Ýmislegt er villandi hjá bílaumboðum.

Úrskurður Neyteindastofu varðandi villandi auglýsingar á Kia-bílum er ekki eina dæmið um að rangt geti verið farið með hjá bílaumboðunum. 

Sumt er að vísu löglegt en vafasamt siðferðilega. 

Í útvarpi hef ég ítrekað heyrt fullyrt, að BMW i3 bjóði sé "léttasti rafbílinn á markaðnum." 

Ég er búinn að fletta BMW i3 upp í virtum alþjóðablöðum, þar sem birt er yfirlit yfir bílamarkað á þriðja þúsund bíla árið 2017. 

Þeim ber saman um að léttasti rafbíllinn á markaðnum hér sé Volkswagen i-Up! sem er sagður vera um 1200 kíló að þyngd. 

BMW i3 er þetta 70-100 kílóum þyngri. 

Þetta er bagaleg villa, því að Volkswagen e-Up! er líka ódýrastur rafbílanna. 

BMW-inn er nokkuð stærri en e-Up! og hvað tækni, búnað og verð má segja að hann sé kannski eðlisléttasti rafbíllinn á markaðnum eða þá léttasti bíllinn í sínum stærðarflokki, en þá verður að tiltaka það í auglýsingunni ef rétt á að vera með farið. 

Annað dæmi var nefnt hér fyrr á þessu ári með tilvitnununum í þýska tímaritið Auto motor und sport og danska ritið Bil-revyen, en þeim bar saman um það að með notkun áls hefði tekist að létta nýjast Land Rover Discovery jeppann um allt að 300 kíló. 

En umboðið auglýsir áfram og stanslaus að léttingin sé 490 kíló, sem augljóslega getur ekki staðist, þvi að bíllinn var einfaldlega ekki svona svakalega þungur fyrir léttinguna, að léttari yfirbygging ein og sér skili svona miklu. 

Ég heimsótti umboðið og sölumenn féllust á ábendingu mína, en áfram er haldið að auglýsa á óbreyttan hátt. 

Stundum er farið óbeint rangt með. Þegar hringt er í Volkswagen-umboðið ber símsvararödd nafn bílsins fram sem "vólksvagen", en réttur framburður er "folkswagen", - v er borið fram sem f á þýsku. 

Að segja "vólksvagen" er álíka rangt og að segja "vord" í staðinn fyrir Ford. 

Það verður að gera þá kröfu til söluaðila að nafn vörunnar sé borið rétt fram. 

Ég hef ítrekað haft samband við umboðið út af þessu en ekkert hefur gerst árum saman. 

Jeppa-bullið er annað fyrirbæri, að kalla bíla, sem eru ekkert annað en fólksbílar, jeppa. 

Það nýjasta var blaðadómur um nýjan "sportjeppa" sem var meðal annars hælt fyrir að vera með alveg sérstaklega verklegan framenda og mikla hæð frá vegi. 

Hinn jeppa-verklegi framendi er reyndar með háu húddi en skagar líka einstaklega langt lágt og lárétt fram úr bílnum, líkari snjóýtutönn en utanvegavænum "jeppa"framenda.

En þessi jeppa-fjandsamlega skögun var mærð.  

Þessi "jeppi" mun ekki komast yfir marga lækjarfarvegi á íslenskum jeppaslóðum. 

Veghæðin mikla er 2 sm minni en var á gömlu Volkswagen Bjöllunni, og þegar sest er upp í þennan "jeppa" með farþega og farangur sígur bíllinn niður og verður þá með aðeins um 11-12 sentimetra veg"hæð",  nánast dregur kviðinn rétt ofan við götuna, svo að það er varla að það vatni undir hann. 

Og til að kóróna allt saman er ekki hægt að fá þennan svaka "jeppa" nema með framdrifi eingöngu!!

Ég hitti mann um daginn sem var alveg sértaklega ánægður með nýjan "jeppa" sem hann hafði keypt. 

Þegar ég benti honum á að það væri ekki hægt að fá þennan flotta "jeppa" með fjórhjóladrifi, trúði hann mér ekki. 

Ég sagði honum að gá að driföxlunum að aftan á bílnum. 

Það kom hik á hann, en síðan brosti hann breitt og sagði: "Það skiptir engu máli fyrir mig hvort hann er með fjórhjóladrifi eða ekki,, því það eru allir svo hrifnir af honum af því að hann er svo jeppalegur, og þeir halda að hann sé með fjórhjóladrifi. Það nægir mér." 

 


mbl.is Askja fagnar ákvörðun Neytendastofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Flott samantekt hjá þér Ómar og hverju orði sannara. Sérstaklega tilvitnunin í svar "jeppa" eigandans.

Við þetta má bæta að Brimborg auglýsir nú kröftugan og framúrstefnu jeppa, XC60 T8, tengitvinnbíl. Þeir segja ekki frá því að annar drifásinn er knúinn rafmagni og hinn með sprengihreyfli, þannig að til að nýta fjórhjóladrif þarf bæði að vera nægt rafmagn á geymum sem og eldsneyti á tanknum.

Reyndar er hægt að fá þennan bíl með díselvél og kallast þá eingöngu XC60. Ekki gefa þeir upp eyðslutölur fyrir þessa bíla, en ljóst að T8 bíllinn eyðir verulega ef hann er ekinn mikið í fjórhjóladrifi, hef heyrt að díselbíllinn eyði þá mun minna.

En auðvitað skiptir þetta ekki máli fyrir þá sem kaupa sér jeppa til þess eins að sýnast. Þeir þurfa ekki fjórhjóladrif og þannig getur T8 bíllinn verið nokkuð léttur í rekstri, sérstaklega í innanbæjarsnatti og stuttum vegalengdum.

Gunnar Heiðarsson, 21.12.2017 kl. 01:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband