Aldrei réttlætanlegt. Kistan á Nesveginum.

Fáir hafa lýst reiðinni og fylgifiskum hennar betur en Jón Vídalín biskup á sínum tíma. 

Þegar fylgifiskar hennar fara út yfir mörk hins réttlætanlega eiga að vera til úrræði í siðuðu samfélagi til þess að koma í veg fyrir að það valdi skaða hjá saklausu fólki.

Það er til marks um að reiðin sem braust út í Búsáhaldabyltingunni og eimdi eftir áfram var komin út fyrir lögleg, skynsamleg og siðleg takmörk þegar mótmælendurnir sjálfir neyddust til þess að verja íslensku lögregluna fyrir hamslausum árásum þeirra tiltölulega fáu, sem settu blett á þessa merkilegu "byltingu" með því að stefna lífi og limum lögreglu í hættu og brenna meira að segja gjafajólatré Norðmanna, tákn hátíðar friðar og kærleika. 

Að sönnu bitnaði Hrunið, sem var af mannavöldum, á þúsundum saklausra borgara á öllum aldri og að því leyti var reiði margra skiljanleg og finna einhvern til að skeyta skapi sínu á. 

Hana var hægt að láta í ljós með hefðbundnum mótmælaaðgerðum, sem geta verið býsna áhrifamiklar, eins og kom í ljós á aprílfundinum stóra á Austurvelli í fyrra. 

Og í slíkum aðgerðum hef ég tekið þátt ásamt tugþúsundum annarra. 

Í einstaka tilfellum var mótmælt við vinnustaði þeirra sem reiðin beindist gegn, og var það skiljanlegt. 

En það var ekki, er ekki og verður aldrei réttlætanlegt að ráðast að heimilum þeirra, sem reitt fólk telur sig eiga sökótt við, því að venjulega er það aðeins gegn gerðum eins af fjölskyldunni, sem reiðin beinist gegn, en ekki að gerðum barna eða annarra saklausra í fjölskyldunni, sem eiga einskis að gjalda.  

Frá upphafi þessara mörgu heimilismótmælaaðgerða hér um árið hef ég undrast að svona fyrirbæri skuli vera til hér á landi og lét það strax í ljós hér á bloggsíðunni. 

En það vekur líka undrun að eftir að rykið á að vera löngu sest, skuli enn finnast menn þeirra á maðal, sem ollu saklausu fólki angist og miklum ótta, ekki sjá neitt athugavert við aðför og umsátri um heimili fólks, jafnvel svo mörgum dögum skipti.

Nokkrir hafa þó beðist afsökunar og séð aðgerðirnar í nýju ljósi og mega eiga heiður fyrir það. 

Ég skal nefna dæmi úr eigin reynslubanka sem útskýrir að hluta hvað ég á við um afleiðingar mikils ótta og skelfingar. 

Þegar ég var á fjórða ári kom ég eitt sinn með föður mínum inn á verkstræði vestast við Nesveginn. 

Ég var það ungur, að ég man ekkert eftir atvikinu, sem þarna gerðist, en man þó eftir því þegar við gengum þarna inn. 

Svipað á við um árekstur bíls sem ég var í með foreldrum mínum ári fyrr; ´- ég man eftir ferðinni rétt áður en áreksturinn varð og einnig eftir broti úr ferðinni heim, en ekkert eftir árekstrinum sjálfur. 

En faðir minn sagði mér löngu síðar frá því að á verkstæðinu hefði ég farið af forvitni barnsins að kíkja ofan í opna kistu sem stóð á gólfi verkstæðisins. 

Sjálfur stóð hann álengdar á tali við mann. 

Skipti þá engum togum, að smiður sem þarna var, tók mig upp, tróð mér með valdi ofan í kistuna og skellti henni í lás, og átti þetta líklega að vera sakleysislegur smá hrekkur.  

Faðir minn sagðist aldrei hafa orðið vitni að öðrum eins skelfingar- og hræðsluópum barns og heyrðust upp úr lokaðri kistunni og þau héldu áfram eftir að hann hafði komið hlaupandi og bjargað mér upp úr kistunni.

Nú liðu rúmlega tvö ár, og þá fór ég að fá hroðalegar martraðir í svefni. Þær voru allar eins: Ég lá í rúminu og varð þá var við að dimmt loftið og veggirnir voru að hrynja rólega niður og í átt að mér úr öllum áttum. 

Ég vaknaði við það trylltur af hræðslu að ég var að kafna og var frávita af ótta. 

Eftir að þetta hafði endurtekið sig einu sinni var ég orðinn dauðhræddur við það að sofna og lá oft andvaka óttasleginn. 

Þegar þetta hafði gerst nokkrum sinnum, vaknaði pabbi loksins við þetta og það var ógléymanleg stund þegar hann tók mig í fang sér og sefaði mig og huggaði nógu lengi til þess að ég gæti andað rólega og sofnað þegar hann strauk blíðlega votar kinnar mínar. 

Eftir að faðir minn hafði sýnt mér þessa umhyggju á úrslitastundu fékk ég aldrei svona slæmar martraðir aftur. 

En líklega voru martraðirnar eins konar úrvinnsla undirmeðvitundarinnar til að hreinsa atburðinn burtu, meðferð af svipuðum toga og áfallahjálp er á okkar tímum. 


mbl.is Fékk martraðir vegna „reiðu karlanna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband