1.3.2018 | 13:28
Þegar stærð og þyngd vinna á móti.
Það er hárrétt hjá Ástvaldi Óskarssyni að krapinn er versti óvinur jöklajeppamannsins.
Oft er ómögulegt að sjá á yfirborðinu, hvort krap sé undir sléttum og felldum snjónum.
Kröftug leysing og hlýindi breyta oft neðri hlutum jökla í krapasvað, einkum á vorin, en við kólnun, veðrabreytingu og snjókomu sest nýsnævi ofan á á felur þessa verstu ófærð jöklaferðanna.
Oft er það mjög sakleysilegt og ósýnilegt laumukrap undir sléttum og felldum yfirborðssnjó, sem bílanir festast í.
Af þessum sökum reyna jeppamenn að vera sem flestir saman á ferð til þess að geta kippt hver í annan og mokað þar sem það flýtir fyrir.
Þyngdarlögmálið ræður miklu.
Sé krapinn ofan á þéttum ís, sem liggur undir honum, verður þeim mun verra að losa jeppann sem hann er minni, jafnvel þótt flotmagn dekkja hans sé meira en á þyngri jeppum.
Ástæðan er sú að vegna meiri veghæðar og stærri dekkja "grípa" dekk lítilla bíla ekki eins vel niður á fastan ís eins og hin stóru.
Sé krapinn hins vegar það djúpur, að ekkert svona grip sé að fá, er þeim mun erfiðara að ná farartækinu upp sem það er stærra og þyngra.
Í venjulegri jeppaferð er það óhjákvæmilegur og að vissu leyti tilbreytingarlega skemmtilegur hluti af ferðinni að fást við festur og virkja samtakamáttinn til að losa bíla úr þeim.
Eða, - eins og tíu ára strákur sagði við mig, þegar ég spurði hann í jöklaferð, hvað væri skemmtilegast: "Festa, draga, bila, gera við."
Engin vandamál, bara lausnir, eins og sagt er í einni auglýsingu bílaumboðs.
Í laginu "Glöð við förum á fjöll öll" sem ég setti inn á facebook síðu mína 19. febrúar, sjást bæði myndir og er einnig sungið um hinar fjölbreytilegu uppákomur og viðfangsefni í svona ferðum.
Myndirnar sem ég ætla að setja inn hér á síðunni eru úr margra daga vorferðum Jöklarannsóknarfélagsins um Vatnajökul, þar sem minnsti jöklajeppi landsins festir sig að vísu eins og aðrir, þrisvar í þeirri ferð þar sem hann festist oftast.
Auðvelt og afar fljótlegt er fyrir stóran jeppa að losa svona lítinn og léttan með drætti, en þegar um er að ræða risafarartæki sem festist, getur nokkurra mínútna festa hjá litlum jeppa í sama krapasvæðinu, orðið að hálfs sólarhrings viðfangsefni.
En Súkkan var líka notuð þrisvar sinnum til að kippa með teygjuband í þrefalt þyngri jeppa, sem aðeins þarf að hreyfa lítillega til að hægt sé að byrja að gjugga þeim fram og aftur og lengja sporið, sem þeir smám saman hafa til umráða.
Á 3ju mynd að ofan eru menn staddir á Bárðarbungu og horfa til norðvesturs yfir Sprengisand í átt til Hofsjökuls.
Landcruiserinn á 44 tommu dekkjunu vinstra megin á myndinnin er fastur að framan í augnablikinu og eftir er að losa hann, en Súkkan bíður á meðan.
Og þrisvar í þessari ferð var þetta öfugt, tvisvar í krapi.
Á neðstu myndinni er Súkkan á leið niður af jöklinum í fylgd með 44 tommu Landcruiser.
Toyotan hefur fest sig og bílstjórinn er að losa um með skóflu, svo að Súkkan, sem bíður fyrir aftan, geti skotist fram fyrir og kippt í!
Versti og mesti krapi sem ég hef kynnst á mínum jöklaferðum var á stærsta skriðjökli, sem ég hef séð.
Það var á leiðinni vestur af Grænlandsjökli 1999 þar sem baráttan við að komast þá krapakenndu leið í grænlenska vorinu tók á annan sólarhring.
Jöklarútan sat föst í hálfan sólarhring | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.