Öryggislending er ekki nauðlending.

Boeing 757Svo virðist sem íslenskt fjölmiðlafólk hafi aldrei heyrt orðið "öryggislending" (precautionary landing) heldur haldi, að aðeins séu til þrenns konar lendingar:  Lending, nauðlending og brotlending.  

Þetta getur verið bagalegt og jafnvel haft í för með sér afleiðingar, sem draga dilk á eftir sér í flugi síðar. 

En svo að slett sé blaðamannaslangri "selur" frétt um nauðlendingu betur en frétt um öryggislendingu. Nauðlending er auðvitað lending í algerri neyð. 

Hvað þotuna snertir í tengdri frétt á mbl.is eru alls 10 hjólbarðar á þotu af millistærð, fjórir hjólbarðar vinstra megin, fjórir hægra megin og tveir að framan eins og sést á myndinni af þotu Icelandair. 

Ef springur á einhverjum barðanum, eiga hinir að geta borið þotuna. 

Ástæðan til þess að lent er frekar á einum flugvelli en öðrum kann eftir að ljós kemur, að sprungið er á dekki kann að vera sú, að flugmaðurinn ákveður til öryggis að lenda á þeim flugvelli þar sem hann hefur sem lengsta braut og bestar aðstæður, til dæmis að vera laus við hliðarvind. 

Það er ekkert agalegt við það að flugstjórinn ákveði að fara í biðflug fyrir lendingu til þess að eyða eldsneyti og lenda vélinni eins léttri og kostur er. Hann sækist eftir sem fyllstu öryggi, og skilgreinir lendinguna sem öryggislendingu. 

Það er ekkert agalegt við það að þotan tefjist við það að skipt sé um hjólbarða eftir lendingu og heldur ekki að það rjúki úr barðanum, sem sprungið er á. 

Dæmi um ranga notkun orðsins nauðlending var hasarfrétt hér um árið um að flugmaður á lítilli eins hreyfilsvél hefði orðið að nauðlenda á flugvelli í Borgarfirði vegna þess að vélin hefði orðið eldnseytislaus. 

Hið rétta var, að flugmaðurinn hreppti mótvind á leið frá Norðurlandi til Reykjavíkur og ákvað að lenda til öryggis á flugvelli í Borgarfirði, þar sem hægt var að fá flugbensín, til þess að hafa nægt eldsneyti alla leið til Reykjavíkur í samræmi við kröfur sem kveða á um að það þurfi að vera minnst eldsneyti til 30 mínútna flugs við lendingu. 

Sömuleiðis virðist orðalagið að hlekkjast á vera orðið svo gersamlega gleymt, að orðið brotlending er alltaf notað, jafnvel þótt varla megi greina skemmdir á flugvél eftir að henni hefur hlekkst á.  


mbl.is „Allir voru geðveikt hræddir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

...að ekki sé nú talað um leikskólamál viðmælandans. Allir voru geðveikt hræddir. Það er nefnilega það. Þessi frétt er hvorki henni né blaðamanninum til sóma.  

jon (IP-tala skráð) 17.6.2018 kl. 11:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband