3.8.2018 | 05:43
Loksins raunhæfur drægnisstaðall fyrir rafbíla.
Frameiðendur rafknúina ökutækja hafa notað alls konar aðferðir til að geta auglýst drægni þeirra. Mælistikan, sem mest var notuð var ansi langt frá raunveruleikanum, einkum hér á landi.
Bílar, sem auglýstir voru með 200 kílómetra drægni drógu stundum aðeins 100 kílómetra.
Þegar Nissan Leaf er búinn að stækka rafhlöðuna úr 24 kwst upp í 60 má hefur mátt sjá allt að 400 kílómetra drægni auglýsta.
Skásti staðallinn hefur hingað til verið hinn bandaríski EPA, en jafnvel hann sýnir of mikla bjartsýni. Evrópski staðallinn er mun lakari.
En með nýja WTLP staðlinum virðist loks komin fram mælingaraðferð, sem er nálægt veruleikanum.
Það sést með því að bera saman getu Nissan Leaf í upprunalegri útgáfu með 24 kílóvattstunda rafhlöðu og nýjustu útgáfuna með 60 kílóvattstunda rafhlöðu.
270 kílómetra drægni nýja bílsins samkvæmt WTLP er nálægt lagi, en þó verður að taka tillit til íslenska kuldans.
Og þegar notuð er hraðhleðslustöð verður að draga 20 prósent frá, og það þýðir til dæmis, að á norðurleiðinni frá Reykjavík ætti að vera hægt að komast á Blönduós á hraðhleðslustöð, en síðan ekki nema 220 á þeirri hleðslu, og þar með hvorki alla leið til Húsavíkur né Mývatns.
Ef hraðhleðsla er notuð í Staðarskála, eru 225 kílómetrar þaðan til Akureyrar, og því ráðlegra að reyna að komast alla leið til Blönduóss til að hlaða.
Í handbók Tazzari smárafbílsins sem ég nota stundum er athyglisverður fróðleikur: Við hvert stig, sem útihitinn er lægri en 20 gráður, missir rafhlaðan 1% af geymslurýmd og bíllinn eitt prósent af drægni.
Eitt prósent, það er nú ekki neitt, segir kannski einhver.
En, - bíddu við, - ef það er 10 stiga frost minnkar drægnin um hvorki meira né minna en 30 prósent, raunar jafnvel aðeins meira, rúmlega þriðjung!
Bíllinn, sem dregur 100 kílómetra eins og Tazzari bíllinn gerir í raun við bestu aðstæður, dregur þá aðeins 70 kílómetra.
Það er að vísu alveg nóg fyrir innanbæjarnot, því að innanbæjar er meðalakstur bíla rúmlega 30 kílómetrar á dag.
Mælingar mínar frá því að ég komst á þennan bíl, staðfesta þetta.
En eina kílómetratalan, sem framleiðandinn hefur gefið upp, er 130 km á hleðslunni.
Auk minni orkurýmdar bitnar notkun miðstöðvar mun meira á rafbílum en bílum með sprengihreyfli, því að sprengihreyfillinn framleiðir beinlínis ofsahita í brunahólfinu, en það gerir rafhreyfillinn ekki, enda þarf hann engan bruna og ekkert brunahólf.
Mun betri nýting á orku er aðal kostur rafhreyfils miðað við sprengi / brunahreyfil, en notkun rafmagns til upphitunar bitnar meira á rafhreyflinum.
En þegar gluggað er í hvernig þessi mikla drægni Tazzari, 130 km, fékkst á 15 kwst rafhlöðu sést, að ekið var á 50 kílómetra hraða á jafnsléttu og líkast til með hámarks leyfilegum þrýsting, 45 pund í dekkjunum.
Dekkjaþrýstingur hefur áhrif. Á Tazzari er mælt með 36 punda þrýstingi.
Áhrif aksturshraðans kemur hvað best í ljós í notkun rafbíla og rafhjóla.
Þannig er nýja rafhjólið Niu N-GTX auglýst með allt að 180 kílómetra drægni ef því er ekið á jafnsléttu á 40 kílómetra hraða. En loftmótstaða er lang stærsti hluti mótstöðu í akstri, og hún vex í öðru veldi, þannig að á 80 kílómetra hraða, sem er hámarkshraði þessa hjóls, er drægnin sennilega aðeins 50-60 kílómetrar.
Það er ágiskun mín, - framleiðandinn gefur þessa drægni ekki upp.
Leaf söluhæsti rafbíllinn í Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
""Mun betri nýting á orku er aðal kostur rafhreyfils miðað við sprengi / brunahreyfil, en notkun rafmagns til upphitunar bitnar meira á rafhreyflinum.""
Þetta er rétt en sett fram í röngu samhengi.Ómar
70% af allri raforku sem er á markaði í heiminum er framleidd með jarðefnaeldsneyti. Orka landsvirkjunar er á heimsmarkaði og þegar þú notar orku af neti í Reykjavík eða á Blönduósi ertu í reynd að tapa orku af neti sem er framleit að meginhluta með með jarðefnaeldsneyti sem þýðir að þú ert að brenna jarðefnaeldsneyti þegar þú notar þessa orku. Þegar þetta er tekið saman kemur í ljós að til að koma rafmagnsbíl við bestu aðstæður til Akureyrar þarf í reynd að brenna meira af jarðefnaeldsneyti en ef bíllin væri með venjulegri gamaldags bensínvél.
https://mummij.blog.is/blog/mummij/entry/2200623/
Guðmundur Jónsson, 3.8.2018 kl. 10:33
Loftmótstaða bíla er mun minni nú en áður, en ég held hún sé enn nær því að fylgja hraðanum í 3. veldi en í öðru veldi.
Mín reynsla er sú, að drægnin styttist að jafnaði um meira en 1 %/°C og ekki línulega, heldur enn meir við og undir frostmarki, þegar ýmis hitunarbúnaður kemur inn til viðbótar og hitatöp vaxa.
Bjarni Jónsson, 3.8.2018 kl. 14:49
Þetta síðasta rímar við mína reynslu síðan í nóvember. En vegna þess að á rafreiðhjólinu og Honda PCX hjólinu er ég vanur kulda, hef ég ekki kveikt nema örfáum sinnum á miðstöð rafbílsins í smástund þegar kaldast var í vetur.
Ómar Ragnarsson, 3.8.2018 kl. 20:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.