12.2.2018 | 10:25
Vettvangur þjóðskáldanna eftirsótt iðnaðarsvæði.
Samkvæmt könnun á viðhorfum erlendra ferðamanna eru háspennulínur þau manngerðu fyrirbæri, sem þeim finnst stinga einna mest í stúf við ímynd ósnortinnar náttúru.
Gildir þá einu þótt línurnar kunni að vera þess eðlis að þær séu afturkræfar, söm er sjóntruflunin fyrir langflesta þeirra, sem standa á bak við gjöfulasta atvinnuveg þjóðarinnar.
Risavaxnir vindorkugarðar vekja svipuð hughrif, enda þarf í aðalskipulagi á hverjum stað að skilgreina slíkt sem iðnaðarsvæði.
Sums staðar á Íslandi hafa bæði náttúra, landslag, menning og saga aðdráttarafl.
Gott dæmi er Hraun í Öxnadal, fæðingarstaður "listaskáldsins góða" "þar sem háir hólar hálfan dalinn fylla" og "ástarstjörnu yfir Hraundranga skýla næturský."
Annað dæmi er svæðið í kringum Ljárskóga í Dalasýslu, þar sem skáldin Jóhannes úr Kötlum og Jón frá Ljárskógum gerðu garðinn frægan.
Og þaðan sést um innsta hluta Hvammsfjarðar og Hvammssveitina, sagnadjásn Dalasýslu, mestu saganaslóða Íslands.
Engu er líkara en að svona vettvangur þjóðskáldanna séu í sérstöku eftirlæti hjá þeim sem reisa vilja sem stærstar háspennulínur og vindorkugarða.
Og ef bent er á að sums staðar sé hægt að leggja línurnar í jörð og kallað eftir gögnum um þá niðurstöðu dýrrar rannsóknar á sínum tíma að það væri svo óskaplega miklu dýrara heldur en að leggja loftlínu, bregður svo við að hjá Landsneti hafa þessi gögn algerlega gufað upp! Finnast hvergi!
Grundvallargögn um háspennulínur horfin hjá aðal háspennulínufyrirtæki landsins!
Ein röksemdin sem kom fram á fundi um vindorkugarð í Búðardal á dögunum var sú, að ef horft sé hátt úr lofti beint niður á vindmyllurnar, verði þær svo örsmáar í sjónfletinum.
Rétt eins og að ferðamenn á sagnaslóðum í Dölum sjái þær eingöngu beint ofan frá!
Og svipaða röksemd má hugsanlega líka nota um risaháspennulínur, að horft beint ofan frá á möstrin verði þau örsmá!
En ferðamennirnir, sem telja línurnar trufla sig einna mest í upplifun sinni af einstæðri og ósnortinni náttúru Íslands, sjá þær auðvitað nær eingöngu frá láréttu sjónarhorni, ekki lóðréttu.
Enn reynt að koma Blöndulínu í skipulag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.