Of mikil breyting.

Það vill svo til að ég færði dagbækur á tímabili á bernsku- og unglingsárum. 

Meðan þessar færslur stóðu yfir voru þær ansi nákvæmar. Greint var frá því hvað étið var, helstu fréttum dagsins og veðri, og veðurspánni meira að segja gefin einkunn. 

Og síðast en ekki síst var greint frá athöfnum, svo sem útiveru og leikjum. 

Þetta var á sjötta áratugnum áður en sjónvarpið kom til sögunnar. 

Glögglega sést að það var alltaf nóg við að vera, þótt engar væru tölvurnar, snjallsímarnir né sjónvarp. 

Einnig sést að krakkahópurinn í götunni og í skólanum lék sér við svokallaða "barnaleiki" allt fram til sextán ára aldurs. 

Þegar komið var á þann aldur voru leikir eins og að verpa eggjum, parís, stórfiskaleikur og fallin spýtan að þróast upp í hörku íþróttakeppni, auk þess sem gatan var stundum knattspyrnuvöllur. 

París gat orðið býsna langur með heilmiklum langstökkum og gatan var stundum í það mjósta fyrir það að verpa eggjum, vegna þess hvað við köstuðum langt. 

Það voru ekki efni á því fyrir almúgann að kaupa rándýra íþróttatíma fyrir börnin, því að hreyfingin við útileikina nægði. 

Epli, kornfleks, cheerios voru óþekkt, nema þá eplin um jólin. Það liðu áratugir þar til orðið pizza varð þekkt, hvað þá fæðutegundin sjálf.  Hafragrautur, skyrhræringur og fiskur voru daglegt brauð. 

Fram að tíu ára aldri var enginn sími á bernskuheimilinu. Enginn ísskápur fyrr en ég varð fimmtán ára. 

Á sumrin fórum við systkinin í sveit og þar var enginn hörgull á útivist og þroskandi störfum. 

Þetta var gjöfult líf með mikilli útiveru og beinum samskiptum við nágranna, vini og vandamenn, sem nú virðist að miklu leyti sinnt með smáskilaboðum og á samfélagsmiðlum. 

Nýjasta formið af örorku, sem nú er farið að tala um, jafnvel á æskuárum, sýnir að breytingin frá því sem áður var, er orðin of mikil. 

Við erum ekki sköpuð til að einblína á tölvuskjái, snjalltæki og sjónvarp daginn út og daginn inn.  

Hryggurinn var ekki skapaður til þess að við værum niðurlút tímunum saman við að horfa niður á snjalltækin. 

Það er ekki hægt og ekki hollt, hvorki líkamlega né andlega, að breyta erfðaeinkennum, sem hafa þróast í mörg þúsund ár. 


mbl.is „Þetta er nýtt form af örorku“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Árinni kennir illur ræðari.  Ætla læknar nú að fara að kenna tölvum um ofvirkni þeirra í greiningum og lyfjasölu?

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 14.1.2017 kl. 10:33

2 identicon

Læknirinn í myndinni um plastbarkann skammaði líka Júlíu þegar hún sagði að hún gæti ekki andað.  Árangurinn átti að byggjast á hennar viðmóti og hann sagði hennni að hætta þessu væli.  Plastbarkinn var vissulega of mikil breyting fyrir Júlíu en klúðrið var hennar.  Það er ekki hollt að hlusta á þessa lækna Ómar.  Það sem kemur út úr þeim er tóm steypa.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 14.1.2017 kl. 10:39

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Elín Sigurðardóttir hefur greinilega oft verið í læknisleik og veit því betur.

Þorsteinn Briem, 14.1.2017 kl. 10:59

4 identicon

Þeir sem horfa á myndina sjá að læknar leika sér með mannslíf.  Júlía hefði lifað í áratugi til viðbótar ef hún hefði ekki farið í þessa aðgerð.  Þeir gerðu grín að henni, niðurlægðu hana og drápu hana á einstaklega kvalafullan hátt.  Þeir virðast líka ætla að komast upp með það - líklega vegna þess að þeir eru svo óskaplega mikið menntaðir.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 14.1.2017 kl. 11:30

5 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

KÚMEN!!....á eftir efninu.

Ragna Birgisdóttir, 14.1.2017 kl. 13:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband