17.1.2018 | 18:52
Ein þjóð í tveimur ríkjum.
Þrátt fyrir skiptingu Kóreuskagans 1945 í tvö ríki, sem hefur staðið í alls 71 ár, er það í raun ein þjóð sem byggir skagann, þótt í tveimur mjög svo aðskildum ríkjum sé.
Við fall Berlínarmúrsins 1989 kom í ljós að þrátt fyrir að járntjald hefði legið í gegnum Þýskaland frá 1945 og hluti þess, Berlínarmúrinn frá 1961, bjó ein þýsk þjóð í Vestur-Þýskalandi og Austur-Þýskalandi.
Að vísu var ekki eins gríðarlegur munur á kjörum og þjóðlífi í þýsku ríkjunum og hefur verið í Kóreuríkjunum, og það var ekki tæknilega mögulegt eftir því sem tímar liðu, að loka íbúa Austur-Þýskalands eins mikið frá vitneskju um menningu og þjóðlíf fyrir vestan járntjaldið og ráðamönnum Norður-Kóreu hefur tekist að einangra land og þjóð sína frá nágrannaþjóðirnar.
Það sýnir þó viðurkenningu á sterkri sameiginlegri þjóðerniskennd Kóreubúa að þeir skuli koma fram undir sama fána og senda sameiginlegt lið til vetrarólympíuleikanna, sem hefjast í Pyeongchang í Suður-Kóreu 9. febrúar.
Þótt Austurríkismenn tali sama tungumál og Þjóðverjar, stóð sameining Austurríkis og Þýskalands ekki lengi, aðeins í sjö ár.
Hugmyndin um Stór-Þýskaland með Austurríki innanborðs hlaut andlát vorið 1945 og mun varla vakna á ný.
En aldrei skyldi útiloka sameiningu Kóreuríkjanna. Sameiginlegt lið þeirra á Ólympíuleikum sýnir þjóðernisstyrk sem Þjóðverjum tókst ekki að sýna meðan á skiptingu þess lands stóð.
1985 var ekkert sem benti til þess að skipting Evrópu með járntjaldinu yrði breytt.
Engan hefði grunað þá að aðeins fimm ár liðu þar til járntjaldið félli. En valdataka Gorbatsjofs í heimsveldi, sem var byrjað að molna og grotna niður innan frá, breytti öllu.
Sameiginlegt lið Kóreuríkjanna á ÓL | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.