Sum þessara mála eru undarleg.

Um áratuga skeið hefur það gerst hér á landi, að ekki þarf annað en að útlendingar veifi seðlum framan í okkur og nefni töfraorðin "atvinnuuppbygging" og "orkufrekur iðnaðar," til þess að hlaupið sé upp til handa og fóta og allar dyr opnaðar. 

Fyrir tæpum áratug komu "ríkir rússneskir fjárfestar" til dæmis til sögunnar með "99,9% pottþétt tilboð" um að reisa risa olíuhreinsistöð í Hvestudal í Arnarfirði sem veita myndi 500 manns vinnu og "bjarga Vestfjörðum". 

Halndir voru fjöldafundir vestra, bæði á Ísafirði og í Vesturbyggð vegna málsins, vegna þess að lofað var tveimur hreinsistöðvum og fögnuður greip um sig.  

Í sjónvarpsviðtali við landeigandann í Vesturbyggð sagði hann frá því, að hann hefði verið með margar góðar hugmyndir um nýtingu jarðarinnar, en legði þær nú allar til hliðar og ætlaði að bíða eftir stóru, stóru lausninni. 

Hann bíður enn. 

Við skoðun málsins, meðal annars með ferð til Noregs, sást að svona ferlíki hafa ekki verið reist í okkar heimshluta í aldarfjórðung, af því að enginn vill hafa svona skrímsli hjá sér. 

Og hinn "öflugi fjárfestir" reyndist vera skúffufyrirtæki í Skotlandi með enga starfsemi né peningaveltu, og aldrei var leitt í ljós hver hinn raunverulegi eigandi væri. 

Mikið hefur verið gumað af fyrirtækinu Silicor Materials varðandi hina dásamlegu "atvinnuuppbyggingu" og algerlega nýja aðferð við stórkostlega umhverfisvæna framleiðslu.

Athugasemdir vegna ferils fyrirtækisins í Vesturheimi og spurningar um hina nýju, pottþéttu og mengunarlausu framleiðsluaðferð, hafa verið afgreiddar sem nöldur manna, sem séu "á móti rafmagni og atvinnuuppbyggingu og vilji fara aftur inn í torfkofana." 

Engin ástæða hefur verið talin til að efast um þessa áður ónotuðu framleiðsluaðferð og mikinn peningalegan styrk fjárfestisins til að nýta hreina og endurnýjanlega orku.

Svo sést allt í einu lítil frétt um að þessi tryggi bjargvættur geti ekki einu sinni "staðið skil á gjöldum vegna hafnarsamnings, lóðaleigusamnings og lóðagjaldasamnings um fyrirhugaða aðstöðu fyrirtækisins við Grundartanga í Hvalfirði."  

Svona nú, hvaða fréttaflutningur er þetta, svona öflugur og tryggur viðskiptavinur hlýtur að fara létt með að snara út svona smápeningum hið snarasta í stað þess að þurfa átta mánaða frest til þess? 

Úr því hann leikur sér að því að reisa stóra og dýra verksmiðju ætti þetta viðvik ekki að vefjast fyrir honum. 


mbl.is Silicor Materials fær lokafrest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki fyrir boru bót,
bónleiðir þeir ganga,
ekkert fá nú hætis hót,
hér á Grundartanga.

Þorsteinn Briem, 21.1.2017 kl. 09:22

2 identicon

Viæ þurfum ekki meira af þessu fabrikku bulli! En okkur vanntar rútubilstjóra, gæda ofl tengt ferðamnnabransan!! 

Óli (IP-tala skráð) 21.1.2017 kl. 12:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband