25.1.2018 | 10:54
Brýnt að hafa íslenskan mælingabúnað tiltækan.
Í Grímsvatnagosinu 2011 tókst að halda flugvöllum við Faxaflóa opnum með notkun sáraeinfalds mælingabúnaðar í lítilli einshreyfils vél, en ef það hefði ekki verið gert, hefði tölva í London ráðið því að flugvellirnir hefðu verið lokaðir í á annan sólarhring.
Jónas Elíasson prófessor hannaði búnaðinn og lét smíða hann eftir samtöl við okkur Sverri Þóroddsson sem lagði til flugvélina, en við Þóroddur Sverrisson flugum vélinni á vaktaskiptum meðan tölvan í London þráaðist við.
Í fluginu með okkur voru tveir mælingamenn.
Allan tímann, sem flugvélin flaug var heiðskírt við allan Faxaflóa, meira en 120 kílómetrar.
En stjórnendur aðgerða vegna gossins í London, tóku vitnisburði um skyggni allt til Snæfellsjökuls ekki gilda, af því að þeir sem horfðu yfir flóann gátu ekki sent gögn á pappír um það!
Þeir voru sem sagt á svipuðu stigi og greint er frá í Íslandsklukku Halldórs Laxness: "Hefurðu bréf upp á það?"
Jónas hafði hins vegar útbúið mælingatæki sitt þannig, að tölurnar um mengun loftsins, sem flogið var í gegnum, birtust jafnóðum á pappírsstrimli, og farið var með gögnin upp í Flugturninn í Reykjavík svo að hægt var að láta London sjá það svart á hvítu, að í öllu fluginu kom aðeins fram mengun í nokkrar sekúndur.
Það var þegar flugvélinni var flogið í stafalogni í góðri hæð beint yfir Hellisheiðarvirkjun!
Jónas Elíasson fór síðar til Japans til að mæla öskumagn vegna lítils eldgoss þar og reyndist búnaðurinn vel.
Alþjóða flugmálastofnunin býr yfir staðli um það, hve mikið öskumagn þarf að vera í lofti til að ekki sé hægt að ábyrgjast að þotuhreyflar þoli það.
Mælingaflugið 2011 hófst á Selfossi, en þá var þar 5 kílómetra skyggni í öskumettuðu lofti.
Í ljós kom, að í slíku lofti var askan við þessi mörk, og er þessi mæling mikils virði, því að nokkuð auðvelt er að leggja mat á skyggni séð frá jörðu.
Svo skörp voru skilin á milli öskumettaðs lofts og hreins loft að loftið var öskumettað í Þorlákshöfn, en rofaði alveg til fyrir vestan Selvog.
Eldgos hefði víðtæk áhrif | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.