Sannlíki Trumps.

Sannleikur er ágætt orð sem hefur hreina merkingu. En nú er kominn fram annar sannleikur, sannleikur, sem hann er svo mikið hans eigin, að hann vílar ekki fyrir sér að segja að sólin hafi skinið á sig við embættistökuna þótt öll heimsbyggðin hafi séð að það rigndi allan tímann, þótt það væri ekki mikið. 

Trump segist hafa dregið að sér fleiri til að vera viðstadda athöfnina en nokkur annar forseti hafi gert, þótt myndir, sem teknar hafa verið af viðstöddum hjá Obama sýni annað. 

Í tengslum við þetta hefur verið notað orðið "alternate truth", sem þýða mætti að hluta með íslensku nýyrði, sannlíki, samanber smjörlíki og smjör. 

Trump segist hafa fengið meirihluta atkvæða í kosningunum þótt Hillary hafi fengið 2,9 milljónum fleiri atkvæði. Þau atkvæði hafi verið frá fólki sem ekki hefði átt að hafa atkvæðisrétt.

Trump segist ætla að láta Mexíkóa borga fyrir múrinn mikla með 20 prósenta tolli, sem verði settur á mexíkóskar vörur í Bandaríkjunum.  

En þessar vörur hafa selst í Bandaríkjunum, vegna þess að bandarískir neytendur hafa sparað sér peninga með því að kaupa þær og nú hafa hagfræðíngar reiknað það út að bandarískir neytendur muni borga fyrir múrinn þegar öll kurl koma til grafar.

Trump hefur alla ævi talið sig hafa sigrað í öllu sem hann hefur tekið sér fyrir hendur, hafa unnið málaferli sem hann tapaði og verið sigurvegari í gegnum gjaldþrot sín.

Hann segist hafa verið besti hafnarboltamaðurinn í New York þegar hann var ungur, þótt engin gögn hafi fundist um það.  

Trump talaði alla innsetningaræðu sína um það sem hann hefur talað um alla sína hunds- og kattartíð, um sig sjálfan, það sem hann ætlaði að gera og það sem hann hugsaði og gerði. 

Trump nálgast nú að vera að eigin dómi jafn upphafinn og goðum líkur og annar þjóðarleiðtogi á síðustu öld sem sagðist vera ofurmenni í hópi ofurmenna og réttvalinn af forsjóninni sem alráður leiðtogi í valdamesta embætti heims. 

Á síðustu dögum sínum sagði hann að þjóð sín og allir aðrir hefðu brugðist, en hann sjálfur hefði aldrei brugðist né haft rangt fyrir sér. 


mbl.is Myndi bitna á bandarískum neytendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Þetta minnir um margt á einn framsóknarmann sem gegndi starfi forsætisráðherra hér fyrir ekki löngu síðan. Siðblindan og dýrkun á eigin ágæti ásamt hroka og yfirgangi.

Ragna Birgisdóttir, 27.1.2017 kl. 17:20

2 identicon

Heimildum Þorsteins Sch. er greinilega ekki treystandi.

Hér eru farið í saumana á mannfjöldanum við innsetningarathöfn: Dónalds. https://www.theatlantic.com/photo/2017/01/all-of-this-space-was-full-a-photographic-fact-check/514253/

Hér er samanburðurinn við Obama sýndur:  https://www.theatlantic.com/politics/archive/2017/01/inauguration-crowd-size/514058/

Jón Erlingur Jónsson (IP-tala skráð) 28.1.2017 kl. 03:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband