Styttri jarðgöng voru nefnd í athugasemd um jólin og þverun fyrir 30 árum.

Í einni af athugasemdunum, sem sendar voru sveitarstjórn Reykhólahrepps varðandi veg um Gufudalssveit um jólin í vetur, var bent á að óþarfi væri að hafa jarðgöng undir Hjallaháls svo löng, að gangamunninn yrði niðri í fjöru í Djúpafirði og kostnaðurinn með þeirri útfærslu yrði þar með mun hærri en nauðsynlegt væriDjúpifjörður, Krossgilin, vítt

Stytta mætti göngin um allt að kílómetra án þess að vegurinn út úr þeim Djúpafjarðarmegin yrði brattari en 7%, en það er sami bratti og er í norðurhluta Hvalfjarðarganga. 

Að vísu yrði vegurinn þá lagður aðeins innar yfir Djúpafjörð, en sú viðbót yrði miklu ódýrari en lengri göng. 

Djúpifjörður, Krossgilin, þröngt

Ég birti bloggpistil um þetta á sínum tíma með útskýringum á þessari athugasemd minni með myndum, sem sýndu svæðið þar sem vegurinn lægi fyrir neðan Krossgilin við austanverðan Djúpafjörð. 

Á myndunum er horft vítt og þröngt austur yfir Djúpafjörð með Hjallaháls í baksýn, og sjást krókarnir og brattinn á núverandi vegi vel, en nýr vegur út úr gangamunna myndi liggja mun neðar og verða með næstum helmingi minni bratta. 

Í tengslum við hugmyndina um að fara með veginn yfir fjörðinn má nefna, að ég greindi frá því í sjónvarpi fyrir um 30 árum að slík hugmynd hefði verið sett fram. 

Neðsta myndin hér er tekin í margumræddum Teigsskógi, en nú er þegar byrjaður söngur um "örfáar kjarrhríslur." 

Takið eftir manninum neðst á myndinni.  

Teigsskógur. Reynitré


mbl.is Leggja til brú yfir fjörðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar,

mér og vafalítið fleirum leikur forvitni að heyra af hverju vegur um Teigsskóg komi ekki til greina að þínu mati.  Meðfylgjandi mynd sýnir vissulega að "hríslurnar" eru nær því að vera myndarleg birkitré og algjörlega rétt að óþarfi er að tala réttnefndan skóg niður.  En mér finnst líka algjör óþarfi að láta sem allur skógurinn hyrfi þó lagður væri vegur um hann.  Kæmi það alls ekki til greina að þínu mati?

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.6.2018 kl. 21:06

2 identicon

Varðandi síðustu myndina af manninum við "skógarvegginn", sýnist mér maðurinn standa í forgrunni kjarrbrekku og virkar þetta eins og smá blekkingarleikur hjá Ómari. Það er rétt hjá Pétri að óþarft sé að tala skóginn niður. Hann er lágvaxinn en ekki smávaxinn að umfangi. Það er líka rétt hjá Pétri að óþarft er að láta eins og um einhverja skógareyðingu sé að ræða, enda er fyrirhugað að skerðing skógarins verði um tvö prósent. Því yrði mætt með plöntun nýrra trjáa. Að auki yrði aukið aðgengi að þessu fallega landssvæði á Hallsteinsnesi, bæði fyrir almenning að njóta og einnig til að grisja kjarrið til að gefa vænlegum trjám færi á að verða eitthvað meira en bara hríslur og skógurinn yrði því kannski í fyllingu tímans SKÓGUR, og þannig eitt af aðalsmerkjum svæðisins.

Arnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 29.6.2018 kl. 00:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband