Hinn nýi faraldur, síminn og "ekki missa af" heilkennið.

Eftirtalið samtal var eitt sinn í þætti í Sumargleðinni og rataði síðan í ógleymanlegt atriði hjá Spaugstofunni:  

"Er ekki alltaf eitthvað merkilegt að gerast hér í sveitinni?"

"Nei, ekki svo að við vitum." 

"Jú, það hlýtur að vera eitthvað. Þannig er það alltaf alls staðar. Það væri gaman að heyra eitthvað um slíkt."

"Nei, það hefur ekkert merkilegt gerst hér lengi." 

"Þetta er nú kannski full mikil hógværð hjá ykkur. Þið hljótið að hafa fregnir af ýmsu eins og gengur og gerist alls staðar." 

"Nei við fréttum aldrei neitt." 

"Er ekki oft legið svolítið á línunni í sveitasímanum?"

"Nei, ekki höfum við orðið varir við það."

"Einhverjir hljóta að hringja á milli bæja, er það ekki?"

"Nei það hringir aldrei neinn." 

"Hringir aldrei neinn?"

"Nei það hringir aldrei neinn." 

"Það er skrýtið. Það hljóta nú einhverjir að hringja hér í þessari sveit eins og í öðrum sveitum."

"Nei, það hringir aldrei neinn." 

"Það er ótrúlegt. Hvernig má það vera?" 

"Við höfum engan síma." 

 

Nú er ástandið þveröfugt við það sem var á dögum sveitasímans. Það er enginn maður með mönnum nema að liggja í símanum og á netinu daginn út og daginn inn. 

Ef það er ekki gert er maður að sífellt að missa af einhverju. 

"Ekki missa af því" er síbyljusetning í sífelldum kynningum á næstu dagskrárliðum í sjónvarpi eða öðrum "viðburðum." 

Það er búið að negla það niður, að ef ekki er fylgst stanslaust með símanum, tölvunni og á netinu, séum við að alltaf að missa af einhverju. 

Maður sér flutningabílstjóra á tuga tonna drekum liggja í símanum þegar þeir aka vandkeyrðar leiðir um hringtorg. 

Frænka mín slasaðist alvarlega og beinbrotnaði illa fyrir þremur árum þegar bílstjóri ók  aftan á hana á fullri ferð þar sem hún hafði stöðvað bíl sinn á rauðu umferðarljósi. 

Hún þurfti að berjast lengi við eftirköstin og gott ef hún hefur jafnað sig enn.

Sá, sem ók aftan á hana var upptekinn við að senda smáskilaboð á símanum og sinna "ekki missa af" heilkenninu, sem öllu ræður. 

Margir eru varla lengur viðstaddir eigið líf í raunheimum, heldur fluttir yfir í netheima og heima hins allsráðandi og kröfuharða húsbónda, símans. 

Dæmi eru um að fjölskyldu- og ættarmóti hafi verið aflýst að sumarlagi af því að ljós kom að það var ekki net- eða símasamband á staðnum, þar sem búið var að panta tjaldsvæði og aðra gistingu. 

Stundum er haft á orði að Bakkus sé harður húsbóndi. En síminn er það líka. 


mbl.is Í allt að sex tíma á dag í símanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í þessum pistli gapir mesti símafíkill landsins og væri trúlega einnig drykkjusjúklingur, að eigin sögn, ef hann hefði dreypt á áfengi.

En það er sjálfsagt að gagnrýna aðra, lon og don, fyrir allan andskotann.

Þorsteinn Briem, 13.2.2018 kl. 14:33

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hér gapir neyslumesta kynslóð Íslandssögunnar.

Ómar Ragnarsson hefur graðgað í sig Prins Póló og kók fyrir sextán milljónir króna á núvirði, miðað við 50 þúsund 39 gramma Prins Póló á 70 krónur stykkið og 50 þúsund kók fyrir 250 krónur flöskuna.

Banna ætti það gríðarlega þjóðfélagslega mein sem sala á Prins Pólói og kóki er í matvöruverslunum hér á Íslandi, þar sem salan veldur miklu heilsutjóni fjölmargra Íslendinga, samfélagslegum kostnaði og sjúkrahússvist vegna offitu og sykursýki.

Margar fjölskyldur hafa komist á vonarvöl vegna þessarar fíkniefnaneyslu.

Eins og dæmin sanna.

Þorsteinn Briem, 13.2.2018 kl. 14:41

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Lestu textann, Steini.  "Ef það er ekki gert er maður sífellt að missa af einhverju."  Þarna tala ég frá eigin brjósti, en þú snýrð því upp í það að ég sé "að gagnrýna aðra lon og don." 

Ómar Ragnarsson, 13.2.2018 kl. 18:21

5 Smámynd: Már Elíson

Jæja Ómar - Bjóddu nú velkominn úr guðlegri meðferð...Engan annan en aldavin þinn og stórbloggara sem þú lætur enn eitt árið svívirða þig. - Á þessum skrifum hans sérðu að hann kemur jafnvel enn verri úr meðferðinni miklu. - Gangi þér vel með hann á næstunni. - Við hinir fengum ágætan frið til að lesa þitt ágæta blogg um stund, en nú hefst annar kafli....

Már Elíson, 14.2.2018 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband