Þegar heildin er betri en summan af einingunum.

Íslenska knattspyrnulandsliðið er gott dæmi um það þegar einingum, í þessu tilfelli mönnum, er raðað saman í heild, sem verður betri en summan af einstaklingum í því. 

Þetta getur raunar átt við mörg fyrirbæri.  

Annað gott dæmi eru kórar og sönghópar. 

Bestu söngkvartettar Íslands voru ekki skipaðir bestu söngvurum þjóðarinnar heldur jafnvel alveg ólærðum mönnum. 

MA-kvartettinn naut þess til dæmis að Jón frá Ljárskógum var með einstaklega mjúka og þýða bassarödd sem myndaði mjúkan botn, sem "klæddi" og "límdi hinar raddirnar saman. 

Kvartettinn dó þegar Jón dó, kornungur. 

Einu sinni fengu menn þá frábæru hugmynd að búa til afburðasöngkvartett með því að raða í hann fremstu óperusöngvurum þjóðarinnar. 

Hann hét auðvitað einsöngvarakvartettinn sem var réttnefndi, - því miður, ef svo má orða það. 

Það mistókst hefnilega að gera þennan kvartett að því sem til stóð, þótt hann fengi afburða stjórnanda og útsetjara. 

Raddirnar runnu ekki seman í mjúka heild og blönduðust saman í einn fjórradda hljóm, heldur heyrðust raddir hvers um sig langar leiðir, - að þetta voru einfaldlega fjórir einsöngvarar. 

Jafnvel var haft á orði að þetta væri einhver slakasti kvartett landsins. 

Mörg fleiri dæmi má nefna um að heildarútkoman verði stærri en summan af einstökum atriðum. 

Cessna 172 Skyhawk er mest selda flugvél heims og með minnstu slysatíðni lítilla véla. 

Samt er hún ekki hraðskreiðust, aflmest, rúmbest, klifrar best, burðarmest, sparneytnust eða lætur best að stjórn. 

En þegar öllu atriðin eru lögð saman kemur samt út flugvél, sem hefur sannað gildi sitt með vinsældum sínum, ekki síst fyrir það hve "fyrirgefandi" (forgiving) hún er gagnvart mistökum flugmanna við stjórn hennar. 

Hönnuðurinn, Clyde Cessna, hafði engin vindgöng, tölvur eða önnur tækniundur nútímans þegar hann hannaði 2ja sæta vélina Cessna 140 og 4ra sæta vélina Cessna 170, sem eru grunnurinn að Cessna 150, 152, 172, 182, 206, 207-8 og 210. 

Þrjár þessara véla eru mest seldu flugvélar sögunnar. 

Beechcraft gerði atlögu að Skyhawk með Beechcraft 123 Musketeer/Sundowner sem var með nýtísku "laminar flow" vænglagi á litlum vængjum, sem áttu að auka hraðann. 

En út úr þessu kom vél, sem var hægfleygari, með mun meiri ofrishraða og leiðinlegri að fljúga en Skyhawk og atlagan mistókst herfilega. 

Svipað gerðist með tvöfaldri atlögu Beechcraft og Piper með tveggja sæta vélum gegn Cessna 152. 

Vængirnir á þessum splunkunýju vélum voru með NASA vænglagi (supercritical) og breiðari sætum. 

Samt afkastaði gamla 150/152 betur að öllu leyti, var þar að auki öruggari og stóð uppi sem sigurvegari.  


mbl.is Ekkert lið eins og Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband