Stórkostlegir frumkvöðlar á sviði framfara og friðsamlegrar velferðar.

Það var sagt á sínum tíma að tveir Íslendingar, Arngrímur Jóhannsson flugstjóri og Þóra Guðmundsdóttir, þáverandi eiginkona hans, hefðu stofnað flugfélagið Atlanta og rekið það í byrjun frá eldhúsborði á heimili þeirra í Mosfellsbæ. 

Fágætt er að tveir einstaklingar hafi með hugsjón, hugmynd, útsjónarsemi og dugnaði náð eins stórkostlegum árangri til heilla og hagsbóta fyrir þjóðfélagið allt og þau Arngrímur og Þóra náðu með einfaldri og snjallri hugmynd. 

Þetta gerðu þau á þeim árum þegar ráðandi öfl á Íslandi réðu að því öllum árum að tala niður öll önnur ráð heldur en stóriðju til að efla hag og mannlíf á landinu. 

Var það í háuðugarskyni nefnt "eitthvað annað", og fjallagrasatínsla og lopapeysusaumur, auk andúðar á rafmagni og uppbyggingu, nefnt í leiðinni, sem lýsandi fyrir allt annað en virkjanir og stórðju.   

Ótrúlegur uppgangur Atlanta sem nú mun nú vera með 17 breiðþotur á lofti og flug til 155 flugvalla um alla jörð, auk milljarðanna sem þetta íslenska fyrirtæki leggur til þjóðarbúsins, þurfti ekki að byggjast á vopnaflutningum eins og Þóra hefur nú lýst, heldur fólust aldeilis feykinógir möguleikar í uppbyggingu og útrás án þess að vopnaflutningar kæmu til, hvað þá ólöglegir vopnaflutningar.  


mbl.is Ekki stofnað til að flytja vopn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já Ómar - á þeim tíma. 

Minnist þess reyndar ekki að 1986 hafi verið byrjað tal um fjallagrasatínslu og eitthvað annað, það kom ekki almennt inn í umræðuna fyrr en vel eftir aldamótin.   

Þú átt nú að vera betri en Ástþór og reyna ekki að skreyta þig einhverjum gömlum fjöðrum. 

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 2.3.2018 kl. 20:45

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Álverin greiða einungis brot af þeim sköttum sem fyrirtæki greiða hér á Íslandi og meðallaun í álverum hér eru lægri en í ferðaþjónustunni, eins og undirritaður hefur margoft sýnt hér fram á.

Mikil meirihluti skatta fyrirtækja og einstaklinga kemur frá höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal þjónustufyrirtækjum og þeim sem þar starfa, enda er þar mikill meirihluti fyrirtækja og einstaklinga.

Til að reisa hér virkjanir tekur Landsvirkjun lán erlendis, þannig að tugmilljarða króna vextir af þeim fara árlega til lánastofnana erlendis sem erlendur gjaldeyrir.

Þar að auki þurfa álfyrirtækin hér, sem eru í eigu erlendra fyrirtækja, að kaupa gríðarlegt magn af súráli í erlendum gjaldeyri til sinnar framleiðslu.

Þorsteinn Briem, 2.3.2018 kl. 21:07

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stóriðjan þarf gríðarmikla raforku og stóriðjufyrirtæki verða einungis á örfáum stöðum á landinu.

Ferðaþjónusta er hins vegar í öllum bæjum, þorpum og sveitum landsins.

Þar að auki eru langflest fyrirtæki í ferðaþjónustunni hér á Íslandi einkafyrirtæki, sem Sjálfstæðisflokkurinn talar sífellt um af mikilli lítilsvirðingu, eins og mörg önnur einkafyrirtæki hér, til að mynda alls kyns þjónustufyrirtæki.

Hversu mörg stóriðjufyrirtæki verða annars staðar en í Hafnarfirði, Helguvík, á Grundartanga, Húsavík og Reyðarfirði?!

Hvernig ætla Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn þá að auka hér hagvöxt?!

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn gapa nú mjög um hagvöxt hér á Íslandi síðastliðin ár en útflutningur á þjónustu hefur skapað þann hagvöxt.

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa ekkert gert til að skapa þennan hagvöxt, heldur þvert á móti gapað af mikilli lítilsvirðingu um ferðaþjónustu hér á Íslandi.

Þorsteinn Briem, 2.3.2018 kl. 21:12

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta var samfelld stóriðjusókn, Sigrún, allt frá 1991 til okkar daga, allan tímann talað um stóriðjuna sem það eina sem gæti "bjargað þjóðinni" og því ekki ansað að neitt annað gæti komið í staðinn.

Þegar Sovétríkin féllu og markaðir Íslendinga lokuðust þar, hófst mikið kvein vegna þess að það þyrfti að "bjarga Norðurlandi" með stóru álveri á Dysnesi við Eyjafjörð.  Á sama tíma áttu álver á Keilisnesi og virkjun Jökulsár í Fljótsdal að "bjarga þjóðinni". 

Álver hefur enn ekki risið við Eyjafjörð og samkvæmt uppleggi stórðjudýrkenda ætti Norðurland að vera komið í eyði. 

1995 var sendur út betlibæklingur á vegum ríkisstjórnarinnar til helstu stóriðjufyrirtæka heims þar sem þeim var boðið upp á "lægsta orkuverð í heimi" og "sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum. 

1997 voru viðraðar hugmyndir Norsk Hydro um 750 þúsund tonna álver til "að bjarga Austurlandi" og risavirkjun Jökulsár á Fjöllum, Jökulsár á Dal og Jökulsár í Fljótsdal. 

1999 var verið að reyna að semja við Norsk Hydro um álver á Reyðarfirði, sem síðar breyttist í þrefalt stærra álver og virkjun. 

Þegar Siv Friðleifsdóttir gaf grænt ljós á Kárahnjúkavirkjun sagði einn ráðherra ríkisstjórnarinnar í næsta Kastljósi á eftir, að Siv hefði "bjargað þjóðinni." 

Þetta var sex árum en Air Atlanta fór út í það að einbeita sér að fragtflugi og fjallagrasatalið var byrjað mörgum árum fyrr. 

Ómar Ragnarsson, 2.3.2018 kl. 23:10

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þess má geta, að 1993 gaf Iðnaðarráðuneytið úr bækling, þar sem sýndar voru fyrirætlanir um LSD, Lang Stærsta Drauminn, eina samtengda risavirkjun ánna fyrir norðan Vatnajökul. 

1992 fór einn þáttanna "Aðeins jörð" á Stöð 2 í það að lýsa aðstæðum við þessar jökulsár og eftir það þurfti ég að fjalla um þessi mál árlega, bæði í fréttum og einnig í þáttum á borð við "Við eigum land" og fleiri slíka, þrjá þætti undir heitinu "Út vil ek" og þáttum undir heitinu "Regnbogalandið". 

Allur þessi fréttaflutningur og allir þessir þættir voru gerðir fyrir aldamótin og umræðan var allan tímann á plani stóriðjudýrkenda um gagnsleysi alls annars heldur en hennar. 

Ómar Ragnarsson, 2.3.2018 kl. 23:17

8 identicon

Jamm. Það er allt satt og rétt Ómar.  En Atlanta var stofnað 1986.

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 3.3.2018 kl. 07:46

9 identicon

Það væri fengur af því ef hinn afkastamikli athugasemdargjafi Steini Brím legði það ã sig einu sinni í viðbót að sýna fram ã að meðallaun í ferðaþjónustu séu hærri en í álverum.

Staðreyndin er sú að meðallaun í ferðaþjónustu eru þau lægstu í landinu, enda atvinnuvegur sem er að mestu mannaður af õmenntuðum unglingum og útlendingum.

Bjarni (IP-tala skráð) 3.3.2018 kl. 10:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband