Árleg viðbót sem samsvarar öllu árinu 2011.

Fjölgun ferðamanna 2016 frá árinu áður er svipuð tala og tala allra ferðamanna sem komu árið 2011 þegar fjölgun ferðamanna var komin á skrið ári eftir Eyjafjallajökulsgosið. 

Þetta þýðir að á síðasta ári hefði þurft að stækka allt það sem tilheyrir ferðamennskunni sem svarar öllu því sem til var 2011, hótelherbergjum, rútum, bílaleigubílum o. s. frv. 

Sem betur fer er þetta samt ekki alveg svona svakalegt, því að dreifingin á milli árstíða varð betri en áður, þannig að fjölgunin kom mest á þá hluta ársins þegar færri komu til landsins en á sumrin. 

Í febrúar 2005 fór ég í ferðalag til Lapplands í Norður-Svíþjóð og Norður-Finnlandi til að sjá hvernig stæði á því að jafn margir ferðamenn komu þá til þessara köldu og dimmu slóða á veturna og allt árið á Íslandi.

Greindi frá því í sjónvarpsfrétt að þarna norður frá væru eftirtalin fjögur atriði seld: Kuldi, myrkur, þögn og ósnortin náttúra. 

Sem sagt nokkurn veginn það sem talið væri verst og lítilfjörlegast hjá okkur og mest til trafala. 

Viðbrögðin við fréttinni voru mest fólgin í vantrú og afsökunum eins og því að það væri svo langt til Íslands frá markhópunum í Evrópu.

Þetta var ekki á rökum reist eins og sést þegar litið er snöggt á landakort:  Það er lengra til Lapplands en til Íslands, einkum er styttra frá Bretlandseyjum, Frakklandi og Íberíuskaganum til Íslands auk þess sem Ísland getur verið áfangastaður á leiðinni vestur um haf, en Lappland augsjáanlega ekki áfangastaður í neina átt.

 

Eitt helsta viðfangsefni okkar er augsjáanlega að gera mikið átak í styrkingu innviða og skipulagningu ferðaþjónustunnar.

Sumir telja þegar komið fram yfir þann fjölda sem landið ráði við.

Þetta stenst ekki þegar skoðuð eru sambærileg svæði erlendis.

Yellowstone þjóðgarðurinn fær þrjár milljónir ferðamanna árlega, og nær allir þessir ferðamenn koma bara yfir sumarið.

Þjóðgarðurinn er 9000 ferkílómetrar eða ellefu sinnum minni en Ísland.

Vel er fyrir öllu séð í Yellowstone, ferðafólkið kaupir passa við innganginn með áletruninni "Proud partner", stoltur þátttakandi í að vernda náttúruna og styrkja innviði garðsins.

1600 kílómetrar af göngustígum eru í þjóðgarðinum og ítölu er beitt til þess að tryggja upplifun ferðafólks.

140 ára reynsla liggur að baki þessu, en hér á landi kölluðu menn þetta "auðmýkingu" og "niðurlægingu."   


mbl.is Ekkert lát á fjölgun ferðamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband