eru inn á Evrópska efnahagssvæðið, til dæmis til Noregs, geta að sjálfsögðu flogið þaðan hingað til Íslands.

Hins vegar er hægt að meina glæpamönnum sem búa á Evrópska efnahagssvæðinu landgöngu hérlendis.

Þorsteinn Briem, 24.12.2016 kl. 00:35

3 identicon

Hér á landi er rík tilhneiging til þess að andæfa hugmyndum um að hefta ferðafrelsi almennings. Því hér hefur ferðafrelsið verið æðra eignarréttinum í gegnum aldirnar. Í Bandaríkjunum er eignarrétturinn æðstur og eigandi jarðar nær alráður á sinni jörð.

þegar rætt er um að við reynum að draga lærdóm af 140 ára reynslu annarra þjóða þýðir lítið að ætla að selja Íslenskum almenningi Bandaríska módelið.

TRESPASSERS WILL BE SHOT SURVIVORS WILL BE SHOT AGAIN Warning Sign security

Hábeinn (IP-tala skráð) 24.12.2016 kl. 00:35

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland er eitt strjálbýlasta land í heimi og er þar í 237. sæti:

Röð landa eftir þéttleika byggðar

Hér á Íslandi dvöldu um 1,3 milljónir erlendra ferðamanna í fyrra, 2015.

Hver erlendur ferðamaður dvelur hér á Íslandi í eina viku og því voru hér að meðaltali í fyrra um 25 þúsund erlendir ferðamenn á degi hverjum allt árið á öllu landinu.

Um níu af hverjum tíu Íslendingum ferðast hér innanlands á ári hverju og gista að meðaltali tvær vikur á þessum ferðalögum.

Að meðaltali eru því um ellefu þúsund Íslendingar á ferðalögum hér innanlands á degi hverjum, þannig að erlendir ferðamenn eru hér einungis um tvisvar sinnum fleiri en þeir íslensku.

Þorsteinn Briem, 24.12.2016 kl. 00:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband