"Hjólaárið" 2015 það grænasta til þessa, minnst 200 þús kr. árssparnaður.

Með bestu áramótakveðjum er siglt inn í nýtt ár þar sem eiga við orð skáldsins, að eilífðin er búin til úr óteljandi augnablikum. Og hvert augnablik er það eina sem við höfum í hendi hverju sinni.Náttfari við Engimýri

Þegar leið að áramótum í byrjun ársins 2015 pældi ég í grænum áramótaheitum til að fylgja eftir grænum ferli rafreiðhjólsins Náttfara og verkefnum í sambandi við það, auk nýrra áskorana.

En fyrir einu ári leit svo sem ekkert svo vel út með það að standa við græn áramótaheit sem spöruðu peninga og flyttu skilaboð. 

Ég hlaut slæma byltu og kom illa niður eftir fall ofan af leiksviði á litlu jólunum á Sólheimum í desember og hægri öxlin lemstraðist og brotnaði. Léttir við Freysnes

Ég var með höndina í fatla um áramótin og fyrir "rétthendan" mann er afleitt þegar hægri höndin er gagnslaus. Ráðlegg rétthendum að brjóta sig frekar vinstra megin ef þeir á annað borð lenda í beinbrotsslysi. 

Þetta riðlaði öllum fyrirætlunum mínum og aðal verkefnið frestaðist endanlega um ár eftir að bíl var ekið á mig í apríl á rafreiðhjólinu svo að sexfalt meiri lemstrun hlaust af en við axlarbrotið og ökklabrot bættist við auk blóðugra meiðsla innvortis og útvortis á báðum ökklum, báðum hnjám, hægri olnboga og hægri öxl, já aftur á hægri öxlinni!Léttir%2c ská aftan frá

Enda þótt ég væri ekki tilbúinn í slaginn vegna meiðslanna varðandi áframhald grænu byltingarinnar fyrr en seinni partinn í ágúst tókst að nýta seinni part ársins til þess að geirnegla "hjólabyltinguna" sem ég hef áður lýst hér á síðunni, að færa 80% af ferðum mínum af bílum yfir á tvö hjól, rafreiðhjól og vespuvélhjóliið Létti (Honda PCX 125) og minnka með því persónulegt kolefnisspor mitt um að minnsta kosti 60%.

Þetta er mesta lífsstílsbreytingin hjá mér í 56 ár. 

Meiðslin í apríl sannfærðu mig um að lokaður hlífðarhjálmur er ómissandi öryggistæki á öllum hjólum, líka reiðhjólum, auk þægindanna varðandi það að verða aldrei kalt neins staðar á höfðinu.

Það er alveg eins hægt að lenda í því að bíll aki á mann á reiðhjóli eins og á vélhjóli og góður hjálmur og vélhjólastígvél eru mikilvæg, já raunar lágmark. 

Fatnaður með varnir á hnjám og olnbogum verða um sinn á óskalista. 

Ég hefði ekki ökklabrotnað í umferðarslysinu ef ég hefði verið í vélhjólaklossum og mátti þakka fyrir að hinn létti reiðhjólahjálmur brotnaði ekki við það að ég braut framrúðuna á bílnum með höfðinu.  

Eftir samræmda notkun hjólanna tveggja frá júlílokum til dagsins í dag hefur eldsneytiskostnaðurinn minnkað um 70 þúsund krónur þessa rúmu fimm mánuði frá því sem annars hefði verið, og framundan er stórminnkaður annar kostnaður varðandi viðhald og afskriftir.

Á þessu ári ætti að vera mögulegt að spara minnst 200 þúsund krónur í heild miðað við hlaupandi kostnað, en mun meira ef allt er reiknað með.

Bæði hjólin eru nú á vetrardekkjum og það er aðeins í stormi, yfir 20 m/sek, eða þegar ég þarf að flytja einhvern varning, sem ég nota bíl konu minnar, sem var reyndar ódýrasti, einfaldasti og sparneytnasti bíllinn á markaðnum þegar hún keypti hann fyrir tveimur árum.  


mbl.is Græn áramótaheit sem spara peninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mikið Ómars þrek og þor,
þýtur um sem vindur,
kolefnis nú karlsins spor,
í konu sinni bindur.

Þorsteinn Briem, 7.1.2017 kl. 00:30

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar spurt er hvort sparnaðurinn hafi verið nokkur af notkun hjólanna vegna þess að hjólaslysið í apríl hafi étið hann upp og vel það þarf að huga að eðli þessa slyss og orsök þess.  

Þetta var að hálfu leyti bílslys, árekstur bíls og reiðhjóls, og varð vegna þess að bílstjórinn blindaðist af lágri kvöldsól, sem skein framan í hann á versta hugsanlegu augnabliki, svo að hann ók á mig þar sem ég var á leið á móti grænu ljósi á gangbraut. 

Samsvarandi slys hefði alveg eins getað orðið vegna þess að bílstjóri sem blindaðist af lágri sól, æki inn í vinstri hliðina á bíl sem ég hefði ekið og verið í forgangi. 

Ekki hefði ég viljað skipta á ökklabrotinu og mjaðmarbroti/sköddun vinstra megin á höfði.

Ómar Ragnarsson, 7.1.2017 kl. 00:33

3 identicon

Já en Ómar...þú hefðir sparað mest með því að fara bara alls ekki neitt!! laughing

það sem þú ert að bera saman er kostnaðurinn við að fara í bíltúr annarsvegar og hjólatúr hinsvegar. Það er svona einsog að bera saman hvað maður sparar með því að éta epli í staðinn fyrir að éta appelsínu! Þú skilur hvað ég er að fara...epli!!...appelsínur!!

Ef þú ert að bera saman kosnaðinn við að ferðast frá A til B, t.d. Reykjavík og Akureyri...þá blasir svolítið önnur mynd við því þá þarftu að kostnaðarmeta þann tíma sem mismunandi ferðamátar taka. Og þá skiptir t.d. miklu máli að fleiri geta deilt með sér kostnaðinum af ökuferðinni...en það er alltaf einn sem ber kostnaðinn af hjólatúrnum.

Menn voru t.d. fljótir að benda á að kostnaðurinn af vespuferðinni kringum landið var ekkert sérstaklega lágur borinn saman eyðslugrennstu bíla. Og það geta t.d. 2-4 setið í bílnum en aðeins 1 á vespurinn.

En "keep up the good work"!! Fljótlega ferðumst við hvort sem er öll á faratækjum knúnum rafmagni!!

Magnús (IP-tala skráð) 7.1.2017 kl. 09:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband