"Útlit fyrir litla rigningu í dag? Jæja? "Það rignir alltaf."

Í dag stóð til að taka nokkrar æfingalendingar hjá mér um fjögurleytið í dag, enda "útlit fyrir litla rigningu" eins og segir í tengdri frétt mbl.is og sama var að sjá á spákortum, sem sýndu úrkomu innan við einn millimetra. 

En annað kom á daginn. Það var eins og allar flóðgáttir opnuðust á fjórða tímanum og ekkert varð af lendingunum, enda varð rigningin 10 millimetrar nú síðdegis.

Viðbrögð við þessu í söng liggja nokkuð beint við hjá mér. 

Eitt af 72 lögum á 4 diska safndiskinum "Hjarta landsins" ber nefnilega heitið "Hann rignir alltaf" og textinn er 416 ára gamall, eftir William Shakespeare, nánar tiltekið lokasöngur í leikritinu "Þrettándakvöld. 

Þetta er elsti textinn á safndiskinum. 

Herranótt sýndi leikritið 1959 og Helgi Hálfdanarson þýddi það. 

Halldór Haraldsson, þá nemandi við skólann, samdi lag sem hefur oftast verið kennt við hirðfíflið Fjasta og nefnt Söngur Fjasta. 

Gegnumgangandi setning í söngnum er "...og hann rignir alltaf dag eftir dag." 

Ég stökk með Hauki Heiðari Ingólfssyni í hljóðver til að syngja lagið aftur 60 árum eftir að ég söng það í Herranótt og breytti laginu lítillega til þess að tengja betur á milli erinda og auka á vægi "húkk"-setningarinnar "...hann rignir alltaf." 

Það er nefnilega ótrúlega mikill hluti upprunalega textans, sem fjallar um veðrið í hverju erindi:  "...hann rignir alltaf dag eftir dag..."  og  "hæ, hopp, út í veður og vind." 

Þegar ég hafði samband við Halldór Haraldsson var hann alveg búinn að gleyma að hann hefði samið lagið, sem sungið var 1959, baðst í fyrstu undan því að vera tengdur við eitthvað sem hann myndi alls ekki eftir. 

Hann samþykkti þó það, að maður sem hefði sungið þetta lag sérstaklea einn á tugum sýninga og æfinga hlyti að muna eftir því, og niðurstaðan var að skrifa okkur báða fyrir laginu. 

Hér kemur textinn, en lagið mun verða sett á facebook-síðu mína nú á eftir.    

 

Ég var lítill angi með ærsl og fjör, - 

hæ, hopp út í veður og vind, - 

og stundaði glens og strákapör - 

- og hann rignir alltaf dag eftir dag. 

 

Rignir, rignir, rignir...

 

Ég óx úr grasi ef einhver spyr, - 

hæ, hopp út í veður og vind, - 

en klækjarefum er kastað á dyr - 

og hann rignir alltaf dag eftir dag. 

 

Rignir, rignir, rignir, rignir...

 

Mér varð til gamans að gifta mig - 

hæ, hopp út í veður og vind.

Nú dugar lítið að derra sig - 

og hann rignir alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag. 

 

Rignir rignir, rignir ....

Hæ, hopp, út í veður og vind! 

 

Ég hátta prúður í hjónasæng, - 

hæ, hopp út í veður og vind. 

Og brennivínsnefi bregði í væng - 

og hann rignir alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag. 

 

Rignir, rignir, rignir ...

 

Hæ, hopp út í veður og vind! 

 

Sem veröldin forðum fór á kreik, - 

hæ, hopp út í veður og vind. 

Enn vöðum við reyk, nú er lokið leik, 

en við lyftum tjaldinu, lyftum tjaldinu, lyftum tjaldinu dag eftir dag. 

 

Og hann rignar alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag

út í veður og vind, - 

dag eftir dag! 

 


mbl.is Heggur nærri rigningarmetinu í maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband