14.2.2018 | 15:55
Viðleitni ríkisins til einföldunar í rekstri.
Það fyrirkomulag að borga ríkisstarfsmönnum, sem fara á eigin bílum í erindum ríkisins eða vegna starfs síns fyrir ríkið, gjald fyrir ekna kílómetra, varð upphaflega til þess ætlað að einfalda rekstur ríkisins.
Ástæðan er meðal annars sú, að annars þyrftu viðkomandi ríkisstofnanir að standa í því að kaupa og reka bíla, sem oft væri erfitt að láta passa inn í reksturinn.
Alla tíð hefur það tíðkast hjá ríkisstofnunum að versla við leigubílastöðvar þegar eðli málsins hefur verið þannig, að fara hefur þurft skemmri ferðir í ýmsum erindum.
Kílómetragjaldið er fundið út af sérstakri nefnd og byggt á upplýsingum frá FÍB, sem um áratuga skeið hefur reiknað út raunverð vegna reksturs bíla af meðalstærð.
Í allmörg ár hefur verið verið í kringum 100 krónur á kílómetrann, og vegna aukinnar sparneytni meðalbílsins hefur það lítið breyst.
Það þarf þess vegna að svara því hvers vegna starfsmenn FÍB fá út miklu lægri kostnað við rekstur bíls Ásmundar en birst hafa undanfarin ár.
Ekki er það vegna þess að bíll Ásmundar sé svo lítill og ódýr, því að Kia Sportage er ríflega meðalstór bíll og með drifi á öllum hjólum.
Í taxta greiðslu fyrir akstur einkabíla ríkisstarfsmanna vegna starfs þeirra er réttilega hafður hærri taxti vegna aksturs á malarvegum, var 15 prósentum hærri í þau tólf ár, 1995 til 2006, sem ég ók eftir þessu fyrirkomulagi fyrir RÚV, og 45 prósentum hærri ef farið var eftir torfærum slóðum eða í jöklaferðir.
Reynslan af akstri á breyttum torfærujeppum í eigu Stöðvar 2 til fréttaöflunar og dagskrárgerðar réði miklu þegar ég fór aftur niður á RÚV.
Ég hafði sérhæft mig, vinnutíma minn og notuð tæki og tól fyrir það að vera á nokkurs konar "fréttaslökkvibíl" eða flugvél, og væri ég og þessi farartæki tiltæk allar stundir og alla daga ársins.
Hins vegar var það ekki talið heppilegt, kostnaðarins vegna og vegna takmarkaðrar notkunar, að RÚV keypti og ætti jeppa af svona sérbúinni gerð.
Niðurstaðan varð því að RÚV greiddi fyrir akstur samkvæmt akstursbók á torfærubílum í minni eigu samkvæmt almennum taxta ríkisins, sem miðaðist við bíl af meðalstærð.
Til þess að geta farið af stað hvert sem væri, við öll skilyrði og hvenær sem væri með sem allra stystum viðbragðstíma, keypti ég breyttan jöklajeppa af Toyota Hi-lux gerð.
Slíkur bíll var að sjálfsögðu miklu dýrari í rekstri en venjulegur bíll af meðalstærð, en staða mín sem nokkurs konar bakvaktarmann allt árið um kring til sérverkefna gerði þetta nauðsynlegt.
Ég reyndi að minnka kostnaðinn síðari hluta þessa tímabils með því að eiga hræódýra litla bíla með jöklajeppanum, þannig að meðaltalstaxtinn dygði í einstaka tilfellum ef ég notaði þá.
Myndin hér að ofan er af einum af slíkum bílum, örbíl af gerðinni Fiat 126 staddur á erfiðri jeppaslóð, svonefndri Álftadalsleið, með Fagradal og Herðubreið í baksýn.
Einnig hefur fornbíll, minnsti jöklajeppi landsins, Suzuki Fox GTI ´86, verið notaður í jöklaferðir, hér kominn í Kverkfjöll í nokkurrra daga leiðangri Jöklarannsóknarfélagsins.
Jöklajeppar urðu oftast ofan á, vegna þess að þótt verið væri að aka bílnum fyrir "venjulegt" verkefni, var aldrei hægt að vita fyrirfram hvort upp kæmu aðstæður eða atvik, sem krefðust öflugs farartækis og því best að hafa það tiltækt allan tímann.
Á síðustu árunum hjá RÚV olli kostnaðurinn við rekstur jöklajeppan því að ég minnkaði kostnaðinn vegna fjárfestingarinnar í honum með því að fá mér gamlan breyttan Range Rover árgerð 73, (fremstur á neðstu myndinni), sem hefur gengið undir heitinu "Kötlujeppinn" vegna stöðu hans.
Eðli málsins samkvæmt var auðvelt að færa dagbókina rétt, því að þetta var ævinlega spurning um að sýna afrakstur í formi mynda og frétta, sem kom glögglega fram í myndefninu og var tilgreint í dagbókinni.
Þetta dæmi er nefnt hér til glöggvunar á því, af hverju þetta kerfi er við lýði og hver tilgangurinn er með því.
Í mjög fjölbreytilegum verkefnum á vegum ríkisins verður seint fundið upp algerlega gallalaust fyrirkomulag, nema þá að gera það svo flókið og viðamikið að það eitt verði að galla.
Rekstur bílsins rúmar 2 milljónir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
23.8.2007:
"Páll Magnússon útvarpsstjóri ekur um á rúmlega níu milljóna króna Audi Q7 drossíu.
Bílinn tók hann á rekstrarleigu í apríl á síðasta ári.
Eftir að Ríkisútvarpinu var breytt í hlutafélag yfirtók fyrirtækið skuldbindingar vegna bílsins og greiðir 202 þúsund krónur á mánuði, miðað við tveggja ára rekstrarleigu."
Þorsteinn Briem, 14.2.2018 kl. 17:28
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf kunnað að mjólka ríkiskúna og sparar ekki spenann.
Þorsteinn Briem, 14.2.2018 kl. 17:32
Ég ber axlabönd og belti,
berlega sýni merki um svelti,
ég ek því samt,
eins og er tamt,
þó andskotist Einar í Einelti!
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/02/14/telur_frettaflutning_jadra_vid_einelti/
Þjóðólfur í Skattaskarði (IP-tala skráð) 14.2.2018 kl. 21:43
Mismunurinn á kílómetragjaldinu og útreikningum FÍB er að einhverju leiti fólginn í því að hluti kílómetragjaldsins er skattlagður sem tekjur. 100 krónur á kílómetrann eru því ekki 100 krónur í vasann. Kostnaðurinn við rekstur bíls Ásmundar er ekki sá sami og kostnaðurinn við rekstur bíls Ásmundar með sköttum.
En fljótt á litið virðist Ásmundur oft nota bílinn sem þingmaður og ríkisstarfsmaður. En einnig virðist hann vera að vinna hjá öðrum og fyrir flokk sinn sem frambjóðandi og lætur ríkið borga fyrir þann akstur. Það getur varla talist eðlilegt að ríkið borgi ferðir á framboðsfundi, samkomur flokksins og dagskrárgerð fyrir einhverja sjónvarpsstöð. Eftirlit virðist ekki vera neitt.
Gústi (IP-tala skráð) 15.2.2018 kl. 01:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.