5.12.2017 | 00:29
Heitið Bráðadeild að verða öfugmæli.
Heitið Bráðadeild á að bera með sér að þar sé fengist við brýn og aðkallandi verkefni. Þegar síðast var umræða um deildina í Sjónvarpinu í hitteðfyrra fullyrti einn þátttakandinn í umræðuþætti að verið væri að setja upp "leikrit" þegar sýnt var fram á að boðlegt rými vantaði fyrir sjúklninga.
Fyrir skemmstu fékk ég óvænta og bráða blóðeitrun í annan fótinn og var sendur á Bráðadeild þar sem ljóst var að ég þyrfti spítalameðferð og innlögn að minnsta kosti til næsta dags með tilheyrandi dælingu sýklalyfs í æð.
Ég hef áður orðið vitni að gríðarlegu álagi á þessari deild, sem veldur því oft á tíðum, að starfsfólkið þar er í kapphlaupi heilu dagana við að hafa undan og sjúklingar þurfa að dvelja á göngunum.
Mér sárnaði við að heyra gert lítið úr þrotlausri baráttu starfsfólksins við að líkna sjúklingum við allt of þröngar og lélegar aðstæður og meira segja dróttað að leikaraskap af því tilefni.
16 klukkustunda meðal biðtími er auðvitað hróplega á skjön við heitið Bráðadeild og ekki er hægt að una við slíkt, hvorki starfsaðstöðu hins góða starfsfólks né aðstöðu sjúklinga.
Ef upp kemur slæmt hálkuástand á gangstéttum borgarinnar, að ekki sé talað um hópslys, er augljóst að á fyrirfram ofsetinni Bráðadeild geti myndast neyðarástand.
Það blasir meira að segja við utan frá á yfirfullu bílastæði við spítalann að hér verður að taka til hendi.
16 tíma bið á bráðadeild óviðunandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Kannski væri nær að kalla hana ,bráðumdeild'...
Matthías (IP-tala skráð) 5.12.2017 kl. 12:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.