20.3.2017 | 11:04
Guðrún Á. Símonar smyglaði klósettpappír.
Þegar ég var fenginn til þess að fara vestur til New York og skemmta þar á fullveldisfagnaði Íslendingafélagsins í desember 1963 var mér sagt að einn félagsmaður í Íslendingafélaginu væri góður píanóleikri og gæti leikið undir hjá mér.
Þegar vestur kom, kom í ljós að þetta var Guðrún Á. Símonar óperusöngkona, sem ég heimsótti þar sem hún bjó í Queens hverfinu og að hún gæti engan veginn leikið neitt á píanó fyrir mig.
Ég reyndi því að bjarga mér sjálfur eftir skástu getu með því að glamra eitthvað á lítinn skemmtara, sem fannst þarna, og taka undirleikinn fyrirfram upp á segulbandstæki, sem ég hafði meðferðis.
En heimsóknin til Guðrúnar varð eftirminnileg, því að hún var ekki bara fágætur skörungur og þrumukona, heldur afar fyndin og skemmtileg.
Meðal þess sem hún sagði mér frá var, að þegar hún fór í langa frægðarför til Sovétríkjanna 1957 að mig minnir, hefði henni verið ráðlagt fyrirfram að hafa helst auka tösku með sér og fylla hana af klósettpappír.
Hún var treg til að kosta fé til þessa en þegar hún kom síðan til Rússlands áttaði hún sig á því hvers vegna þetta reyndist nauðsynlegt, því að hún hefði aldrei getað ímyndað sér hve lélegur rússneski klósettpappírinn var.
Lýsing hennar á því var fáránlega fyndin en með þeim eindæmum að því miður er varla hægt að hafa hana eftir hér. Pappírinn var sums staðar svo lélegur og grófur að þegnar hins kommúniska ríkis voru ekki einasta neyddir til að gefa skít í hann, heldur jafnvel blóð.
Guðrún endaði síðan sögu sína með því að segja frá því, að vegna þess hve hún var heppin með meltingu sína í ferðinni hefði hún grætt heilmikið á því að selja afgangs klósettpappírinn sinn á svarta markaðnum sem var alla tíð eitt af einkennum Sovétríkjanna og í góðum gír í ferð okkar Helgu frá Rovaniemi í Finnlandi til Murmansk.
En niðurstaða Guðrúnar var einföld: Úr því að Sovétríkin geta ekki gert nothæfan klósettpappír með alla hina miklu skóga Rússlands til afnota, verður þeim ekki viðbjargandi.
Guðrún átti eftir að reynast sannspá. En nú er spurning hvort klósettpappírsvandræðin í Kína boða eitthvað svipað.
Eftirlit með klósettpappírnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Flott frásögn en Guðrún var uppáhalds söngkona mín á meðan Elvis var á fullu. Hún var æðisleg.
Valdimar Samúelsson, 20.3.2017 kl. 12:01
Ég get fullvissað þig um að kínverskur klósettpappír er engu síðri en sá vestræni. Her er jafnvel framleiddur slíkur pappír með myndum af Trump. Ég er búinn að koma víða í Kína og er hægt að fullyrð að ástand á salernum er víða bágborið. Salernin eru að ýmsum gerðum frá gati í gólfi, stórt úti salerni sem minni mikið á gömul íslensk fjós upp í það að vera háþróuð marmaraslegin vatnssalerni. Sumstaðar eru ekki nein klóset og þarf þá að hlaupa langar leiðir til að finna slíkt. Það getur verið frekar óþægilegt að fara óvart inn á kvenna salerni og opna hurð sem eru oft ekki ólæstar og fá öskur og óhljóð á móti sér og jafnvel langleiðina út á götu. Í stórborgum er orðið mikið það sama og við þekkjum í Evrópu. Eitt ber að hafa í huga, þú þarft alltaf að hafa pappír með þér í Kína. En pappír er ekki alltaf til staðar. Hægt að rita mun meira um þessi mál en læt þetta duga.
Kjartan Pétur Sigurðsson, 20.3.2017 kl. 12:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.