Útnes lýsir svæðinu best, er stutt nafn og laggott, rökrétt og auðskilið.

Á ysta hluta Reykjanesskaga eru tvö nes. Annað þeirra, sýnu stærra en hitt, er norðan línu frá Höfnum yfir í botn Stakksfjarðar og ber heitið Miðnes eða Rosmhvalanes. Ysti hluti þess heitir Garðskagi. 

Yst á Reykjanesskaga, um 12 kílómetra í suðvestri frá þessari línu, er mun minna nes Reykjanes, og heitir ysti hluti þess Reykjanestá. 

Sameiginlegt heiti þessara nesja og þar með ysta hluta Reykjanesskaga er Suðurnes. 

Reykjanesskagi er út af fyrir sér rökrétt heiti á þessum stóra skaga, af því að ef dregin er bein lína eftir Reykjanesfjallgarðinum, sem liggur eftir endilöngum skaganum, endar hún úti á Reykjanesi, fjarri Reykjanesbæ. 

Allt var þetta rökrétt og auðskilið. 

En á síðustu áratugum hefur ruglingur með þetta allt farið vaxandi og sér ekki fyrir endann á því, heldur er verið að bæta í. 

Eftir tilkomu Reykjaneskjördæmis var farið að tala um Reykjanesskagann allan sem Reykjanes og jafnvel er nú orðið farið að tala um að Bláfjöll, Selvogur og Krýsuvík séu á Reykjanesi. 

Og nú bætist við efni í enn meiri rugling.  

Á syðri hluta Miðness, vestan Stakksfjarðar, voru sveitarfélögin Keflavík, Ytri-Njarðvík og Innri-Njarðvík, sem fengu eftir sameiningu heitið Reykjanesbær, sem er ruglandi nafn í meira lagi, af því að þetta sveitarfélag liggur langt frá Reykjanesi. 

Heitið Miðnesbær hefði verið nær lagi. 

Bæjarfélögin Sandgerði og Garður eru á ytri hluta Miðness og það væri því fullkomlega rökrétt að kalla það sveitarfélag Útnes eða jafnvel Útnesbæ, enda oft talað fyrrum um Útnesjamenn.

Heitið Útnesjamenn eða Útnesingar þarf ekki að fela í sér neikvæða merkingu eins og sumir halda fram, heldur voru þetta fyrrum einhverjir hörðustu sjósóknarar landsins eins og vel kemur fram í ljóðinu og laginu Suðurnesjamenn. 

Þar er túlkuð vel sú virðing sem var borin fyrir þessum köppum sem sóttu sjóinn svo fast og sækja hann enn.  

Hinum megin við suðurströnd Faxaflóa er bærinn Akranes og íbúar hans eru kallaðir Akurnesingar. 

Það væri því fullkomlega rökrétt að þarna kölluðust á Útnes og Útnesingar annars vegar, og  Akranes og Akurnesingar hins vegar. 

Akurnesingar eru stundum kallaðir Skagamenn, af því að Skipaskagi er annað heiti á Akranesi. 

Kannski mætti leika sér með heitið Garðskagamenn um þá, sem búa á Útnesi eða í Útnesbæ. 


mbl.is Óvissa um nafnið þrátt fyrir kosningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Sá galli er á gjöf Njarðar að nafnið
á sér engan samhljóm meðal þorra þeirra sem
búa á þessu svæði; þeir vita af glæstri sögu Suðurnesja
en forliðurinn út hljómar afleitlega í huga hvers manns
og er afturhvarf til grárrar forneskju og næsti bær við
rímnaspangólið og gamla heyið.

Sveitarfélagið Suðurnes er heiti sem tekur á því besta
og því sem glæstast er í sögu Suðurnesjamanna;
þeirra sem á Suðurnesjum búa.

Sveitarfélagið Suðurnes er það eina rökrétta.

Húsari. (IP-tala skráð) 19.5.2018 kl. 09:13

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Allt í lagi, Húsari, - ég er alveg sammála þér í því að þetta er fallegt nafn með gott yfirbragð.

"Tæknilegi" gallinn er hins vegar sá, að Reykjanesbær og jafnvel Grindavík eru innan þess svæðis, sem hefur alla tíð heitið Suðurnes og íbúar Suðurnesja Suðurnesjamenn. 

Þar að auki gengur land hins nýja sveitarfélags til norðurs út úr Reykjanesskaganum en ekki til suðurs. 

Ómar Ragnarsson, 19.5.2018 kl. 10:07

3 identicon

Sæll vertu Ómar, enn og aftur

Orð í tíma töluð

Einhvernvegin hefur það allaf farið í taugarnar á mér þegar talað er um Reyjanesskagann allann sem Reykjanes. Ég hef oft spurt fólk sem gerir það um hvernig því væri þá háttað með Reyjanesið. Er það þá Reykjanes á Reykjanesi, sem er náttúrulega bara bull.

Ég hef svo sem ekki myndað mér neina skoðun á hugsanlegu nafni á þessu nýja sameinaða sveitafélagi Sandgerðis og Garðs en vonandi tekst þeim betur upp en nágrönnum þeirra í Reykjanesbæ sem mér finnst arfavitlaut nafn miðað við staðhætti.

Svo mörg voru þau orð

Kveðja Björn

Björn Jóhann Guðjohnsen (IP-tala skráð) 19.5.2018 kl. 16:27

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég minni bara á upphaf ljóðsins við lagið "Suðurnesjamenn":  

"Sæmd er hverri þjóð að eiga sægarpa enn. 

Ekki var að spauga með þá Útnesjamenn."... 

Ómar Ragnarsson, 19.5.2018 kl. 17:05

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sammála Húsara. Útnes hljómar eins og útnári hvað sem einhverju karlagrobbskvæði sýnist.

Nafninu verður líklega snúið í utnára ef ég þekki íslenska kaldhæðni rétt og mun festast í sessi af því að það smellpassar. Nesbyggð eða nesjabyggð gæti passað ef það er ekki frátekið. Þetta byggðariðtengi er orðið hálf klént og kerfislegt samt. Allar sameiningar síðari ára enda í þessu. Andleysið algert.

Jón Steinar Ragnarsson, 20.5.2018 kl. 08:55

6 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Heiðarbær.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 20.5.2018 kl. 12:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband