4.2.2018 | 06:50
Veðrið er alveg nógu gott mestallan veturinn.
Satt er það, að Ísland er að jafnaði einhver vindasamasti staður jarðar frá desember til marsloka.
En á milli lægða koma oft ágætir dagar með mildu veðri, eins og var í gær.
Í kvöld verða komnir meira en tveir sólarhringar með allt að átta stiga hita.
Þá er hrein hressing og unun fólgin í því að teyga hreint loft og fara ferða sinna á hjóli.
Og eftir þriggja ára reynslu af notkun tveggja ódýrra hjóla, rafreiðhjóls og léttrar Honda PCX "vespu" sem aðalfarartækja, hefur komið í ljós að það er hægt að láta þessa farkosti koma að notum í stað bíla allar vikur ársins ef rétt er að málum staðið, hafa góð vetrardekk og réttan klæðnað og öryggisatriði (lokaður hjálmur, vélhjólaklossar og varnarhanskar).
Fyrir mann, sem á heima utarlega í úthverfi leysir hraðskreiðara hjólið samgönguvandann betur en bíll hvað snertir það að vera fljótur í förum, vandræðalaust.
Auk þess sem tilvist hjólsins í umferðinni þýðir í raun, að rými sparast fyrir einn bíl í stað þess einkabíls, sem hjólamaðurinn hefði annars ekið.
Ef vindhviður fara ekki yfir 20 m/sek (hægt að tékka á því á vedur.is) er vindurinn ekki aðal vandamálið á vespu-hjólinu, heldur mikill tjörupækilsaustur á dögum með slíkum skilyrðum.
Á rafreiðhjólinu kemur sér vel að þessi tjörpækilsaustur er ekki fyrir hendi á hjólastígum.
Og sé tíminn naumur og veglengdirnar langar á slíkum dögum hefur minnsti og ódýrasti rafbíll landsins komið sér vel síðustu mánuði, auk þess sem svona stuttur bíll sparar rými í umferðinni og auðveldar það að finna stæði, sem aðrir bílar geta ekki notað.
Athugasemdir
Ég hef grun um að þú sért ekki mikið á ferðinni á þessum hjólum snemm morguns yfir vetrartímann þegar ekki er búið að hreinsa vel gangstíga og brautir.
Og helvíti held ég að þú sér vel pæklaður og með skert útsýni í þessum pækli sem ýrist upp , með umferðinni, af götunni, þegar bílstjórar þurfa að rúðupissa stanslaust til að hafa óhindrað útsýni.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 4.2.2018 kl. 07:29
Lestu betur það sem ég segi. Ég er ekki á ferðinni á vélhjólinu þegar pækillinn er mikill heldur á rafreiðhjólinu á gangstígum, þar sem enginn slíkur pækill ýrist upp eða þá á minnsta rafbíl landsins í pæklinum á götunum.
Ég á oft erindi eldsnemma dags, til dæmis nú síðasta á föstudaginn.
Ómar Ragnarsson, 4.2.2018 kl. 13:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.