23.7.2018 | 14:55
Þjóðsagnakennd ævilok Egils Skallagrímssonar. Sex lygasögur eða fjórar?
Egill Skallagrímsson kemur gjarnan upp í hugann þegar rætt er um Mosfell. Margt í fornsögunum er býsna ýkjukennt og þjóðsagnakennt.
Dæmi:
Hörður Grímkelsson stökk vopnaður yfir þrefaldan mannhring umhverfis hann.
Ormur sterki Stórólfsson kastaði hestvegni, fullum af heyi, ásamt hestinum hátt í loft upp.
Gunnar á Hlíðarenda stökk hæð sína í öllum herklæðum og eigi skemur aftur fyrir sig en fram.
Örvasa og blindur drap Egill Skallagrímsson tvo þræla, sem hann hafði fengið til að fara með sér út á víðavang við Mosvell og grafa silfur sitt.
Grettir sterki synti tvö afrekssund um ævina til þess að sækja eld, annað úr Drangey í land og hitt úr skipi i land í vetrarhörku í Noregi. Skálabruni og mannskaði, þar sem hann náði eldinum, varð til þess að hann var gerður að frægasta útlaga Íslandssögunnar.
Af þessum sögum gætu sögurnar af Gretti og af Gunnari á Hlíðarenda verið sannar.
Sagan af Gunnari þótti fráleit þar til Dick Fosbury varð Ólumpíumeistari í hástökki í Mexíkó 1968 og stökk fyrstur manna ekki aðeins jafn hátt aftur fyrir sig en fram, heldur hærra aftur fyrir sig en fram.
Nú stekkur nánast enginn afreksmaður í hástökki öðruvísi.
Fundu mannvistarleifar frá landnámi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er nú ekki mikið. Ósennilegri eru sögurnar sem kallaðar eru Fornaldarsögur Norðurlanda. Annars er ekki lengur litið á Íslendingasögurnar sem óskeikula sagnfræði. Það má kannski gera með Sturlungu enda er þar um samtímasögu að ræða.
Ekki finnst mér rétt að líkja Íslendingasögunum við Fosbury-stílinn í hástökki.
Sæmundur Bjarnason, 23.7.2018 kl. 15:36
Ekki ólíklegt að Dick Fosbury hafi lesið Njálu.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 23.7.2018 kl. 19:27
Fyrir daga Fosburys hefði það þótt fullkomin fjarstæða að hægt væri að stökkva jafnhátt eða hærra afturábak heldur en áfram. Sem sagt: Útilokað á bakinu.
Jafn útilokað og öllum fannst að Gunnar á Hlíðarenda gæti hafa gert þetta.
Þetta er alveg sambærilegt, finnst mér.
Ómar Ragnarsson, 23.7.2018 kl. 22:32
Sæll Ómar.
Úr kvæði Egils
um Arinbjörn hersi Þórisson; Arinbjarnarkviðu:
En Hróalds
á höfuðbaðmi
auðs iðgnótt
at ölnum Sifja
sem vin reið
af vegum öllum
á vindskers
víðum potti.
(samantekin: En iðgnótt auðs at ölnum Sifja
reið á höfuðbaðmi Hróalds sem vin af öllum vegum
á víðum botni víðkers)
iðgnótt=gnægt; ölunn Sifjar=hár Sifjar var úr gulli;
baðmur=tré; vin=fljót
Egill hefði sjálfur viljað standa í sporum hins auðuga Arinbjarnar
og vera það tré sem flóði í alsnægtum úr öllum áttum (af vegum öllum)
og hvaðanæva að>á vindskers/víðum botni.
Húsari. (IP-tala skráð) 23.7.2018 kl. 23:51
allsnægtir' átti að standa þar. (sbr. allur)
Húsari. (IP-tala skráð) 24.7.2018 kl. 00:10
Það er nú margt reyfarakennt, undarlegt, óliklegt og lygilegt í stóru markaðsbókinni, bók sem er reyndar ritskoðuð og breytt meira en nokkurri bók í heiminum. - Er einhver sem vill taka það fyrir og kryfja..?? - Það er nefnilega það.
Már Elíson, 24.7.2018 kl. 22:04
Ég hef alltaf gengið útfrá því að stökk Gunnars hafi verið langstökk, jafnfætis, án atrennu, þ.e. ekki hástökk.
Það myndi alltaf teljast nokkuð gott að stökkva hæð sína (eða lengd), tæpa 2 metra, í fullum herklæðum...jafnvel með sverð og exi í belti.
En hvað veit ég. Ekki var ég viðstaddur...
Magnús (IP-tala skráð) 25.7.2018 kl. 09:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.