5.12.2017 | 09:08
Kleyfhuga ( skizofreni) fíll í glervörubúð.
Í kosningabaráttu sinni í fyrra lagði Donald Trump mikla áherslu á það hve röng sú stefna Obama og Hillary Clinton og þar á undan George W. Bush hefði verið að efna með beinni eða óbeinni hernaðaraðstoð til styrjalda í Miðausturlöndum sem hefðu valdið slíku manntjóni og stórskaða, að öldur þess hefðu borist í dæmalausum flóttamannastraumi norður um alla Evrópu og auknum þrýstingi á innflutning frá þessum löndum til Bandaríkjanna.
Trump hafði að vísu mikið til síns máls varðandi borgarastríðin í Sýrlandi og Líbíu og innrásina í Írak 2003, en gekk að sínum gikkshætti svo langt að stimpla Hillary og Obama sem "stofnendur Íslamska ríksins."
En nú toppar hann sjálfur flest það sem áður sem Bandaríkjamenn hafa gert í þessum heimshluta með því að ryðjast eins og fíll inn í glervörubúð inn í málefni þjóðanna þar og viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og hleypa þar með öllu í bál og brand.
Þótt Gyðingar hafi, illu heilli, verið hraktir frá Jerúsalem fyrir tæplega 2000 árum, réttlætir það ekki ólöglegt hernám þeirra á borginni, sem er líka helgur staður múslima og kristinna manna.
Ísraelsmenn beita einnig svipuðum aðferðum og Rússar gerðu eftir að þeir hernámu Eystrasaltslöndin 1940 og Franco gerði í Katalóníu 1939, að flytja eins og verða mátti inn Rússa við Eystrasalt og Spánverja í Katalóníu í því skyni að "Rússavæða" Eystrasaltslönd og "Spánarvæða" Katalóníu, búa til æ stærri minnihluta, sem síðar yrðu að meirihluta.
Í Jerúsalem eru stofnaðar landnemabyggðir í trássi við alþjóðalög og beitt hörðum aðgerðum til þess að Gyðingar komist yfir eins margar fasteignir Araba og mögulegt er, til dæmis við uppgjör dánarbúa eða venjulegar sölur þessara fasteigna.
Ef 2000 ára gamlir viðburðir eiga að réttlæta innrásir gætum við Íslendingar jafnvel talið okkur eiga rétt á að ráðast inn á vesturstönd Noregs og heimta til baka þær landareignir allar, sem landnámsmenn Íslands flúðu frá undan ofríki Haraldar konungs hárfagra, og ná í tengslum við það yfirráðum yfir olíulindunum undan ströndinni.
Og gera þá sem nú búa í þessum strandhéruðum að undirokaðri hernundri þjóð.
Með því að gera Ísraelsmenn að herrum Jerúsalem í einu og öllu í viðbót við hálfrar aldar ólöglegt hernám ætlar Trump að haga sér eins og fíll í glervörubúð.
Og ef Palestínumenn reyna að rísa til varnar mun hættan stóraukast á þvi að í gang fari svipuð átök og áður hafa gerst í Intifada, þar sem hlutföll manndrápanna verða 2500 Palestínumenn á móti hverjum 50 Ísraelsmönnum.
Að ekki sé talað um þann jarðveg sem þetta ofbeldi mun valda fyrir hryðjuverkamenn og öfgahópa Múslima sem munu nærast á reiðinni, sem aukning brota á alþjóðalögum og ályktunum Sameinuðu þjóðanna mun valda.
Trump varaður við | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar.
Það gæti nú vafist fyrir flestum dauðlegum mönnum
hvor ykkar er fíllinn!
Húsari. (IP-tala skráð) 5.12.2017 kl. 10:07
Raunalegt er að sjá þig, ágæti Ómar, beygja þig fyrir krõfum herskárra múslima, sem aldrei hafa þó átt Jerúsalem að höfuðborg sinni. Sjá nýbirtan pistil minn hér:
Jerúsalem er höfuðborg Ísraels
Jón Valur Jensson, 5.12.2017 kl. 11:55
Það er nú talsverður munur á hernaðaraðgerðum og að flytja sendiráð í aðra byggingu. Ef Hillary væri núna í Hvíta húsinu þá væri örugglega bandaríkst herlið í Sýrlandi að reyna að kenna múslimum að elska USA
Grímur (IP-tala skráð) 5.12.2017 kl. 18:54
Ég skil bara ekkert í því að Írar skuli ekki löngu vera komnir hingað til að endurheimta landið sem akasakronikurnar og ýslendingabók segja þá hafa átt hér fyrir 1200 árum. Og í leiðinni að hrekja þennan andskotans landshornalýð sem hér hrírist við þraungan kost norður á Langanes og girða þá þar af.
Ekki eiga þeir minni rétt til þess en innrásarþjóðin, studd af brennandi samviskubiti sigurvegaranna,í palestínu frá því í stríðslok.
Þorvaldur Sigurdsson (IP-tala skráð) 5.12.2017 kl. 19:21
Gyðingar hafa alla tíð búið í Palestínu og reyndar um öll Miðausturlönd. T.d. var fjölmenn gyðinganýlenda í Alexandríu, allt frá stofnun borgarinnar og fram á miðja 20. öld.
Samkv. gamalli landafræðibók sem ég á, þá voru íbúar Jerúsalem 63 þús. um 1920. Skiptist borgin í fjögur hverfi þar sem bjuggu "gyðingar, múslimar, kristnir menn og Armenar".
Eftir stríðið 1948, þá hrökluðust allir gyðingar burt af arabísku yfirráðasvæði, þ. á m. gamla borgarhlutanum í Jerúsalem.
Í sex daga stríðinu, þá hvöttu Ísraelsmenn Hussein konung Jórdaníu eindregið til þes að sitja hjá og lofuðu að láta hann óáreittan. Hann sinnti því ekki og réðst inn í Vestur Jerúsalem með alþekktum afleiðingum.
Hvers vegna? Kannski hefur hann hlustað á fréttir frá Kairó um "stórkostlega sigra" egypska hersins yfir þeim ísraelska og ekki viljað sitja hjá þegar "kökunni" yrði skipt.
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 5.12.2017 kl. 20:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.