Langvarandi íslenskur óskýr slappleiki?

Aðild íslenskra aðila að umdeilanlegum flutningum á vopnum og föngum eru ekki nýtt fyrirbrigði. 

Þrátt fyrir byltingu í flugmálum hvað varðar langdrægni flugvéla og fjölbreytilegar flugleiðir sem henni hefur fylgt, liggur Ísland oft vel við flutningum yfir Norður-Atlantshafið og hefur gert það allt frá því í Seinni heimsstyrjöldinni, þegar Keflavíkurflugvöllur varð afar mikilvægur bæði fyrir almannaflug og hernaðarflug.  

Eftir stríðið var gerður svonefndur Keflavíkursamningur um afnot Bandaríkjamanna af vellinum vegna hernaðarumsvifa þeirra í Evrópu, og Nýsköpunarstjórnin svonefnda sprakk vegna deilna um þann samning. 

Í Kalda stríðinu stóðu deilur hér innanlands um völlinn, starfsrækslu hans og notkun, og deilt var um hvort kjarnorkuvopn væru á vellinum og kjarnorkuvopn flutt um hann.

Eftir árásina á New York og Washington 11. september kom upp umræða um það hvort völlurinn væri notaður til millilendinga fyrir fangaflug Bandaríkjamanna, og urðu ekki allir sannfærðir um að við hefðum hreinan skjöld í því efni. 

Nú er starfsemi íslenskra flugfélaga búin að þenjast svo út um allar álfur, að nýjasta málið, umdeilanlegir vopnaflutningar með íslensku flugfélagi, þarf ekkert endilega að vera bundið Keflavíkurflugvelli. 

Svör samgönguráðherra um að verið væri að semja reglugerð um slíka flutninga gefur til kynna að enn sé á ferðinni óskýr hugsun eða slappleiki hjá íslenskum stjórnvöldum.  

Umræddir flutningar hafa verið leyfðir fram að þessu að því er kom fram í fréttskýringaþættinum Kveik í kvöld, en í viðtali við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í fréttum RUV í kvöld, áræddi hún ekki að ganga lengra en að segja að "andi" ályktunar Sameinuðu þjóðanna hefði ekki verið virtur í þessu máli, nú væri búið að neita um leyfi til svona flutninga og að verið væri að semja reglugerð, sem samræmdist frekar fyrrnefndum "anda." 

Kunnuglegt stef í vetur heyrist nú enn einu sinni, málið og matið óskýrt og huglægt á því sem gert hefur verið, en verið sé að "læra af þessu". 

 

 


mbl.is Telur íslensk stjórnvöld hafa brugðist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Air Atlanta flutti á síðasta ári (2015) 1,5 millj­ón­ir farþega og 257 þúsund tonn með flug­flota sín­um sem sam­an­stend­ur af 17 breiðþotum.

Þegar mest er um að vera hjá Air Atlanta eru starfs­menn­irn­ir 1.200 frá 52 þjóðlönd­um hvaðanæva úr heim­in­um. Í höfuðstöðvum fé­lags­ins í Kópa­vogi eru 120 starfs­menn sem sinna um­sjón og eft­ir­liti með flugrekstr­in­um þó það sé sjald­gæft að ein­hverj­ar af 17 breiðþotum fé­lags­ins sjá­ist á Íslandi. Stærsta starfs­stöðin er í Jedda í Sádi-Ar­ab­íu þar sem eru 6-700 manns á veg­um fé­lags­ins. Það er krefj­andi fyr­ir starfs­fólkið að fljúga út um all­an heim en á síðasta ári flaug Air Atlanta til 67 landa og lenti á 155 flug­völl­um. All­ar tekj­ur fé­lags­ins verða til er­lend­is en eig­end­urn­ir segj­ast vera í veg­legri út­flutn­ings­starf­semi sem skili 5,6 millj­örðum króna ár­lega inn í ís­lenskt efna­hags­kerfi af 33 millj­arða króna veltu. "

Þá er spurning hvort ekki sé réttast að flytja höfuðstöðvar og rekstur úr landi, til Jedda í Sádi-Ar­ab­íu eða annað? Nú þegar skinhelgin lekur af ráðamönnum og þeir orðnir kaþólskari en páfinn. Það getur varla verið lífvænlegt fyrir fyrirtæki að þurfa að starfa eftir einhverjum ætluðum anda. Og að búa við það að fá ekki leyfi vegna ágiskana og gróusagna án sannana. Neitun þó engin lög hafi verið brotin. Og hæpin stjórnsýsla að gera flutningsaðila ábyrgan fyrir því hvert farm­ur getur mögulega farið og hvernig hann gæti verið notaður eft­ir að hann kemur á áfangastað og er afhentur eigenda.

Gústi (IP-tala skráð) 27.2.2018 kl. 23:27

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Flugfélagið Air Atlanta er stórkostlegt dæmi um það hverju "eitthvað annað" en stóriðja, hugvit og dugnaður geta áorkað. 

Upphaflega mátti segja að það hafi orðið til á eldhúsborði í Mosfellsbæ hjá hinum stórhuga flugstjóra Arngrími Jóhannssyni og Þóru Guðmundsdóttur. 

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og mikið verið flogið, en í fluginu gilda yfirleitt markvissar og nákvæmar reglur. 

Því vekur spurningar og vissa undrun ef það sem hefur verið gert um langt skeið upp á punkt og prik með tilskyldum hingað til, verður allt í einu óleyfilegt en jafnframt þurfi samt að móta nýjar reglur í samræmi við "anda" hjá Sameinuðu þjóðunum. 

Ómar Ragnarsson, 28.2.2018 kl. 01:28

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Leiðrétting: "...með tilskyldum leyfum..." á að standa í síðustu setningunni, - orðið "leyfum" vantar. 

Ómar Ragnarsson, 28.2.2018 kl. 01:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband