Hálfri öld á eftir.

Til þess að átta sig á álitaefnum þarf oft að fara í vettvangsferð. Ekki síst þegar um er að ræða vegi, sem eru orðnir hálfrar aldar gamlir og virðast ekkert á útleið. Borgarfj eystri vegur

Síðastliðið sumar lá leið mín um marga af þessum vegum vegna dagskrárgerðar fyrir Ferðastiklur og einnig þegar ég fór á litlu "vespu"vélhjóli, 125 cc Honda PCX, báða hringina, hringveginn og Vestfjarðahringinn. 

Meðal veganna fyrir Ferðastiklur má nefna vegarónefnuna til Borgarfjarðar eystri, sem greint er frá í tengdri frétt á mbl.is og malarkaflann í sjálfum Þjóðvegi númer eitt í Berufirði. Léttir á Hrafnseyrar heiði

Þegar lagt var í að fara hringina tvo um miðjan ágúst var spurningin, hvort það væri yfirleitt ráðlegt að fara Vestfjarðahringinn. Á hjólinu var hljómflutningskerfi sem notað var til hljómleikahalds og kynningar á safndiskinum "Hjarta landsins" og mér leist ekkert á kaflann frá Þingeyri til Flókalundar, sem er 76 kílómetra langur. 

Við hjónin höfðum sem oftar farið til Patreksfjarðar á sjómannadaginn og svo virtist sem sá malarvegarkafli sem eftir er í Gufudalssveit myndi ekki verða mikil töf fyrir hjólið. 

Þegar til kom var kaflinn milli Þingeyrar og Flókalundar svo hrikalegur, að orð fá vart lýst. Léttir, holur á vegi nr.60

Niðaþoka og hellirigning var á Dynjandisheiði svo að erfitt var að ná myndum þar af holum, sem gáfu ekkert eftir holunum sem sjást á myndinni af veginum til Borgarfjarðar eystri. 

Verst var þó, að háar og hvassar brúnir voru á brúarendum hinna einbreiðu brúa á heiðinni, svo að um var að ræða hreina slysagildru, sem gat hoggið hvaða fólksbílsdekk í sundur sem var og skemmt felgur og fjöðrunarbúnað. 

Mátt nærri geta hvernig færi fyrir litlu hjólunum á Hondunni. 

Ferðin þessa 76 kílómetra, sem hefði tekið 50 mínútur á nútímavegi, tók meira en tvær klukkustundir.Léttir við Barðaströnd

Mikil feginstuna leið frá þreyttum ökumanni þegar komið var í Flókalund  og síðar þegar áð stutta stund þegar komið var að Fossá við austanverðan Vatnsfjörð. 

Eftir svaðilförina á hinum meira en hálfrar aldar gamla óvegi á Dynjandisheiði varð töfin í Gufudalssveitinni aðeins brot af því sem hafði þurft að yfirstíga milli Flókalundar og Þingeyrar. 

Enga afsökun er hægt að færa fram fyrir hinu arfa slæma ástandi veganna fyrir vestan og því ástandi, að Vestfirðir skuli vera eini landshlutinn, sem verður að sætta sig við að hafa engan flugvöll, sem hægt er að nota í myrkri og búa þar að auki við óvegi eins og Dynjandisheiði.

Fyrir löngu væri hægt að vera búið að gera nútíma veg yfir Dynjandisheiði og þvera Þorskafjörð með 10-11 kílómetra styttingu.  

 


mbl.is Íbúar ætla sjálfir að hefja vegagerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bókin um veginn er komin út í nýrri þýðingu.

Formála ritar vegamálastjóri.

Þorsteinn Briem, 18.2.2018 kl. 19:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband